Skírnir - 01.09.2016, Side 191
427björguðu danir íslenskunni?
(Kjartan G. Ottósson 1990: 20). Arngrímur segir landa sína apa eftir
Dönum og Þjóðverjum í ræðu og riti. Væntanlega á Arngrímur hér
fyrst og fremst við lærða menn og æðstu embættismenn Íslands,
enda fáir Danir búsettir á landinu á þessum tíma, og því tæpast um
bein samskipti við Dani að ræða nema í undantekningartilfellum.
Sú öpun, sem Arngrímur finnur að, snertir líklega slettur og gæti
allt eins átt við tökuorð úr öðrum málum en dönsku. Kaupmanna-
hafnarháskóli var stofnaður árið 1479 og þar hlutu æðstu embætt-
ismenn danska ríkisins menntun sína, þar á meðal Íslendingar. Eftir
siðaskiptin fjölgaði þeim Íslendingum, sem stunduðu nám við
Hafnarháskóla. Skautrup bendir á að Hafnarháskóli hafi lengi vel
ekki verið sú stoð fyrir móðurmálið, sem vonir hefðu staðið til, og
að öldum saman hafi þar verið ríghaldið í latínu, sem hafi komið
niður á þróun dönskunnar sem tungu vísinda og fræða. Þar við
bættist að margir velmegandi Danir sendu syni sína til útlanda til að
menntast og forframast, einkum til Þýskalands, enda var litið á dvöl
erlendis sem nauðsynlegan þátt í menntun yfirstéttarinnar (Skaut-
rup 1947: 123, 130). Skautrup bendir einnig á að með siðaskiptunum
í Danmörku hafi tengslin við Þýskaland orðið enn meiri en fyrr og
þessa megi víða sjá stað, m.a. í fjölda þýskra tökuorða í dönsku.
Margir Þjóðverjar hafi verið búsettir í Danmörku, m.a. handverks-
menn og framámenn í borgarastétt, og því hafi margir notað þýsku
sem samskiptamál við hlið dönsku (Skautrup 1947: 252–263). Þegar
í upphafi sautjándu aldar hafi farið að bera á gagnrýni á erlend áhrif
í dönsku, einkum frá bragfræðingum, málvísindamönnum og
skáldum. Andstaðan við þau hafi síðan vaxið til mikilla muna þegar
móðurmálshreyfingum í Þýskalandi óx fiskur um hrygg. Danska
þótti hafa farið halloka fyrir þýsku og til að bæta gráu ofan á svart
fannst mörgum sjálfsagt að bæta frönskum tökuorðum við þýsk-
danska blendinginn. Viðhorfin til tökuorða og erlendra áhrifa í
dönsku urðu smám saman neikvæðari og æ fleiri settu jafnaðar-
merki milli þess að vera Dani og þess að bera hag móðurmálsins
fyrir brjósti (Ilsøe 1991: 51).
skírnir
sonar (2003, 2008) og í bók Kjartans G. Ottóssonar (1990) um sögu málhreinsunar
á Íslandi.