Skírnir - 01.09.2016, Blaðsíða 193
429björguðu danir íslenskunni?
… úir og grúi af dönskum, þýzkum, frönskum og latneskum orðum, svo
að almúgamenn skilja naumast helminginn af því. … Orsök þessa er eink-
anlega sú léttúð að láta sér þykja meira koma til þess, sem erlent er en inn-
lent. Í öðru lagi rak nauður til þess, er inn voru leiddar norskar réttar -
farsvenjur, og að lokum er það svo, að enginn hefir fundið ráð til að verj-
ast þessari misnotkun málsins. Jafnvel þeir, sem rita vilja hreina íslenzku,
nota sjaldan málið hreint, en viðhafa mest latneska talshætti og orðaskipan,
þótt annarra áhrifa gæti einnig. (Eggert Ólafsson 1981, I: 28)
Hvergi á landinu er málið sagt jafnbjagað og blandað erlendum
orðum og á Suðurlandi, einkum orðum af latneskum uppruna, en
einnig þýskum og frönskum orðum. Orsakir þess eru aðallega
sagðar fjórar: 1) verslun Þjóðverja fyrir siðaskiptin og á siðaskipta-
tímanum, 2) útlendingar hafi sest að og ýmist haft umboð eða emb-
ætti á hendi, en einnig hafnir og verslunarstaðir þar sem fólkið sé
flest, 3) Alþingi, þar sem margt manna komi saman, bæði bændur
og lögréttumenn. Málið sem þar sé notað við málsóknir hafi bjag-
ast, auk þess sem tekin hafi verið upp fjölmörg erlend orð og tals-
hættir sem alþýða manna, einkum ungir menn, skilji ekki, en telji sér
þó sæmd í að nota þótt orðin og merking þeirra sé öll afbökuð í
meðferðinni, 4) latínuskólinn í Skálholti, þaðan sem fjöldi erlendra
orða og orðatiltækja hafi borist til alþýðu manna.
Það er ekki aðeins, að prestarnir skreyti ræður sínar slíku orðaflúri, heldur
hafa bændurnir lært og læra stöðugt mikið af slíkum orðum, þegar þeir,
sem títt er, koma í Skálholt, því að þeir eru hnýsnir á hvers konar fróðleik.
Nú á dögum gætir þessa þó minna, því að það þykir óþarfi að nota latneska
talshætti, en hins vegar eru þýzkar og franskar orðslettur meira í tízku. Það
lætur annars vel í eyrum útlendinga, þegar bændur og aðrir ólærðir menn
varpa á þá kveðju á latínu og segja: Salve Domine, bonus dies, bonus vesper,
gratias, proficiat, Dominus tecum, vale o.s.frv. Prestar og lærðir menn nota
bæði þessa talshætti og aðra slíka daglega, ekki aðeins sunnanlands, heldur
einnig hvervettna annars staðar. (Eggert Ólafsson 1981, II: 218–219)
Það vekur athygli að danskar slettur eru einungis nefndar til sög-
unnar í Kjósarsýslu en ekki í öðrum landshlutum. Hins vegar eru
orð og talshættir úr þýsku, frönsku og latínu tíundaðir. Hér ber að
hafa í huga að tiltölulega fáir Danir bjuggu fast í landinu fram undir
skírnir