Skírnir - 01.09.2016, Síða 226
eyrun með ævafornar sálir. Yfir vötnum svífur lágstemmdur, hár fínn
háski sem birtist í margræðum táknum: Blóðrauða klútnum sem
bundinn er fyrir vit lítillar stúlku, þokunni sem vofir yfir stúlku-
barninu sem stendur í myrku stöðuvatni á nærbuxunum, ramm-
gerðu rimlunum sem önnur lítil stúlka gægist á milli. Barnið í bláa
kjólnum sem stendur hreyfingarlaust og snýr andlitinu til veggjar —
hvaða ofbeldisseggur fyllti það slíkri skömm?
Eftir að hafa þreifað á málverkunum með tilfinningum mínum,
heilluð af þessum lágstemmda óhugnaði sem ég tel mig skynja,
tekur rökhugsun mín við. „Óhugnaður …“ segir hún ögrandi, „ertu
viss um það? Þessi stúlka við vegginn, er hún kannski að telja upp að
tíu og mun síðan rjúka af stað með augun logandi af ákafa í leit að
leikfélögum sínum? Og rammgerðu rimlarnir á hinu málverkinu,
er þetta kannski leikskólahlið sem veitir lífsnauðsynlega vernd gegn
bílaumferðinni? Barnið með klútinn fyrir vitunum, gæti það verið í
skollaleik? Þoka gerir engum mein. Er ógnin kannski ímyndun og
ofbeldið bara í höfðinu á þér?“
Að mínu mati er eftirminnilegasta list veraldarsögunnar sú sem
fær áhorfandann til að afhjúpa sig. Fátt afhjúpaði yfirlætið í snobb-
hænsnum listaelítunnar jafn rækilega og klósettskál Duchamps, sem
fékk hana til að froðufella af bræði yfir því að skilgreiningunni á
list væri ögrað. Þar sem ég stend í stofu Hlaðgerðar og virði fyrir mér
málverkin afhjúpast ótti minn um sakleysið í háskalegum heimi, um
getu hins varnarlausa til að rata heim þegar þokan skellur á.
Bandaríkjamaðurinn Andrew Wyeth var af mörgum talinn bæði
einn ofmetnasti og einn vanmetnasti listamaður 20. aldar. Líkt og
Hlaðgerður málaði hann fígúratíf verk með ríkulegu og oft angur-
væru andrúmslofti. Hann leitaði ekki langt yfir skammt að inn-
blæstri heldur málaði einfaldlega „líf mitt og fólkið í því“ eins og
hann komst að orði. Ég uppgötva að dætur Hlaðgerðar, sem eru í
skríkjandi eltingarleik við son minn, eiga sér annað líf í málverkum
móður sinnar. Meira að segja stofuglugginn, sem hleypir birtu í
þetta vinnurými, er fangaður á einum striganum. Á öðrum trónir
Esjan yfir dótturinni, sem stendur í flæðarmálinu með litla olíulukt
í hendi og horfir þungbúnum augum út í eilífðina.
462 þórdís elva þorvaldsdóttir skírnir