Skírnir - 01.09.2016, Page 160
Um og upp úr seinna stríði varð sannkölluð sprenging í útgáfu end-
ur minningarita og sjálfsævisagna og nærtækt að álykta að sama
ástæða búi að baki þessum skrifum og mörgum skáldsögum sama
tímabils.13 Báðar bókmenntagreinarnar takast á við hinar stórstígu
breytingar sem nútímavæðingin og flutningar úr sveit í borg höfðu
í för með sér.
Í íslenskri bókmenntasögu sem út kom á ensku bendir Ástráður
Eysteinsson (2006: 413) á áhugavert atriði varðandi tengsl sveita-
sagna og æviskrifa þessa tímabils. Að hans mati eiga æviskrifin og
sveitasögurnar sér sameiginlegan frásagnarheim (e. narrative world),
þ.e. sveitina, þar sem yfirgnæfandi meirihluti aðalpersóna æviskrif-
anna ólst upp um og upp úr aldamótunum 1900. Frásagnarheimur-
inn var því heimur sveitarinnar, gjarnan séður í spegli æskuáranna,
og þessi heimur hafði áhrif á viðhorfið til samtímans. Því næst
nefnir Ástráður að tilveran í sveitinni hafi verið vandlega „kóðaður“
lífsmáti sem stýrði frásögnunum sem tóku til félagslegra þátta, jafn-
vel hjá þeim sem þá þegar bjuggu í þéttbýli. Nýir „kóðar“ höfðu
því enn ekki öðlast gildi í frásögnunum, hvort sem um var að ræða
æviskrif eða skáldsögur. Af þeim sökum var það ekki einungis
fortíðarþrá sem réð því að sveitasagan hélt velli jafn lengi og raun ber
vitni, heldur einnig það að frásagnarlögmál prósabókmenntanna
voru samofin lífsmáta sveitanna.
Gróflega má segja að sveitasögur áranna um og eftir heimsstyrj-
öldina síðari hafi borgina eða annað þéttbýli sem nokkurskonar bak-
tjald ógnar við hið hreina og eðlilega ástand sveitarinnar. Þetta eru
raunsæissögur sem oft og tíðum gerast um það bil þrjátíu til fjöru-
tíu árum áður en þær eru skrifaðar. Þær fjalla því um veruleika sem
er horfinn, veruleika sem hvarf með fólksflutningunum fyrir og eftir
stríð. Á árunum eftir stríð fer svo að bera meira á borginni sem meg-
insögusviði skáldsagna en þá er sveitin þó gjarnan einskonar viðmið
sem heldur enn stöðu sinni sem betri og eðlilegri staður en borgin.
396 ingi björn guðnason skírnir
13 Þessi þróun kemur glögglega fram í viðauka við bók Sigurðar Gylfa Magnús-
sonar, Fortíðardraumar sem Monika Magnúsdóttir bókasafns- og sagnfræðingur
tók saman. Þar sést að útgefin verk á fjórða áratugnum voru á milli 25 og 30, en
á fimmta áratugnum fer fjöldi þeirra yfir 150 og heldur svo áfram að stigmagn-
ast fram á níunda áratuginn (Monika Magnúsdóttir 2004: 354).