Breiðfirðingur - 01.04.1985, Qupperneq 50
48
BREIÐFIRÐINGUR
entust í viku. Við vorum venjulega sex, en stundum fleiri.
Matarbirgðirnar voru m. a. fullar fötur af soðnum graut, mörg
brauð, harðfiskur, smjör, álegg, súrt slátur, ef til var, alltaf súr
selur og súr selsvið. Þá var og soðinn fugl, eða nýtt selkjöt og
spik. Ein konan í hópnum var nefnd ráðskona. Hún hitaði
kaffi og þess konar.
F>á var enn við lýði sá gamli siður að borða þrímælt, eins og
það var nefnt. - Ég man vel að alltaf hafði maður góða matar-
lyst.
Margt spaugilegt gat komið fyrir í útilegunum, þótt ekki
verði það tíundað hér. Heyskapurinn hélt áfram þar til búið var
að slá allar eyjar og hólma, sem nokkurt strá var á.
Það var þreytt fólk, sem kom heim á laugardagskvöldum.
Það var eina nóttin í vikunni, sem við gátum sofið heima í
rúmunum okkar. Það þótti okkur hátíð, líklega svona álíka og
unglingum finnst nú að sofa í tjaldi í útilegu eina og eina nótt
að gamni sínu.
Svo mætti vel segja nokkuð frá því, er við gerðum okkur til
skemmtunar á sunnudögum. Þá var laugardagurinn ekki orð-
inn frídagur eins og síðar varð. Þetta var vissulega fábreytt
skemmtanalíf. Oft fannst mér líka ég finna til innilokunar-
kenndar vegna þess, að aldrei gat maður hreyft sig neitt af eyj-
unni nema á bát. Það þótti líka óþarfi hálfgerður, sem það
auðvitað var. Það var helst að við fórum í útreiðartúra, því að
alltaf var landólkið boðið og búið til að lána eyjafólkinu hesta,
þegar það kom í land. Stundum var farið til kirkju, stundum í
berjaferðir. Svo kom fyrir að ungmennafélagið hélt skemmt-
anir, það var samt sjaldan, einu sinni eða tvisvar á sumri - og
þótti nóg. Þá var dansað í ágætu, stóru steinhúsi að Búðardal
á Skarðsströnd. Spilað var á eina litla harmoniku. Allt var
þetta ósköp saklaust og blátt áfram, en allir skemmtu sér af
hjartans lyst. - Mér finnst allar skemmtanir í dag blikna við
samanburðinn, þótt nóg sé af tískutildrinu utan um hvaðeina.
Þetta er allt liðin tíð. Nú eru eyjarnar mínar allar í eyði, eða
svo má það heita. Ég á bágt með að trúa að þær eigi ekki eftir
að komast aftur í byggð, en þó er ekki gott að segja.