Morgunblaðið - 10.01.2019, Síða 68
68 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. JANÚAR 2019
Notalegt í skammdeginu
Opið
virka
daga
frá 9-
18
lau fr
á 10-1
6
Gamaldags
14“‘ lampi,
verð 18.350
Fjósalukt, svört, grá
eða rauð, verð 4.980
Glóðarnet og
aðrir varahlutir
fyrir Aladdin
lampa fyrir-
liggjandi
Comet
11“‘ lampi,
verð 8.900
Glerkúplar
verð frá 9.900
Lampaglös
í úrvali,
verð frá 3.120
Laugavegi 29 | sími 552 4320 | www.brynja.is | verslun@brynja.is
Kveikir
í úrvali,
verð frá
1.190
Vefverslun brynja.is
Kirkjuferð að Goðdölum
Það átti ekki af mér að ganga
þetta sumar. Nú stóð til að ég færi
með mömmu og pabba til messu
fram í Goðdali. Ég sagði sem var að
til þess langaði mig ekki. Fólki þótti
þetta undarlegir duttlungar því ég
hafði aldrei hafnað ferðalögum.
Þvert á móti. Ég var ólíkindatól!
Þegar ég var
spurður um
ástæðu svaraði ég
því einu að mig
langaði bara ekki.
Mér hlýtur að
hafa verið sagt
frá þessari áætl-
un snemma í viku
því að ég kvaldist
sárlega dag eftir
dag um leið og ég gerði mér sérstakt
far um að vera þægur og snún-
ingalipur. Ótti minn vegna þessarar
fyrirhuguðu ferðar stafaði af því að
mér var sagt að hin mamman mín,
Kristín, og hinn pabbinn, Bjarni,
mundu verða við kirkju og langaði
að sjá mig. Þau bjuggu þá á Gríms-
stöðum í Svartárdal; örreytiskoti.
Ég var nær sannfærður um að í raun
ætluðu þau að taka mig svo ég varð
skelfingu lostinn og ákvað með sjálf-
um mér að strjúka aftur heim ef til
þessa kæmi.
Svo rann sunnudagurinn upp með
sólfari og blíðu. Segir ekki af ferðum
okkar þriggja fyrr en í Sölvanesi, en
pabbi átti eitthvert erindi við Guð-
mund bónda þar, og var okkur boðið
í bæinn. Allt var þarna fátæklegt,
þótti mér, og engir krakkar til að
spjalla við. Um Guðmund bónda
hafði ég oft heyrt getið og sjaldan að
góðu. Gengu sögur um illmælgi hans
í garð náungans. Mér þótti þó nokk-
uð til þess koma að mér hafði verið
sagt að Guðmundur væri skyldur
Grími Thomsen en eftir hann kunni
ég kvæði eins og áður er sagt.
Ég hafði líka heyrt greint frá
orðaskiptum þeirra Guðmundar og
Ólafs Sveinssonar, bónda á Starra-
stöðum, eftir að sá síðarnefndi
bjargaði hesti Guðmundar frá
drukknun í fúafeni. Guðmundur,
sem var blásnauður, þakkaði Ólafi
hjartanlega fyrir vikið og spurði
hvernig hann gæti launað honum
hjálpsemina. Ólafur svaraði: „O, þú
lýgur einhverju upp á mig í staðinn,
greyið mitt.“
Við þágum góðar veitingar hjá
þeim hjónum. Reiddur var fram
hrokaður diskur af kleinum sem ég
gerði allgóð skil þótt mér væri allt
annað en rótt í skapi.
Guðmundur var frakkur í tali og
snefsinn, hafði oftast orðið og sagði
meðal annars óþvegnar sögur af ná-
grönnum sínum. Ég sá strax á
mömmu að henni féll talið illa og
andæfði loks hógværlega einhverju
sem Guðmundur lét fjúka. Guð-
mundur færðist þá allur í aukana í
frásögum sínum. Ég sá að mömmu
var misboðið. Pabba virtist sæmi-
lega skemmt og fyrir kom að hann
hló að hnyttinyrðum húsbónda sem
var orðljótasti maður sem ég hafði
haft kynni af. Hann tvinnaði og
þrinnaði.
Mamma bað Guðmund þá hóglega
að láta barnið ekki heyra svona orð-
bragð. Guðmundur tók því ekki illa
en sagði krakkann hafa gott af að
komast ungur í tæri við munnsöfnuð
fullorðinna út af bölvuðu veraldar-
vésinu.
Ég vildi sitja sem lengst undir
ræðum Guðmundar því að ég ótt-
aðist aðkomuna í Goðdölum. En
brátt var aftur haldið af stað. Guð-
mundur kvaddi mig reyndar með
mestu virktum. Ég kunni vel að
meta það.
Þegar komið var út fyrir túnfótinn
í Sölvanesi hafði mamma orð á hve
sér hefði ofboðið raus Guðmundar
og það hefði verið óþarfi af pabba að
sitja undir þessu og jafnvel ýta undir
karlinn fremur en hitt. Mamma var
óvenjusnúin en pabbi glaðbeittur.
Þrefuðu þau dálítið um þetta í góðu,
unz pabbi sagði að ekki væri von til
þess að Guðmundur talaði vel um
náungann. Hann hefði alizt upp á
hrakhólum við versta atlæti að sögn
og talsmátinn væri hans aðferð að
hefna sín á heiminum en Guð-
mundur væri skýrleiksmaður. Ég
festi þessa umsögn vel í minni. Mér
fannst hún svo nýstárleg.
Nú hillti undir kirkjuna í Goðdöl-
um, stæðilegt hús á sléttri grund.
Ég var við að örvænta, dróst aftur
úr svo að mamma varð að biðja mig
að fylgja sér eftir. Allmargt fólk
valsaði um fyrir framan bæ og
kirkju. Við fórum af baki og einhver
tók hestana.
Ekki leið á löngu unz grannvaxin,
dökkhærð kona með undarlega svört
augu kom til okkar og heilsaði og
vildi taka mig í faðminn en ég snerist
öndverður gegn atlotum. Þetta var
hin mamman. Hinn pabbinn stóð
álengdar og gaf mér auga. Mér var
sagt að vera góður og kurteis við
þessa foreldra mína, lét því af-
skiptalaust að ókunnuga mamman
héldi í höndina á mér og stryki hana,
en var þó við öllu búinn ætlaði hún
að taka fast á mér. Ókunnugi pabb-
inn stóð skammt frá á tali við ein-
hvern; hafði samt ekki af mér augun.
Hann gerði sig þó ekki líklegan til að
grípa mig en horfði heldur hlýtt til
mín.
Smám saman skildist mér að
hættan væri minni en ég hafði ætlað
því að þessi nýja mamma spurði mig
hvort ég kviði ekki fyrir að þurfa að
ríða í einni dembu alla leiðina heim
eða hvort ég ætlaði að stanza á ein-
hverjum bænum og fá mér gott eins
og í frameftirleiðinni. Ég gat ekki
svarað þessu en þetta og fleira benti
til þess að ég fengi að fara frjáls
ferða minna. Þá var miklu fargi létt
af litlum herðum.
Þegar í kirkjuna kom var ég sett-
ur niður milli mammanna innst í
kirkjunni, skammt frá pabba, sem
hafði haft fataskipti eins og vant var
þegar hann var í svona húsi. Ekkert
man ég hvað gerðist þarna annað en
það að ókunna mamman strauk
hönd mína í sífellu. Ég man enn
dökk augun og milt og hlýtt augna-
ráð sem klappinu fylgdi.
Skömmu eftir messu kvöddu
svartleita konan og bjartleiti karlinn
mig. Hún vafði mig að sér. Um mig
fór fagnaðarbylgja. Ég hjúfraði mig
að henni. Hún þurrkaði af sér tár.
Bjartleiti pabbinn stóð hjá og horfði
fast á mig, sagði ekkert, kvaddi mig
með því að þrýsta mér andartak þétt
að sér og gefa mér snöggt, þéttings-
fast klapp á bakið. Ég fann að svona
átti að kveðja mann en ekki þetta sí-
fellda kollklapp.
Ég var þreyttur um kvöldið en
hvílíkur léttir að vera kominn heim
úr þessari háskaför.
Minningaslitur frá bernskuárum
Í barnsminni — Minningaslitur frá bernskuárum
heitir minningabók Kristmundar Bjarnasonar, rit-
höfundar á Sjávarborg, en Kristmundur á aldar-
afmæli í dag. Í bókinni segir Kristmundur frá upp-
vaxtarárum sínum og uppátækjum, rekur nokkrar
örlagasögur og lýsir aldarfari og sveitarbrag meðal
annars. Sögufélag Skagfirðinga gefur bókina út en
Kristmundur er heiðursfélagi þess.
Ljósmynd/Héraðsskjalasafn Skagafjarðar
Örreytiskot Grímsstaðir í Svartárdal. Þar bjuggu foreldrar Kristmundar, Bjarni og Kristín, á árunum 1924 til 44.
Ljósmynd/S.L. Tiexen
Unglingur Kristmundur Bjarnason ungur maður. Danski vísindamaðurinn
S.L. Tiexen tók myndina en hann dvaldist á Mælifelli í rannsóknarferðum.
Ljósmynd/Héraðsskjalasafn Skagfirðinga
Minningar Goðdalakirkja, vígð 1904. Kristmundur fór þangað með fóstur-
foreldrum sínum til að foreldrar hans, Kristín Sveinsdóttir og Bjarni Krist-
mundsson, fengju að sjá hann.