Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Side 9
9Ljósmæðrablaðið - júlí 2015
tilgang að auka skilning á samhengi sjálfshlutgervingar, viðhorfi
til blæðinga, heilsutengdra lífsgæða, viðhorfi til þess að bæla
blæðingar, líkamsþjálfunar, líkamsvitundar og upphafs blæðinga.
Markmið úrvinnslunnar hér er að þýða, staðfæra, þáttagreina og
áreiðanleikaprófa mælitækin BATM og OBCS.
AÐFERÐ
Úrtak og framkvæmd
Úrtak rannsóknarinnar var þægindaúrtak kvenhjúkrunarfræðinemenda
við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem skráðir voru í eitthvert
af þeim fjórum námskeiðum sem kennd voru í janúar 2013, alls 313
nemendur á aldrinum 19 til 48 ára. Farið var í kennslustundir og
var spurningalisti lagður fyrir kvennemendur sem mættu í tíma þá
daga sem rannsóknin fór fram. Rannsóknin var kynnt nemendum,
þeim afhent kynningarbréf og spurningalisti og þeir beðnir um að
skila listanum fyrir lok skóladags. Farið var aftur í tíma í tveimur
námskeiðanna sökum lítillar mætingar nemenda í fyrra skiptið sem
gagnasöfnun var gerð.
Mælitæki
BATM
BATM var samið af sálfræðingum með langa reynslu af rannsóknum
á tíðahring kvenna (Márvan o.fl., 2006) í þeim tilgangi að skoða
viðhorf til tíðablæðinga og trú kvenna á ýmsa þætti sem tengjast
blæðingum. BATM er 40 atriða listi og eru svarmöguleikar mjög
ósammála (=1), frekar ósammála (=2), hvorki sammála né ósammála
(=3), frekar sammála (=4) og mjög sammála (=5). Listinn skiptist
í fjóra þætti: I. Skapraun (e. annoyance) (11 atriði), II. Leynd (e.
secrecy) (10 atriði), III. Fordæming og forskrift (e. proscriptions and
prescriptions) (14 atriði) og IV. Ánægjulegar (e. pleasant) (5 atriði).
Hærra gildi á mælitækinu í heild þýðir að þátttakendur séu mjög
sammála því að blæðingar hafi áhrif á frammistöðu og daglegt líf en
lægra gildi þýðir að þeir séu ósammála því.
Upphaflega voru 88 atriði í mælitækinu og voru þau annars
vegar fengin úr heimildaleit sem laut að mýtum, staðalímyndum
og viðhorfum til blæðinga og hins vegar úr viðtölum um blæðingar
við 24 konur á mismunandi aldri og með mismikla menntun. Þá var
réttmæti mælitækisins enn frekar skoðað með því að tólf sérfræðingar
með reynslu af rannsóknum á tíðahringnum mátu nauðsyn hvers
atriðis á listanum. Niðurstaða frekari prófana á þessum 88 atriða
lista á mexíkóskum og bandarískum körlum og konum leiddi til 40
atriða listans með fjórum þáttalausnum (BATM). Tafla 1 sýnir atriðin
og þættina fjóra. Áreiðanleiki þáttanna (Cronbachs-α) hefur mælst
frá 0,74 til 0,88 fyrir þættina Fordæming og forskrift, Skapraun og
Leynd og á bilinu 0,62 til 0,69 fyrir þáttinn Ánægjulegar (Márvan
o.fl., 2006).
OBCS
OBCS var samið af sálfræðingum sem byggðu á femínískum
kenningum um félagslega byggingu (e. social construction)
kvenlíkamans (McKinley og Hyde, 1996). Mælitækinu, sem er á
ensku, er ætlað að mæla á hvern hátt meðvitundin hlutgerir líkamann
út frá stöðugu eftirliti með honum, hvernig einstaklingurinn
samsamar sig (e. internalize) menningarlegum staðalímyndum um
líkamann og trú á að geta stjórnað líkamanum. OBSC er 24 atriða
listi og merkja þátttakendur við á tölukvarða frá 1 til 7 þar sem 1
þýðir mjög ósammála og 7 mjög sammála. Upphaflega voru 69 atriði
á listanum og voru þau fengin úr heimildum og úr fyrri rannsóknum
höfunda. Niðurstaða frekari prófana á þessum 69 atriða lista, þar
sem þátttakendur voru ungar og miðaldra konur, leiddi til 24 atriða
listans sem reyndist innihalda þrjá þætti: I. Skömm á líkamanum
(e.body shame) (8 atriði), II. Trú á stjórnun (e. control beliefs) (8
atriði) og III. Eftirlit (e. surveillance) (8 atriði) (McKinley og Hyde,
1996). Hátt gildi á Skömm á líkamanum veldur því að konunni líður
eins og hún standi sig ekki ef hún uppfyllir ekki menningartengdar
væntingar um líkama sinn, lágt gildi þýðir að henni finnist hún í
góðu lagi þó hún uppfylli ekki slíkar væntingar. Hátt gildi á Trú á
stjórnun þýðir að konan trúir að hún hafi stjórn á þyngd sinni og útliti
ef hún leggur hart að sér, lágt gildi felur í sér að konan telji sig ekki
stjórna þyngd og útliti heldur sé þessum þáttum stjórnað af erfðum.
Hátt gildi á Eftirlit þýðir að konan fylgist iðulega með útliti sínu og
hugsar um líkama sinn út frá útliti hans, lágt gildi þýðir að hún fylgist
sjaldan með útliti sínu og hugsar um líkamann út frá líkamlegri líðan.
Tafla 2 sýnir þættina og atriðin í hverjum þætti. Mælitækið hefur
verið notað í fjölda rannsókna og hefur áreiðanleiki (Cronbachs-α)
Líkamsskammar mælst á bilinu 0,70 til 0,84, Eftirlits á bilinu 0,79 til
0,89 og Trúar á stjórnun á bilinu 0,68 til 0,72 (McKinley og Hyde,
1996; McKinley, 1998; McKinley, 1999).
Þýðing og staðfæring mælitækjanna tveggja
Leyfi fengust frá höfundum mælitækjanna til að nota þau hér á landi.
Upphafleg útgáfa BATM var á spænsku en höfundar mælitækisins
þýddu mælitækið á ensku með viðurkenndum aðferðum (Márvan
o.fl., 2006) og er enska útgáfan notuð hér. Markmið þýðingarinnar
var að hvert íslenskt atriði næði merkingu enskunnar en ekki
endilega að þýða frá orði til orðs. Við þýðinguna var fylgt
viðurkenndu þýðingaferli (Jones, Lee, Phillips, Zhang og Jaceldo,
2001; Brynja Örlygsdóttir og Erla Kolbrún Svavarsdóttir, 2005).
Mælitækin voru upphaflega þýdd og staðfærð af rannsakendum úr
ensku yfir á íslensku. Enska og íslenska útgáfan voru samlesnar af
íslenskufræðingi og íslenska útgáfan því næst þýdd aftur yfir á ensku
af tvítyngdum klínískum sálfræðingi búsettum í Bandaríkjunum.
Lokaeintak listanna var því næst lesið yfir og samþykkt af þessum
aðilum. Spurningalistinn var forprófaður á átta konum á aldrinum
23 til 26 ára og komu fram smávægilegar athugasemdir varðandi
orðalag sem tekið var tillit til. Þá gagnrýndi einn þátttakenda BATM
og sagði staðhæfingar endurteknar. Ekki var tekið tillit til þessarar
athugasemdar því það var metið svo að athugasemd frá einum aðila
væri ekki nægileg til að breyta byggingu á íslensku útgáfu listans.
Það tók konurnar átta á bilinu 11 til 19 mínútur að svara listanum.
Bakgrunnsspurningar
Listinn, sem lagður var fyrir þátttakendur, innihélt, auk BATM og
OBSC, mælitækið SF-36v2 sem mælir heilsutengd lífsgæði og
spurningar um blæðingasögu, hreyfingu og mataræði. Í töflu 3 eru
lýsandi niðurstöður fyrir spurningar sem gefa mynd af þátttakendum.
Valdar voru spurningar sem rannsóknir sýna að tengjast líkamsvitund
og viðhorfi til blæðinga þó að hér séu ekki skoðuð slík tengsl.
Tölfræðileg úrvinnsla
Tölfræðiúrvinnsla fór fram með tölfræðiforritinu Statistical Package
for the Social Sciences (SPSS), 21. útgáfu (SPSS Inc., Chicago,
USA). Notuð var lýsandi tölfræði til að lýsa úrtakinu. Til að meta
hugtakaréttmæti (e. construct validity) var gerð leitandi þáttagreining
(e. exploratoy factor analysis) og stuðst við meginhlutagreiningu
og hornskakkan snúning (e. oblimin rotation). Svörum þátttakenda
sem slepptu fleiri en tveimur atriðum í hverjum þætti var sleppt í
greiningunni. Fylgni þátta og atriða var skoðuð og ef ástæða var
til var beitt hornréttum (e. varimax) snúningi. Einungis þættir með
eigingildi 1 eða meira voru dregnir út. Til að athuga mikilvægi þátta
var skriðurit (e. scree plot) jafnframt skoðað auk Kaiser-Meyer-
Olkin (KMO) prófs og Bartletts-prófs. KMO gefur til kynna hvort
úrtakið sé hæfilegt (e. sampling adequacy) og bendir til áreiðanleika
þátta. Bartletts-próf metur fylgni milli fullyrðinga í þáttum. Við
þáttabyggingar var ákveðið, með hliðsjón af fjölda þátttakenda,
að atriði með þáttahleðslu lægri en 0,35 skyldu felld út (Field,
2013). Cronbachs-α var notað til að reikna út innra samræmi þátta.
Fylgnipróf (Pearson) var notað til að skoða fylgni milli þátta.
Siðfræði
Fengið var leyfi frá Vísindasiðanefnd (nr. HI12110194/10.6.6),
leyfi frá rektor Háskóla Íslands (tilvísun: HI12110194/10.6.6) til að
leggja rannsókn fyrir nemendur skólans auk þess sem rannsóknin
var tilkynnt til Persónuverndar (nr. S6003). Þátttakendur fengu