Breiðfirðingur - 01.04.1985, Page 29
BREIÐFIRÐINGUR
27
Pabbi kom með járnkarl og spennti upp fyrstu rimina. Þar
sást engin Branda. Trýna fylgdist með hverju handtaki og
mjálmaði og barmaði sér. Þegar síðustu rimlarnir höfðu verið
spenntir upp sást á afturenda Bröndu. Hún hafði troðið sér inn
í holu í garðanum og var föst þarna. Trýna var ekki sein á sér
að hjálpa dóttur sinni út úr holunni. Hún var hin hressasta sú
litla, aðeins moldug um hausinn. Trýna var svo glöð og fagn-
aði svo vel barni sínu að við stóðum þarna orðlaus. Þegar
pabbi var búinn að setja niður grindurnar og kominn út, fór
Trýna til hans og nuddaði sér mjálmandi utan í fætur hans.
Það var eins og hún væri að þakka honum fyrir greiðann.
Hann meðtók þakklæti hennar af næmum skilningi. Strauk
henni og talaði hlýlega til hennar. Branda varð fljótt kát og
hress en mikið þurfti Trýna að passa hana eftir þetta. Hún
fylgdi henni eftir hvert sem hún fór.
Margar sögur mætti segja af vitsmunum Trýnu. Mynd
hennar er enn ljóslifandi í minningunni. Þó hálf öld sé liðin frá
leikjum okkar í Mávahlíð. Þegar við Trýna vorum tólf ára, var
sköpum skipt. Ég stelpugopinn áhyggjulaus og fleyg eins og
fuglinn og réði mér varla fyrir æskugalsa, en Trýna, kötturinn,
hálfblind og heyrnarsljó. Það átti við hana sem Jón Helgason
segir: „Já, ósköp er kattlífið dapurlegt“. Nú var farið að tala
um að stytta ævistundir gömlu Trýnu, en það máttum við syst-
urnar ekki heyra. Okkur var sagt að bráðum yrði hún ellidauð.
Það var einn dag um haustið að við systur áttum að fara út
á Rif að sækja hesta. Finnum við þá Trýnu dauða niður við gil-
fjörur. Okkur varð bilt við en ákváðum þó strax að jarða hana.
Fórum við og sóttum okkur reku og strigapoka. Bárum við
hana á milli okkar suður í Melaskörð. Þar grófum við gröfina
hennar Trýnu. Ofan á settum við fallegan stein. Við stóðum
þarna hljóðar og þurrkuðum okkur um augun. Trýna hafði
verið svo góður vinur okkar. Við vissum að hún var einlægari
og tryggari en mörg manneskjan. Svo mikið var lífið búið að
kenna okkur, þó við værum ungar að árum.