Skírnir - 01.09.2016, Page 187
423björguðu danir íslenskunni?
ilda sem þeir hafa viðað að sér, hef ég rannsakað af miklum áhuga, og um-
talsverður hluti af þessu verki byggist á frásögnum þeirra. Það hefur skipt
mig miklu máli að geta ráðfært mig við fólk sem ég vissi að hefði svo mikla
þekkingu á fortíðinni. (Saxo 2000: 15).1
Af tilvitnuninni má ráða að lærðum Dönum hafi verið kunnugt um
ritstörf Íslendinga þegar á miðöldum og að þeir hafi leitað til þeirra
um heimildir. Ekki dylst lesandanum að Saxa finnst mikið til sögu-
ritunar Íslendinga koma, ekki síst í ljósi erfiðra lífsskilyrða sem
þeim voru búin í harðbýlu landi. Þau viðhorf sem hér birtast hafa
æ síðan verið eins og rauður þráður í umfjöllun Dana um Ísland og
Íslendinga.
Annette Lassen (2014: 58) segir áhuga á fornbókmenntum Ís-
lendinga fyrst hafa tengst söguritun, enda hafi framan af ekki verið
efast um sagnfræðilegt gildi þeirra. Þetta hlutverk kallaði á þýðingar
á sögunum og þegar á sextándu öld hafi verið unnið að þýðingum
á verkum sem tengdust sögu Noregskonunga, og sú fyrsta verið
gefin út í Kaupmannahöfn árið 1594. Hans Bekker-Nielsen (1979:
146) segir að Danir hafi haft áhuga á íslenskum handritum fyrir 1600
og í inngangi að þýðingu sinni á Crymogæu Arngríms Jónssonar
lærða bendir Jakob Benediktsson á, að íslenskar bókmenntir hafi
gegnt nokkru hlutverki við söguritun Dana. Arngrímur nam við
Hafnarháskóla í fjögur ár og að loknu námi árið 1589 varð hann
skólameistari á Hólum. Um það leyti fól Guðbrandur Þorláksson
biskup honum að semja varnarrit á latínu gegn lastskrifum útlend-
inga um Ísland (Helgi Þorláksson 2003: 193–199) og því verki lauk
skírnir
1 „Heller ikke de flittige islændere skal her forbigås i tavshed. Disse folk har, fordi
deres jord fra naturens hånd er så ufrugtbar, intet grundlag for pragt og luksus og
fører konstant en tilværelse i nøjsomhed, hvor de ofte bruger hvert øjeblik af deres
liv på at opdyrke kendskabet til andres bedrifter — og derved opvejer deres armod
med ånd. For dem er det en stor fornøjelse at kende og viderebringe alle folkes-
lags historie, for i deres øjne er det lige så glorværdigt at beskrive andres dyder som
at demonstrere sine egne. De skatte af historiske vidnesbyrd de har opbygget, har
jeg med stor interesse gransket, og en ikke ubetydelig del af nærværende værk er
udfærdiget på grundlag af deres beretninger. Jeg har absolut værdsat at kunne råd-
føre mig med folk som jeg vidste havde så indgående et kendskab til fortiden“
(Saxo 2000: 15). Þýðingin á latneska textanum á dönsku er eftir Peter Zeeberg, en
greinarhöfundur þýddi danska textann á íslensku.