Skírnir - 01.09.2016, Page 210
í dönsku og að við ritun slíkra bóka sé mikilvægt að taka mið af
upprunamálinu (Stamsproget), en til þessa hafi skort á að höfundar
málfræðibóka hafi búið yfir slíkri þekkingu. Í málfræðibókum ætti
ekki einungis að mæla fyrir um hvernig eigi að mynda orð, heldur
ætti fremur að lýsa því hvernig þau hafi alla jafna verið mynduð og,
ef unnt reynist, hvers vegna og af hverju þessi notkun sé til komin.
Hvað dönsku og sænsku áhræri sé ómögulegt að meta slíkt án þekk-
ingar í upprunamálinu. Þar sem danska sé blendingur af fornnor-
rænu og þýsku, þá leiði af sjálfu sér að upprunamálið hljóti að vera
mikilvægt hjálpartæki til að hreinsa, bæta og fegra móðurmálið. Því
meira sem það fjarlægist norrænu því fjær verði það uppruna sínum,
eðli og sérkennum. Rask segir það hafið yfir allan vafa að danska til-
heyri málaflokki sem sé hliðstæður germönsku, að tunguna megi
kalla systur sænskunnar og þessar tungur ásamt færeysku og norsku
séu komnar af upprunamálinu íslensku (Rask 1811: xvi). Danskt
málkerfi beri öll merki norræns uppruna síns, en engu að síður blasi
við að danskan hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá þýsku vegna
langvarandi tengsla málanna.
Af þessu má sjá að Rask ætlaði íslenskunni það hlutverk að vera
fyrirmynd við hreinsun danskrar tungu. Ástæður þess voru öðru
fremur hreinleiki málsins og að það hafði haldist lítið breytt. Rask
segir að á þeim tímum sem Ísland byggðist megi ætla að norræn
tunga hafi verið hreinust í Noregi vegna legu landsins og fjarlægðar
þess frá löndum sem áttu sér aðrar tungur. Íslendingar hafi flust frá
Noregi til Íslands og hafi æ síðan ræktað og vandað tungu sína af
slíkri kostgæfni að hún hafi orðið hreinni og fegurri en málið sem
talað var í Noregi. Þá sé það gleðiefni að í íslenskum fornbók-
menntum sé að finna fjölbreytta og fagra texta frá fyrri tíð á hrein-
ustu og fegurstu mállýsku Norðurlanda, kjósi menn að tala um
málið með þeim hætti.11 Það blasi við að þetta land, fólkið sem það
byggir og hin frábæru gömlu verk þjóðarinnar sem og tungan sem
enn sé við lýði, sáralítið breytt, skipti sérhvern hugsandi Norður-
446 auður hauksdóttir skírnir
11 Hér vísar Rask til ágreinings við þýska fræðimenn, m.a. Adelung sem hann segir
að geti ekki fallist á að á Norðurlöndum hafi verið töluð ein tunga (Rask 1811:
xxxii).