Morgunblaðið - 31.12.2018, Síða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2018
Þegar síðari heimsstyrjöld lauk árið 1945 var
51 aðildarríki í Sameinuðu þjóðunum. Nú eru
þau 193. Mörg hinna nýju ríkja komu fram
eftir baráttu og átök þegar gömul heimsveldi
hrundu.
Þessi hringrás pólitískrar baráttu heldur
áfram í dag. Brexit-kreppan gæti valdið gríð-
arlegum efnahagslegum búsifjum fyrir hag-
kerfi Írlands og jafnvel ógnað samkomulag-
inu sem kennt er við föstudaginn langa. Fólk
berst fyrir réttinum til sjálfstjórnar í Kata-
lóníu og Baskalandi, sem bæði vilja sjálfstæði
frá Spáni, Hong Kong og Palestínu.
Um allan heim er barátta þjóða fyrir því að
setja sér eigin lög og ákveða samskipti sín
við aðrar þjóðir áberandi. en til þess að fólk
fái stjórn yfir ákvörðunum sem hafa áhrif á
líf þess þurfum við að veita því vald með
samningum, samstarfi og samtali. Þegar rík-
isstjórnir setja einfalda sómakennd og rétt
fólks í öndvegi þegar samið er um átök
heimsins fylgir lýðræði í kjölfarið. Það er
hins vegar hægara sagt en gert, sérstaklega
þar sem þeir sem bera ábyrgð á að fram-
fylgja lögunum leggja oft meira upp úr sínum
eigin völdum en almannaheill.
Þegar ég var unglingur í Belfast gerði ég
mér grein fyrir því að jafnaldrar mínir og ég
fengum ekki sanngjarna meðferð. Norður-
Írland varð til þegar breska stjórnin skipti
Írlandi. Fólki var skipt upp eftir trúar-
brögðum og ákveðið var að katólikkar væru
ótrúir. Okkur var neitað um grundvallarrétt-
indi og bjuggum í raun í smáríki aðskilnaðar.
Ójafnréttið sem við upplifðum var svo kirfi-
lega inngróið í samfélag okkar að það var
orðið að stefnu. Þó fannst mér að til að laga
ástandið þyrfti aðeins að vekja athygli þeirra
sem réðu á því. Þegar þeir áttuðu sig á vand-
anum myndu þeir greiða úr honum.
Ég áttaði mig brátt á því að fólkið við völd
treysti á ójafnréttið til að halda völdum. Þeir
væru ólíklegir til að þurrka það út ef það
myndi kosta þá ítök sín og allar lausnir yrðu
að vera tempraðar þannig að þeir yrðu áfram
við völd. Fólk sem er með völd, eða jafnvel
tálmynd valda, er tregt til að láta þau frá sér.
Meðal þeirra sem eru hinum megin í jöfn-
unni – þeir sem bera skarðan hlut – eru
margir sem trúa að stöðu þeirra verði ekki
breytt. Sumir eru jafnvel tregir til að íhuga
að breyting sé möguleg. Sumir óttast breyt-
ingar. Sumir eru vanir því að samfélagið sé
skipulagt með ákveðnum hætti, jafnvel þegar
þetta samfélag beitir það órétti. Sumir eru
svo uppteknir af að komast af eða lifa lífi sínu
að það hvarflar ekki að þeim að lífið gæti ver-
ið öðruvísi.
Það verða engar framfarir án pólitískrar
baráttu, en til að hún beri árangur þarf að
valdefla fólk. Það þarf að eiga hlutdeild í
þjóðfélaginu og sínu samfélagi. Það þarf að
meta það að verðleikum og virða og verja
mennsku þess. Það hefur réttindi sem þarf að
virða og ýta undir. Samfélagið þarf að miðast
við borgarana og hverfast um þessi réttindi.
Veruleikinn er vitaskuld sá að breytingar
til hins betra verða sjaldnast af sjálfu sér.
Það þarf að hrinda þeim í framkvæmd, semja
um þær. Ofbeldi sprettur oft fram þegar fólk
heldur að það eigi ekki lengur annað úrkosta.
Og sú trú getur orðið ágengari eftir því sem
ríki fara út fyrir rétt og lög og beita ofbeldi í
auknum mæli til að verja hagsmuni sína.
Talið er að árleg útgjöld til hernaðarmála í
heiminum séu 1,7 billjónir dollara (210 billj-
ónir króna), en útgjöld Sameinuðu þjóðanna
og stofnana skyldra þeim eru í kringum 30
milljarðar dollara (3,7 billjónir króna) á ári.
Átök nærast á fátækt, arðráni og viljanum til
að ráða yfir vatnsréttindum, olíulindum og
öðrum náttúruauðlindum.
Bretar höfðu háð tugi stríða gegn upp-
reisnum áður en þeir sendu hermenn sína á
götur Írlands árið 1969. Þeir voru með
stefnu, sem hafði verið fest rækilega í sessi,
um að lögin væru, eins og Frank Kitson liðs-
foringi orðaði það, aðeins „enn eitt vopnið í
vopnabúri stjórnvalda … lítið annað en áróð-
ursskjól til að losna við illa þokkaða ein-
staklinga úr röðum almennings“.
Írskum lýðveldissinnum og öðrum tókst að
skipta úr átökum til friðar með því að búa til
annan kost við vopnaða baráttu og úr varð
samkomulag föstudagsins langa. Þar er kveð-
ið á um tiltekin réttindi til handa Norður-
Írlandi, þar á meðal réttinn til að halda þjóð-
aratkvæði um hvort það eigi áfram að vera
hluti af Bretlandi eða binda enda á sam-
bandið og mynda sameinað Írland. Sam-
komulagið varð hægt og bítandi til og kostaði
mikla vinnu. Á endanum voru ríkisstjórnir og
samningsaðilar tilbúin að taka áhættu auk
þess sem stuðnings alþjóðasamfélagsins naut
við. Enn er margt ófrágengið.
Í átökunum milli spænska ríkisins og sjálf-
stæðishreyfingar Baska hefur svipað ferli,
sem að miklu leyti hafði það írska að fyr-
irmynd, orðið til þess að binda enda á vopnuð
átök jafnvel þótt spænsk stjórnvöld hafi enn
ekki gefið sig að fullu að málinu. Leiðtogar
Sinn Fein hafa oft ferðast til annarra átaka-
svæða, þar á meðal Afganistans og Kólumbíu,
og lagt áherslu á að samtal, samningar og
friðarferli eigi að hafa forgang.
Ég hef oftsinnis ferðast til Mið-Austur-
landa, heimsótt Gasasvæðið og Vesturbakk-
ann og talað við háttsetta leiðtoga í Ísrael og
Palestínu. Því miður lifa margir Palestínu-
menn við aðstæður örvæntingar án vonar um
aðra betri framtíð. Ástæðan er sú að ríkis-
stjórnum hefur því miður ekki tekist að virða
þjóðarétt og ályktanir Sameinuðu þjóðanna
og stjórn Ísraels hefur neitað að verja
lýðræðislegar hefðir og gera sanngjarnar
málamiðlanir. Fyrir vikið búa Mið-Austur-
lönd við stöðug átök.
Eigi að breyta þessu þarf að leggja sig
fram um að skilja hvað knýr fólk áfram, veit-
ir því innblástur og fær það til að taka þær
ákvarðanir sem það tekur. Samtalið sem opn-
ar fyrir þann skilning mun þegar upp er
staðið gefa þeim sem deila afl til að ná sam-
an.
Hver sá sem sagði að stjórnmál væru list
hins mögulega gerði stjórnmál að iðn með-
almennskunnar. Það þarf að upphefja vænt-
ingar fólks um virði sitt – ekki minnka. Þegar
við náum því gerum við lýðræðinu kleift að
ná fótfestu jafnvel þar sem öll sund virðast
lokuð.
©2018 The New York Times og Gerry Adams
Katalónskir bændur ganga til stuðnings atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu árið 2017. Áður en Katalónar fengu kosið um sjálfstæði sitt
skoruðu spænsk stjórnvöld á íbúa að sitja heima, gerðu kjörseðla upptæka og hótuðu að loka netinu.
Samuel Aranda/The New York Times
Ísraelska landamæralögreglan eltir palestínskt ungmenni í átökum við mótmælendur í gamla
bænum í Jerúsalem. Friður í Mið-Austurlöndum lætur á sér standa þrátt fyrir viðræður í áratugi.
Uriel Sinai/The New York Times
Í stað vopna
Á meðan fólk um allan heim berst fyrir sjálfstjórn ættum við að hafa hugfast að það voru viðræður, ekki ofbeldi, sem kom Ír-
landi á braut til friðar. Gagnkvæmur skilningur skiptir miklu. Hann kostar vinnu en er forsendan að því að ná samkomulagi.
GERRY ADAMS
hefur verið félagi í írska stjórnmálaflokknum Sinn
Fein síðan á sjöunda áratugnum. Hann var einn af
höfundum samkomulagsins, sem kennt er við föstu-
daginn langa og stuðlaði að því að binda enda á
rósturnar á Norður-Írlandi. Hann situr nú á írska
þinginu.
Hver sá sem sagði að stjórnmál væru list
hins mögulega gerði stjórnmál að iðn
meðalmennskunnar. Það þarf að upp-
hefja væntingar fólks um virði sitt – ekki minnka.
TÍMAMÓT: Á BLÓÐUGASTA DEGI 2014 FELLDI ÍSRAELSHER TUGI PALESTÍNUMANNA OG SÆRÐI ÞÚSUNDIR
’’