Skírnir - 01.09.2016, Page 201
437björguðu danir íslenskunni?
verið búsettur í landinu og auk þess var hluti íbúa danska ríkisins
þýskumælandi. Þýsk tunga og menning máttu sín því mikils,
einkum í bæjum og þá sér í lagi í Kaupmannahöfn. Manntal frá
árinu 1699 sýnir að hlutfall þýskumælandi í Kaupmannahöfn hafi
verið 20% og að þjóðfélagsstaða Þjóðverjanna hafi verið afar sterk.
Margir aðalsmenn voru þýskir og Þjóðverjar voru hlutfallslega
margir í efstu lögum borgarastéttarinnar. Enn fremur var fjöldi
embættismanna, kaupmanna og iðnaðarmanna þýskur og Þjóð -
verjar höfðu sterk ítök í hernum. Þess vegna höfðu margir áhuga á
að læra þýsku, og danska og þýska þrifust hlið við hlið án teljandi
vandræða. Með vaxandi þjóðernisvitund Dana varð hér breyting á.
Vibeke Winge bendir á að það geti verið erfitt að kortleggja það ferli
sem leiðir til þróunar þjóðernisvitundar, en meðal þess sem megi
greina sé einmitt aukin vitund um eigin menningu og tungu, sem
smám saman leiði til almennrar höfnunar á því sem komi að utan,
sé erlent. Rekja megi aukna vitund um gildi móðurmálsins aftur til
siðbreytingarinnar þegar latínan vék fyrir móðurmálinu, en mark-
verðar breytingar hafi einnig orðið á sautjándu öld þegar til varð
hreyfing í Danmörku að þýskri fyrirmynd þar sem gildi tungunnar
fyrir föðurlandið var haldið á loft. Markmiðið var að styrkja móður-
málið og berjast gegn óþarfri notkun erlendra mála, einkum latínu
og grísku, en viðhorfin voru ekki þjóðernisleg í sama skilingi eins
og síðar varð. Áhrifa þessarar hreyfingar gætir víða í textum frá
sautjándu og átjándu öld. Með aukinni þjóðernisvitund hafi verið
farið að líta svo á að það færi best saman að vera Dani og tala
dönsku. Lagst var gegn því að nota þýsku í aðstæðum þar sem unnt
var að nota dönsku, og þýsk áhrif á dönsku og þýskar slettur voru
gagnrýndar. Stærsti og áhrifamesti hópur útlendinga í Danmörku
voru Þjóðverjar og smám saman færðist gagnrýnin á tungu þeirra að
vissu leyti einnig á þýskt þjóðerni og Þjóðverja í heild. Mál þeirra,
blendingsmál af þýsku og dönsku, varð aðhlátursefni og skopast að
því í bókmenntum og víðar (Winge 1991: 89–99, 103–104).
Til að hefja dönsku til vegs og virðingar var tekið til við að
hreinsa málið af erlendum slettum, einkum þýskum. Margir danskir
fræðimenn og embættismenn einbeittu sér nú að því að rannsaka
og auka þekkingu sína á eigin tungu og sögu og ein birtingarmynd
skírnir