Skírnir - 01.09.2016, Page 199
435björguðu danir íslenskunni?
Það er athyglisvert að bæði Eggert Ólafsson og Magnús Ketils-
son höfða til danskra og erlendra fornfræðinga um að koma ís-
lenskunni til varnar. Hér skiptir máli að bæði tímarit Magnúsar og
Ferðabókin voru skrifuð á dönsku og lesendahópurinn ekki ein-
ungis Íslendingar. Á átjándu öld höfðu þjóðernishugmyndir smám
saman náð undirtökunum í Danmörku eins og annars staðar í álf-
unni og í því samhengi var móðurmálið í lykilhlutverki (Holt og
Gubbins 2002: 1–5) ásamt sögu landsins. Danskan styrkti stöðu sína
á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í menntakerfinu, þar sem lat-
ínan hafði áður verið í öndvegi. Það var ekki einfalt mál í fjöltyngdu
ríki. Magnús Ketilsson var fæddur árið 1732 og hóf laganám við
Hafnarháskóla 1752, tvítugur að aldri. Fram til ársins 1736 fór öll
kennsla í Hafnarháskóla fram á latínu, en upp frá því var farið að
kenna á dönsku í lagadeildinni og síðan smám saman í öðrum
deildum háskólans. Magnús Ketilsson hafði því stundað nám sitt á
dönsku og hið sama átti við um suma samtímamenn hans, einkum
veraldlega embættismenn. Kennsla á dönsku í Hafnarháskóla ýtti
undir dönskukunnáttu Íslendinga og styrkti þannig einnig stöðu
málsins hér á landi. Með auknum ítökum Dana í stjórnkerfinu á Ís-
landi varð dönskukunnátta í æ ríkari mæli lykill að góðum emb-
ættum og kjörum. Miklir hagsmunir gátu þess vegna verið fólgnir í
því að hafa dönsku á valdi sínu. Bréf til Landsnefndarinnar fyrri frá
1770–1771 sýna að allir æðstu embættismenn landsins, þ.e. Ólafur
Stephensen amtmaður, Finnur Jónsson Skálholtsbiskup, Gísli
Magnússon Hólabiskup, Skúli Magnússon landfógeti og lögmenn-
irnir Björn Markússon og Sveinn Sölvason, sendu bréf sín á dönsku
og auk þess allir sýslumenn nema tveir. Bréf Bjarna Pálssonar land-
læknis voru rituð á dönsku að einu frátöldu sem átti erindi við
almenning. Hins vegar rituðu tveir þriðju hlutar presta bréf sín á
íslensku og öll bréf frá íslenskum almenningi voru á íslensku
(Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir 2016: 117–139). Allir þeir embættis-
menn, sem hér hafa verið nefndir stunduðu nám við Hafnarháskóla.
Bréfriturum var í sjálfsvald sett hvort þeir rituðu til Landsnefndar-
innar á íslensku eða dönsku, og ætla má að þeir embættismenn, sem
skiluðu inn áliti á dönsku, hafi sjálfir haft vald á ritmálinu. Það segir
þó ekkert til um hvort eða hve vel þeir gátu talað dönsku. Smám
skírnir