Skírnir - 01.09.2016, Page 197
433björguðu danir íslenskunni?
gera einnig skrif Magnúsar Ketilssonar sýslumanns í Hrappsey. Í
tímaritinu Nye Maanedstidender frá árinu 1776 ritar Magnús eftir-
tektarverða grein á dönsku undir yfirskriftinni „Kort Betænkning
om et nyt Sprog paa Island“. Þar kemur fram að honum hafi oftar
en einu sinni verið tjáð að sumir landsmenn vilji að dönsk tunga
verði innleidd alls staðar á landinu þar sem slík tilhögun mundi
auðvelda margt og stuðla að skilningi og kærleika milli þjóðanna.
Ekki segist Magnús draga þjóðernislegan tilgang þessara landa sinna
í efa né heldur færni þeirra í máli forfeðranna, sem og í dönsku sem
þeim virðist kær. Engu að síður geti hann ekki fallist á hugmynd-
ina. Það mundi að sönnu auðvelda margt að ekki þyrfti að þýða
umtalsverðan fjölda málskjala (Tingsakter) og þess háttar opinbert
efni á íslensku, og e.t.v. sitthvað tengt versluninni. Hvað hið fyrra
varðar segir Magnús engan sérstakan skort hafa verið á fólki, sem búi
yfir nægilegri kunnáttu á þessu sviði, og í tengslum við verslunina
hafi menn alltaf getað bjargað sér þar sem kaupmennirnir komi
hingað ungir að árum og tileinki sér eins konar verslunarmál eða
hálf-íslensku sem íbúarnir lagi sig einnig að á sinn hátt. Dæmin
sanni enn fremur að sem best sé hægt að versla við Frakka, Eng-
lendinga eða Hollendinga án þess að aðilar skilji hvor annan til fulln -
ustu. Þá sé einnig alþekkt að innfæddir Danir, meira að segja í
Kaupmannahöfn, þrátti oft um kaup og sölu sín á milli þótt þeir tali
sama málið. Á hinn bóginn vilji hann láta skynsömum mönnum það
eftir að íhuga hvort yrði auðveldara fyrir Íslendinga að tala, lesa,
syngja eða skilja guðs orð á dönsku eða íslensku. Önnur rök fyrir
því að taka upp dönsku séu þau að íslensk tunga henti ekki til að
fjalla um vísindi. Magnús segist ekki vita hvort þar til bærir menn
hafi reynt að nota málið í þeim tilgangi í seinni tíð, en þó sé honum
stórlega til efs að ávinningurinn af nýju fyrirkomulagi yrði svo mik-
ill og ótvíræður að heil þjóð vilji eða ætti að leggja niður tungu feðra
sinna og taka upp aðra í hennar stað. Og hann spyr hvað ætti að
standa í vegi fyrir því að fjallað sé um málefni vísindalegs eðlis á ís-
lensku, rétt eins og á dönsku, ekki síst með hliðsjón af dæmum úr
fortíðinni sem sýni með óyggjandi hætti að hin gamla norræna
tunga hafi til þess alla burði. Og hverjum yrði heiður af því að
eyðileggja, afnema eða leggja niður svo forna og göfuga tungu, þá
skírnir