Saga - 2008, Side 253
þræla, vinnuskýrslur um sykurreyrsræktun og fleira. En einnig er þar að
finna kunnuglega flokka heimilda eins og manntöl og verslunarskýrslur
einokunarverslunar. Höfundar þessa hluta bókarinnar eru Ane Marie B.
Pedersen, Erik Gøbel og Niels H. Frandsen.
Ekki er hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að geta um skrár
verksins. Mikil vinna hefur verið lögð í þær og eru þær mikilvægt upp-
flettiefni. Í hverju bindi eru atriðisorðaskrár en auk þess er heildarskrá um
heimildir, sem nær til allra fimm bindanna, birt í þessu fimmta bindi
verksins. Hún gefur mikla möguleika á því að bera saman sambærileg mál
milli svæða og er viðbótarlykill að verkinu í heild. Sérstakar skrár ásamt
stuttri umfjöllun eru einnig í öllum bókunum um mál, vog og mynt á hverju
svæði fyrir sig. Þar er dregið saman í stuttu máli efni um helstu mælieiningar
sem notaðar hafa verið á hverjum tíma, samhengi þeirra auk tilvísana til rita
um þau efni. Ítarleg flokkuð heimildaskrá fylgir hverri bók. Þar er getið um
almenn rit um stjórnsýslusögu þessara svæða, útgáfur á tölfræðilegu efni,
persónusöguleg uppflettirit, heimildaútgáfur réttarsögulegra heimilda,
kortabækur, helstu tímaritaútgáfur, embættismannatöl og ritaskrár og síðast
en ekki síst eru þar birtir listar yfir útgefnar skjalaskrár. Má með sanni segja
að leitun sé að viðlíka yfirliti yfir gögn og heimildir um stjórnsýslusögu
Íslands, og þar með að eins góðum lykli að skjalasafnaforða landsins.
Rit þetta er einstakt sinnar tegundar. Hér er ekki um að ræða skrá yfir
umrædd skjalasöfn, heldur umfjöllun sem miðar að því að gera heimilda-
flokka aðgengilega til notkunar í sagnfræðilegum tilgangi. Það er gert
annars vegar með því að setja þá í stjórnsýslusögulegt samhengi og hins
vegar með því að kynna hvers eðlis gögnin eru og varpa ljósi á hvaða sögu
þau geta haft að segja. Sjónarhóll verksins er danska ríkið og er það bæði
kostur og galli. Frá dönsku sjónarmiði fæst hér gríðarlega góð heildaryfir-
sýn yfir heimildaforða ríkisins, ef frá eru talin gögn sem tengjast Noregi.
Fyrir Ísland er þetta áfangi á leiðinni að slíku yfirliti og ákveðinn lykill að
þeim gögnum sem tengjast stjórnsýslunni á þeim öldum sem Ísland var
hluti Danaveldis. Ástæða er hins vegar til að velta fyrir sér hvort ekki væri
ráð að gefa út sambærilegt rit um íslenskar heimildir. Nordatlanten og
Troperne, sem þegar er komið út, gæti þá þjónað sínum tilgangi áfram sem
sérstakt heimildarit um gögn sem orðið hafa til vegna samskipta innan
konungsríkisins.
Verulegur fengur er því að þessu riti fyrir fræðimenn og aðra sem
annaðhvort hafa áhuga á stjórnsýslunni sem slíkri eða eru að rannsaka
ákveðna þætti í sögu þeirra alda sem Ísland var hluti af dansk-norska
ríkinu. Á þessu tímabili var ríkisvaldinu að vaxa fiskur um hrygg og sér
þess greinilega stað í þeim heimildum sem samskipti þeirra við undir-
sátana hafa skilið eftir sig. Rit af þessu tagi geta orðið til að opna dyr að
óaðgengilegum skjalasöfnum og eru því mikilsverð fyrir þá sem sitja við
skriftir.
Hrefna Róbertsdóttir
ritdómar 253
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 5/15/08 11:18 AM Page 253