Skírnir - 01.04.2012, Blaðsíða 8
6
HELGA KRESS
SKÍRNIR
segja í Los Angeles, og það er augljóst að hann samsamar sig Jónasi
og aðstæðum hans þarna við upphaf eigin skáldskaparferils. Orð
hans minna á kenningar þýska bókmenntafræðingsins Theodors W.
Adorno um ljóðagerð 19. aldar sem hann telur sprottna af andófi
gegn vaxandi hlutgervingu samfélagsins og firringu mannsins frá
náttúrunni. I bestu ljóðunum, og þeim ljóðrænustu, segir hann,
kemur fram draumur skáldsins um heim sem er öðruvísi.3 Þannig
sýni hið lýríska sjálf sem í ljóðunum talar hvort tveggja í senn nátt-
úruna sem það hefur tapað og hvernig það endurgerir hana og lífgar
innra með sér og kallar þar með til baka.4 Samkvæmt þessu er það
ekki bara stórborgin Kaupmannahöfn sem gerir Jónas að skáldi,
heldur einnig fjarveran frá ættjörðinni og íslenskri náttúru, „land-
inu“, sem hann á ekki afturkvæmt til nema í ljóðum. Þannig eru
mörg þeirra, og þá einkum þau síðustu, sprottin af heimþrá, sem
aftur kemur heim og saman við kenninguna um heimþrána sem eina
af uppsprettum skáldskapar.5
Annað meginstef í ljóðum Jónasar er þráin eftir konunni, kven-
leikanum, sem hann einnig leitast við að ná til í ljóðum. Oft fara þessi
yrkisefni saman, þar sem landið og konan verða eitt í myndmáli
ljóðanna. Þótt Halldór Laxness ræði í grein sinni um samkennd
3 Adorno 1958:78. Kenningar Adornos má rekja til þýska skáldsins Friedrichs
Schiller sem á sínum tíma skrifaði athyglisverðar greinar — sem Jónas kann að
hafa kynnt sér — um viðleitni skáldskapar á tímum vaxandi firringar til að fanga
upprunann í náttúrunni og sögunni. Sjá einkum Uber naive und sentimentalische
Dichtung sem birtist fyrst í tímaritinu Die Horen á árunum 1795-96. Sbr. m.a.
Schiller 2002.
4 Adorno 1958:80.
5 í riti sínu, Heimweh: Studien zur Kultur- und Literaturgeschichte einer tödlichen
Krankheit, fjallar Simon Bunke m.a. um birtingarmyndir heimþrár í ljóðum nokk-
urra þýskumælandi skálda rómantíkurinnar þar sem heimþráin ýmist beinist að
stað sem í raun er ekki til nema sem ímynd eða verður svo sterk að hún leiðir til
andlegs sjúkleika og jafnvel dauða, sbr. Bunke 2009: einkum 491-506. í ljósi þess-
ara kenninga má ef til vill skýra þunglyndi Jónasar Hallgrímssonar síðustu árin sem
hann lifði en á þeim tíma orti hann einmitt flest heimþrárkvæða sinna. Um þung-
lyndi Jónasar og dauðahugsanir, sjá Matthías Þórðarson 1937:clxix-clxxv; einnig
ummæli Jónasar sjálfs í bréfi til Þórðar Jónassonar, dagsettu í Kaupmannahöfn
21. apríl 1845, en það er jafnframt með síðustu bréfum hans: „Mér líður nú loks-
ins, guði sé lof, sæmilega vel til heilsunnar; mér er batnað allra meina minna nema
einhverrar agnar af hypokondri — bringsmalaskottu — eða hvað það heitir,
draugurinn sem ásækir svo margan Islending" (II, 227).