Skírnir - 01.09.2016, Page 190
fengu sína Biblíu. Útgáfa Biblíunnar á íslensku skipti miklu máli
fyrir stöðu tungunnar í samfélaginu, en með henni varð mál kirkj-
unnar íslenska. Siðaskiptin í Danmörku árið 1536 voru jafnvel enn
mikilvægari fyrir þróun danskrar tungu þar sem ekki hafði verið
hefð fyrir því í Danmörku að rita á móðurmálinu eins og á Íslandi.
Skautrup segir prenttæknina og siðaskiptin hafa gert gæfumuninn
fyrir þróun danskrar tungu. Fjölmargir textar, sem snertu valda-
mestu stofnun þess tíma, kirkjuna, voru nú skrifaðir og gefnir út á
dönsku í stað latínu áður. Þessu til staðfestingar nefnir Skautrup
(1947: 123–126) að varðveitt séu um 150 prentverk á dönsku frá
tímabilinu 1500–1550 en um 1375 frá árunum 1550–1600. Sum þess-
ara rita hafa vafalítið ratað til Íslands og í sumum tilfellum hefur
þótt ástæða til að þýða efni þeirra á íslensku. Lestur bókanna og
þýðing á íslensku útheimti kunnáttu í dönsku ritmáli. Þannig ruddi
dönsk tunga sér smám saman til rúms hér á landi gegnum ritaða
texta, en um leið styrktist íslensk tunga við það að málið var notað
til að fjalla um ný efnissvið, þar sem reyndi á nýjan orðaforða og
ritun ólíkra textagerða og stíl. Textarnir áttu erindi við allan þorra
landsmanna og lestur jókst því á móðurmálinu. Það þarf ekki að
koma á óvart í ljósi skyldleika málanna og þess að oft var þýtt úr
dönsku eða danskir textar hafðir til hliðsjónar við þýðingar úr
þýsku eða latínu eins og m.a. tíðkaðist við sumar sálmaþýðingar
(Páll Eggert Ólason 1924), að nýjar textaþýðingar hafi fyrst um sinn
haft á sér danskt yfirbragð og orðaforði og málnotkun dönsku-
skotin. Rannsókn Westergård-Nielsens á tökuorðum í íslenskum
textum á sextándu öld, leiddi enda í ljós að þýðingar og aukin
notkun lesefnis á dönsku setti mark sitt á íslensku, einkum orða -
forðann, en einnig má finna dæmi um önnur máláhrif, svo sem á
beygingar og setningaskipan (Westergård-Nielsen 1946: lxxxi–
lxxxii), sbr. kenningar um áhrif tungumálatengsla á orðaforða og
formgerð viðtökumálsins (Aitchison 2013; Matras 2009).
Í kjölfar siðaskipta má finna dæmi um að Íslendingum þætti
tungan þróast með óæskilegum hætti. Á það benti Arngrímur lærði
íCrymogæu,3 eins og áður sagði, og einnig Guðbrandur Þorláksson
426 auður hauksdóttir skírnir
3 Sjá nánar um málhreinsunarviðhorf Arngríms lærða í greinum Gottskálks Jens-