Litli Bergþór - 01.07.2016, Síða 14
14 Litli-Bergþór
Eftir það liggur leiðin um hlað í Borgarholtskoti og komin rósbjört vornótt. Ragnar gengur að glugga,
leggur að glerinu fulla viskíflösku og kallar: „Hér er kominn Hitler á flótta með allt sitt föruneyti.“ Páll
rís upp í rúmi sínu, sér flöskuna – þá enn sjáandi – og kallar í mót: „Veri hann velkominn í mín hús
hvort heldur er á björtum degi eða dimmri nóttu.“
Þá var vísað til þess að Páll hafði löngum talað svo að hann styddi Þjóðverja í stríðinu og líka hitt, að
sumarið áður höfðu Bretar gert húsleit hjá Gunnari skáldi á Skriðuklaustri til að leita að áðurnefndum
stríðsleiðtoga.
Ekki er að orðlengja það að flaskan er tæmd og margt sungið í vornóttinni á Kotshlaðinu. Þegar
Kristinn í Borgarholti gengur heim af þeim fundi verður til þessi vísa og samstundis fleyg í sveitinni:
Nú er ekki nóttin löng,
nú er vert að muna,
er loftið fylltist sálmasöng
við sólarupprisuna.
Eftirlætislag Páls var sálmurinn, Ó, syng þínum Drottni.
Einseta Páls í Kotinu varð á endanum sveitinni til vansa að dómi bestu manna. Árið 1955 var honum
útvegað rúm á nýstofnuðu elliheimili í Ási í Hveragerði. En Páll harðneitaði þangað að fara. Sagðist
mundu drepa sig ef hann yrði fluttur nauðugur, ganga aftur og bíta í hælana á hverjum þeim er að
þeirri aðgerð kæmi.
Samt gekk hreppstjórinn, Erlendur á Vatnsleysu, í það vonda verk á útmánuðum 1956. Nágrannar Páls
vildu hvergi þar nærri koma. Ég man að við systkinin vorum uppi á Hól og horfðum á bílaflotann sem
safnaðist við Kotið, sáum það greinilega, enda lítið meira en tveir kílómetrar í loftlínu.
Þegar til kom fór Páll með hreppstjóranum mótþróalaust, bað bara um að fá að fara inn aftur og sækja
stafinn sinn.
Páll undi sér betur á elliheimilinu en menn höfðu þorað að vona, sagði að allir væru þar góðir við sig.
Hann lifði þar rúmt ár og andaðist í maí 1957.
Síðustu orð hans voru: „Það eru engir draugar til“
Raflagnir - Viðgerðir
Jens Pétur Jóhannsson
LÖGGILTUR RAFVERKTAKI
Tökum að okkur nýlagnir, hönnun raflagna
og alla almenna rafvirkjavinnu
ásamt tækjaviðgerðum.
Efnissala og varahlutaþjónusta.
Fljót og góð vinna.
Sumarbústaðaeigendur athugið að
við sækjum um öll leyfi fyrir heim-
taug að sumarhúsum og lagningu
raflagna
Heimasími: 486 8845
Verkstæði: 486 8984
GSM: 893 7101