Jökull - 01.07.2003, Blaðsíða 74
Guðmundur E. Sigvaldason
á jarðhæð í Atvinnudeildarhúsi. Helsta áhugamál hans í þá
daga var að byggja hús undir rannsóknir í þágu atvinnuveg-
anna. Fyrir hans tilstilli komst á nýskipan í rannsóknum
með lögum frá 1965 og smám saman rættust vonirnar þeg-
ar byggingar risu á Keldnaholti og hver deildin af annarri
flutti í nýtt húsnæði og breytti um nafn. Byggingarefna-
deild varð Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins, Búnað-
ardeild varð Rannsóknastofnun Landbúnaðarins og Iðnað-
ardeild varð Rannsóknastofnun Iðnaðarins. Þegar kom að
því að breyta deildinni, sem við Þorleifur störfuðum við
í Rannsóknastofnun Iðnaðarins gerðum við uppsteit. Við
vorum í föstum stöðum og höfðum markað okkur verksvið
innan deildar, sem aldrei hafði verið skýrt skilgreind og nú
áttum við að flytjast til Keldnaholts og vinna að vel skil-
greindu hlutverki Rannsóknastofnunar Iðnaðarins. Við neit-
uðum að fara. Eftir japl og jaml og fuður var samþykkt að
breyta skipulaginu og stöðugildin voru færð til Raunvísinda-
stofnunar Háskólans. En við létum ekki þar við sitja og
kröfðumst þess að fá eina stöðu aðstoðarmanns og skiptingu
eigna Iðnaðardeildar, þannig að öll tæki og tól til rannsókna
í jarðfræði og bergfræði yrðu eftir í Atvinnudeildarhúsi. Það
eru engar heimildir um að við hefðum krafist að fá Atvinnu-
deildarhúsið í kaupbæti, en einhvern veginn æxlaðist það
svo að þegar allir voru fluttir burt skröltum við Þorleifur ein-
ir í húsinu og höfðum mjög gott pláss. Það stóð ekki lengi.
Árið 1968 var ákveðið að hefja kennslu í náttúrufræðum
við Háskóla Íslands og prófessorsstaða í jarðfræði og landa-
fræði var formlega stofnuð. Sigurður Þórarinsson flutti í At-
vinnudeildarhúsið og settist í skrifstofuna, sem Steingrím-
ur Hermannsson hafði notað áður. Atvinnudeild háskólans
varð að Jarðfræðahúsi háskólans.
Það var geysilega gaman að fá stúdenta í húsið. Plássið
var raunar svo mikið að öll efsta hæðin í Jarðfræðahúsi var
notuð til að spila borðtennis milli kennslustunda, en kenn-
ararnir lögðu sig alla fram við kennsluna. Surtseyjargosið
var nýafstaðið og ungum stúdentum í jarðfræði var mikið í
mun að verða vitni að eldgosi. Til marks um andrúmsloftið
í Jarðfræðahúsi á þessum fyrstu árum féllst bergfræðikenn-
arinn á að taka þátt í kröfugöngu 1. maí 1970. Það var geng-
ið frá Þingvöllum yfir í Botnsdal í Hvalfirði undir gunnfán-
um og kröfuspjöldum þar sem á stóð „Við viljum eldgos.“
Það var eins og við manninn mælt. Hekla byrjaði að gjósa
eftir fjóra daga, þann 5. maí 1970. Kröfuganga fyrstu jarð-
fræðistúdentanna við Háskóla Íslands hafði greinilega vakið
landið til virkni, því heita má að síðan hafi lítið lát orðið á
eldgosum.
Upphaf kennslu við Háskóla Íslands er stærsti við-
burður í sögu jarðfræðarannsókna á Íslandi á síðustu öld.
Enda þótt aðrar stofnanir hafi átt drjúgan þátt í framþróun
fræðanna á umliðnum 35 árum þá er og verður akademísk
rannsókna- og kennslustofnun hinn varanlegi kjarni fræð-
anna. Aðrar stofnanir hafa ekki álíka möguleika á fram-
haldslífi og geta átt von á hvers konar stefnubreytingum allt
eftir því hvaða vindar blása á æðri stöðum. En hver er staða
jarðvísinda á Íslandi í dag? Ég ætla ekki að fara út í smáat-
riði, nefni aðeins dálitla athugasemd, sem mér barst til eyrna
og var höfð eftir manni að nafni Claude Allégre, vinnufé-
laga eins af gestum okkar hér í kvöld, fyrrverandi forstjóra
Institut de Physique du Globe í París og fyrrverandi mennta-
málaráðherra Frakkands. Claude á að hafa sagt við félaga
sína í París sem stóðu ráðþrota frammi fyrir einhverju jarð-
fræðilegu vandamáli: „Farið þið og spyrjið Íslendingana,
þeir vita allt um þetta þó að þeir birti aldrei neitt.“ Stað-
hæfingin er ekki hárnákvæm en segir þó meira um stöðu
jarðvísinda á Íslandi en langar útlistanir. Og staða fræðanna
í dag er ekki bara okkar verk, sem nú erum ofar moldu því
mikið tókum við að erfðum frá þeim sem nú eru horfnir af
sviðinu. Margt af því sem forverar okkar á borð við Sigurð
Þórarinsson og Guðmund Kjartansson gerðu er nú hluti af
hugmyndaheimi okkar kynslóðar engu síður en framlag fjöl-
margra erlendra manna á borð við George Walker og höf-
unda nýrrar heimsmyndar jarðvísindanna. En Ísland er jarð-
fræðileg opinberun og styrkur okkar verður aldrei mældur
í góðum tækjakosti eða fylgispekt við tískusveiflur í fræð-
unum. Styrkurinn felst í landinu sem er sífelld uppspretta
nýrra hugmynda. En viðtekinn hugmyndaheimur, á hvaða
sviði fræðanna sem er, má samt aldrei standa í vegi fyrir
því að menn efist um réttmæti ríkjandi kenninga. Ég hóf
mál mitt á lítilli sögu um mann sem neitaði að trúa viðtekn-
um hugmyndum og hvernig tilviljun réði að tilgáta hans var
prófuð. Boðskapur þeirrar sögu er líklega kjarninn í því sem
ég vildi segja við ykkur í dag þó að ég hafi lengt mál mitt
með svolítilli sagnfræði, aðallega um hús.
Að lokum vil ég þakka Jarðfræðafélaginu að hafa helg-
að mér þessa ráðstefnu.
72 JÖKULL No. 52, 2003