Jökull - 01.12.2007, Side 105
Bréf Guðmundar Arnlaugssonar til Trausta Einarssonar
hæstu. Svo kom niðurferðin sem átti að vera auðveld
og skemmtileg. Það var skemmtilegt að skásneiða
brekkurnar á niðurleið, en þegar við vorum komnir
langleiðina kom svolítið babb í bátinn: það var farið
að skyggja og því illa ratljóst í landslagi sem maður
ekki þekkti. Sá okkar fór síðastur sem bakpokann bar.
Nú var Gunnbjörn fremstur en eg síðastur með pok-
ann. Þá segir Gunnbjörn: „Hér er mikill hliðarhalli,
það er betra að fara ofar“ – og um leið hverfur hann
niður á við til hægri. Trausti segir: „Það er víst betra
að gæta sín“ – og hverfur sömu leið og Gunnbjörn.
Þetta skipti engum togum, fyrr en varði var eg kominn
sömu leið. Fyrst voru skíðin á undan, en eg réð ekki
við mig, höfuð, herðar og bakpoki voru á svipstundu
komin niður fyrir skíðin sem mættu meiri mótstöðu í
snjónum. Sem betur fer var þetta ekki langur spölur
og allt var óskemmt, en Gunnbjörn hafði rétt fyrir sér:
þarna var skyndilega kominn mikill hliðarhalli!
Við fórum varlega það sem eftir var og komum
óskaddaðir til Akureyrar, en eftir á að hyggja finnst
mér við hljóta að hafa gengið rösklega að fara alla
þessa leið á jafnskömmum tíma.
Dálítið sérstök var ferðin þegar við gengum á
Torfufell. Það var í byrjun jólaleyfis. Í útvarpinu
höfðu birst fregnir um það að menn í Mývatnssveit
hefðu séð eldglæringar í suðri nokkrum sinnum, eitt-
hvað sem benti til þess að um eldsumbrot væri að
ræða, kannski í norðanverðum Vatnajökli, kannski
norðar. Stefnan frá Mývatni var ljós, en ekki ljóst
hvar á línunni þetta væri. Þessar fréttir vöktu áhuga
þinn og þér datt í hug að með því að sigta á eldinn úr
annarri átt væri hægt að ákvarða væntanlegan gosstað
nákvæmlega. Best væri að vera staddur á einhverj-
um góðum útsýnisstað við Eyjafjörð í birtingu. Þá
væru mestar líkur á að sjá eldinn – ef um jarðeld væri
að ræða – og hægt að miða hann all nákvæmlega við
önnur kennileiti. Þá væri staðurinn sæmilega ákveð-
inn sem skurðpunktur sigtilínanna úr Eyjafirði og Mý-
vatnssveit. Og þú valdir Torfufell sem er hæsta fjall
við innanverðan Eyjafjörð og þaðan er afar víðsýnt.
Við lögðum af stað fyrsta dag jólaleyfisins. Við
vorum þrír, auk okkar tveggja Ólafur í Gróðrarstöð-
inni, Ólafur Jónsson mikill áhugamaður um náttúru-
fræði hverskonar, mikill ferðagarpur og annálaður
göngumaður. Við höfðum ekki með okkur skíði í þetta
sinn, en tjaldmynd höfðum við, mat og hitunartæki og
ýmsan búnað annan, heldur frumstæðan þó, á nútíma-
mælikvarða. Við fengum leigubíl til að aka okkur suð-
ur allan Eyjafjörð, inn á móts við Torfufell. Þetta var
hægt því að snjór var lítill sem enginn á láglendi. Við
sömdum við bílstjórann um að sækja okkur síðdeg-
is næsta dag. Svo var lagt í fjallgönguna. Ætlun þín
hafði verið að tjalda uppi á fjallinu eða sem næst því,
en raunin varð sú að við gáfumst upp í miðjum hlíðum
eða rúmlega það sökum hvassvirðis. Það var talsvert
hvasst, bakpokinn var fyrirferðarmikill, og eg man að
það tók svo í hann að maður átti á köflum erfitt með
að stjórna sér. Og þegar við fundum dæld í fellinu þar
sem skjólið var meira en annarsstaðar, var ákveðið að
setjast þar að um sinn og bíða þess hvort ekki lægði.
Við hófumst handa um að koma okkur fyrir. Þarna
var talsverður snjór og Ólafur tók við að skera gryfju
fyrir tjaldið, við tókum kögglana jafnharðan og hlóð-
um úr þeim garð á gryfjubarminum. Síðan var tjaldað
og við fluttum inn. Þetta var lítilfjörlegt sumartjald
og enginn botn í því, en einhver brekán höfðum við
til að sitja á í snjónum. Svo var kveikt á prímusnum
og farið að bræða snjó. Þú áttir fornlega súpupakka
eða teninga sem þýskir jarðfræðingar sem höfðu ver-
ið á ferð hér um sumarið höfðu arfleitt þig að. Þessar
súpur vorum við að borða í tjaldinu alla nóttina. Prím-
usinn var í gangi alla nóttina og hann var nokkuð lengi
að bræða hverja pottfylli af snjó og koma vatninu upp
í suðu, svo að við vorum oftast búnir að fá lyst á ein-
um súpubolla til viðbótar þegar nýr skammtur var til-
búinn. Þarna var um að ræða þó nokkrar tegundir af
þýskum súpum. Fyrst prófuðum við hverja um sig,
síðan voru reyndar ýmsar blöndur. Ekkert var hægt að
sofa þarna um nóttina. Við borðuðum súpur, töluðum
saman, gerðum að gammi okkar – og spiluðum á spil.
Við hljótum að hafa haft með okkur ljósker, þótt
eg muni það ekki, kannski kerti. Ólafur hældi sér af
því að hafa haft með sér þau tvö tæki sem best reynd-
ust í ferðinni: hnífinn mikla sem hann skar snjóskafl-
inn með, svo að hægt væri að búa til skýli umhverfis
tjaldið, og spilin sem styttu okkur stundir meðan við
biðum birtingar.
Við lögðum snemma af stað frá tjaldinu um morg-
uninn, líklega um fimmleytið, því að löng leið var eft-
ir upp fellið. Veðrið hafði lægt og færið var sæmilegt.
JÖKULL No. 57 103