Skírnir - 01.09.2016, Page 188
hann árið 1592. Í ferð sinni til Kaupmannahafnar hið sama ár hafði
hann handrit að varnarritinu (Brevis commentarius de Islandia —
Stutt ritgerð um Ísland) í fórum sínum, en þar vitnaði hann m.a. í
íslenskar heimildir. Meðan á dvölinni ytra stóð kynntist Arngrímur
söguritara konungs, Arild Huitfeldt, sem vann um þær mundir að
viðamiklu riti um sögu Danmerkur, en verkið var skrifað á dönsku
og kom út í tíu bindum á árunum 1595–1604. Enn fremur kynntist
Arngrímur tveimur upprennandi sagnfræðingum, Niels Krag og
Jon Jacobsen Venusin sem báðir áttu eftir að verða konunglegir
sagnaritarar, og vann síðar með fræðimanninum Ole Worm eins og
fleiri Íslendingar (Bekker-Nielsen 1979: 146). Jakob Benediktsson
leiðir líkur að því að Arngrímur hafi sýnt dönsku sagnariturunum
handrit sitt og vakið þannig áhuga þeirra á íslenskum fornritum.
Fram til þessa höfðu Danir ekki nýtt sér íslensk handrit með
beinum hætti við söguskrif, enda skildu þeir ekki íslensku. Hins
vegar höfðu þeir notfært sér ýmsa útdrætti og þýðingar á Noregs-
konungasögum sem gerðar höfðu verið í Noregi á sextándu öld.
Auk þess að skýra dönskum sagnfræðingum frá íslenskum heim-
ildum, sem að gagni máttu koma við ritun sögu danska ríkisins,
þýddi Arngrímur í kjölfar heimsóknarinnar a.m.k. tvö íslensk rit á
latínu og gerði útdrætti úr öðrum fyrir Huitfeldt veturinn 1592–
1593. Árið 1596 fékk Arngrímur í hendur konungsbréf sem bauð
öllum Íslendingum að honum yrðu látin í té heimildarrit, annað -
hvort að láni eða í uppskriftum. Í bréfum til Arngríms um sama
leyti lét Niels Krag í ljós óskir sínar um að Arngrímur sinnti heim-
ildasöfnun sem gæti fyllt upp í fyrri útdrætti hans um konunga-
sögur, auk þess sem hann lýsti eftir heimildum um elstu sögu
Norðurlanda allra (Jakob Benediktsson 1985: 16–19).
Hrein tunga og þjóðerni
Það er athyglisvert að í þriðja kafla Crymogæu fjallar Arngrímur
lærði (1985: 96) um tungu Íslendinga og þá sérstaklega hreinleika
hennar. Þar segir: „Augljóst er að tunga Íslendinga er norsk, það er
að segja hin forna og óspillta norska, sem komin er af fornri gotn -
esku, en hreina tala hana nú Íslendingar einir, og því köllum vér
424 auður hauksdóttir skírnir