Skírnir - 01.09.2016, Page 203
439björguðu danir íslenskunni?
Kommission árið 1772, sem enn starfar og hefur það hlutverk að
halda utan um útgáfumál (Bekker-Nielsen 1979: 147–151). Skautrup
segir útgáfustarfsemi Árnastofnunar hafa verið afar þróttmikla
fyrsta hálfan annan áratuginn eða svo lengi sem krafta Jóns Eiríks-
sonar naut við. Á tímabilinu 1772–1787 voru gefin út 30 bindi á
vegum Árnastofnunar (Skautrup 1953: 153–154). Árið 1772 stóð
Árnastofnun fyrir þýðingu og útgáfu á Njálssögu á dönsku og
þremur árum síðar kom út þýðing á Gunnlaugssögu ormstungu.
Víga-Glúmssaga kom út árið 1786 og Eyrbyggja árið 1787 og eftir
aldamótin 1800 færðist enn frekara líf í þýðingar og rannsóknir á ís-
lenskum bókmenntum (Annette Lassen 2014: 58–59). Þar skipti
tíðarandinn miklu máli, ekki síst ríkjandi straumar þjóðernis og
rómantíkur þar sem hið norræna var í brennidepli. Mörg róman-
tísk, dönsk skáld, m.a. Adam Øehlenschläger og N.F.S. Grundtvig,
fremstu og ástsælustu skáld Dana um aldamótin 1800, sóttu sér yrk-
isefni og efnivið í íslenskar fornbókmenntir.
Þessi gríðarlegi áhugi á bókmenntaarfinum skipti miklu máli
fyrir Íslendinga. Danir kunnu ekki íslensku og því var leitað eftir
aðstoð Íslendinga við þýðingar og túlkun verkanna. Þannig urðu
til samvinnuverkefni milli danskra og íslenskra fræðimanna, þar sem
danska var markmálið, en ekki latína eins og áður, og íslensku- og
dönskukunnátta lykilatriði. Þýðingar, rannsóknir og útgáfa sköp -
uðu störf og lifibrauð fyrir Íslendinga í Höfn. Þá hefur áhugi Dana
og annarra útlendinga á íslenskum bókmenntum vafalítið ýtt undir
stolt Íslendinga yfir eigin menningu og tungu og jafnvel blásið þeim
þjóðernisvitund í brjóst.
En íslensk tunga skipti Dani einnig máli á annan hátt. Með auk-
inni þjóðernisvitund var í auknum mæli farið að safna gömlum
dönskum textum og rannsaka þá, m.a. lagatexta, spakmæli og þjóð -
vísur. Vegna breytinga á danskri tungu gat það verið þrautin þyngri
að skilja orðin og merkingu textanna og í slíkum tilvikum gat ís-
lenska verið lykill að skilningi þar sem hún var upprunalegri. Eins
og áður er getið breyttust viðhorf Dana til þýsku smám saman. Á
síðari hluta átjándu aldar var í auknum mæli hvatt til þess að danska
væri notuð í stað þýsku og andstaða við þýsk áhrif á dönsku varð
áberandi. Sumir danskir málvísindamenn hvöttu til málhreinsunar,
skírnir