Breiðfirðingur - 01.04.1995, Blaðsíða 133
MINNINGARBROT UM EYFA BJARNA
131
Minnisstæðastur var mér þó frændi minn úr Bjarneyjum, Pétur
Kúld, sem mun hafa verið hreyfur af víni.
Það má með nokkru sanni segja, að ég hafi verið í
hálfgerðu uppeldi hjá Eyfa, því það var margt sem ég sá í
fyrsta sinn í fylgd með honum.
Eitt af því erfiðasta í eyjabúskapnum var bátasetningur upp
og niður meðan engin hjálpartæki voru komin til sögunnar,
því óvíða voru bátadokkur sem bátar voru öruggir í á floti
(Akureyjar, Rauðseyjar). Bátavindur eða spil, eins og þær
voru oftast nefndar, voru þá sumsstaðar komnar í verstöðvum,
en ég held að það hafi verið lítið um slíkt í eyjunum á þeim
tíma. Eyfi var fljótur að sjá hve mikið hagræði væri að slíkum
hlutunr og lét ekki sitja við orðin tóm.
Þegar við vorum í Akureyjum smíðaði hann gott og sterkt
bátaspil sem dugði vel og lengi. Það fluttist síðan með okkur út
í Fagurey og var notað þar, meðan sú eyja var í byggð, og má
vera að leifar af því finnist þar enn, ef leitað væri. Það var
alveg ótrúlegt hvað Eyfi gat smíðað við erfiðar aðstæður og
lítil sem engin verkfæri. Eftirfarandi óhapp sem varð hjá okkur
í Akureyjum, lýsir kannske best hagleik hans og hugkvæmni.
Það urðu mikil umskipti í lífi eyjabænda þegar bátavélin
kom þar til sögunnar, rétt fyrir 1930 eða þar um. Menn kunnu
sér varla læti og fannst þá fært í flestan sjó. Ungu mennirnir
sumir töldu, að varla kæmi það mikið rok, að ekki væri drægt
á móti ef vél væri í bátnum.
En það kom fyrir að þessi þarfatæki biluðu og þá kom bobb
í bátinn og taka varð til ára og segla.
Faðir minn fékk 6 ha. Kelvinvél í sexæringinn sinn vorið
1929. Lárus bróðir minn kom þá heim. Hann hafði kynnt sér
meðferð vélarinnar og var fyrsti vélstjórinn. Eyfi tók svo við
af honum, enda Lárus lítið heima eftir það.
Nú gerðist það að vetrarlagi, þegar mikill rekaís var kominn
milli eyja og á leiðum til lands, að skrúfan (spaðarnir) á vél-
bátnum lentu á ísjaka með þeim afleiðingum að annað blaðið
brotnaði af upp við öxul, og varð þá báturinn að sjálfsögðu
ónothæfur.