Skírnir - 01.09.2016, Page 168
Heimur sveitarinnar, eldri kynslóðarinnar, lífsbaráttu í skauti náttúrunnar
er að hrynja. Sumarið er liðið, harður vetur borgarlífsins, nútímamenning-
arinnar fer í hönd. Auðvitað lítur Ólafur ekki á sveitalífið sem samfellda
sælu, bækur hans eru til vitnis um það; fremur sýnist mér það vera viðhorf
hans að þessi umskipti hafi verið alltof snögg, fólk hafi „tapað áttum“, og
hætt sé við að með sveitamenningunni fari líka fjölmörg siðferðileg
verðmæti í súginn sem betur væru varðveitt. Í þeirra stað heldur ómenningin
innreið sína. Það er hlutverk bókmenntanna að sporna við þessari þróun.
(Halldór Guðmundsson 1980: 30)
Hreiðrið er reyndar Reykjavíkursaga en engu að síður snýst hún
um gildi bændasamfélagsins andspænis nútímavæðingunni, erlendri
fjöldamenningu og módernisma í skáldsagnagerð. Sagan gerist að
mestu leyti undir lok sjöunda áratugarins og við upphaf þess átt-
unda (1972), það er að segja á svipuðum tíma og meginfrásögn þrí-
leiksins á sér stað. Ef við gefum okkur að Hreiðrið og fleiri verk
Ólafs Jóhanns séu meðal þeirra verka sem reka endahnútinn á
sveitasagnahefðina gefur þessi tímaskörun tilefni til nokkurra vanga -
veltna.21
Sá rauði þráður sem Halldór Guðmundsson nefnir að liggi um
höfundarverk Ólafs Jóhanns og felst í því að gæta að sveitamenn-
ingunni og siðferðilegum verðmætum hennar, á sér nokkra sam-
svörun í þríleiknum. Spurning sögumanns, „til hvers að skrifa um
íslenska sveit …?“ fellur að þessu þótt hann gefi ekki ákveðið svar
við spurningunni. Verk hans er hinsvegar til marks um að lífið í
sveitinni, og menning hennar sé þess virði að færa í letur og bjarga
þannig frá glötun. Sögumaður er þó ekki einn um þessa iðju því að
í Birtunni á fjöllunum er greint frá því að skáldið Starkaður fáist við
svipaða iðju á þeim tíma sem sögumaður dvelur sem barn í sveitinni.
Skáldið fæst við verk sem nefnt er héraðslýsing og hefur svipað
markmið og Halldór Guðmundsson bendir á að höfundarverki
Ólafs Jóhanns sé ætlað. Í formála Starkaðar að verkinu er markmið -
um þess skýrt lýst:
404 ingi björn guðnason skírnir
21 Fleiri af síðari verkum Ólafs Jóhanns má setja í þetta samhengi, t.a.m. stórvirkin
þrjú um Pál Jónsson blaðamann: Gangvirkið (1955), Seið og hélog (1977) og
Dreka og smáfugla (1983).