Morgunblaðið - 21.02.2019, Side 22
22 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. FEBRÚAR 2019
VIÐTAL
Guðrún Erlingsdóttir
ge@mbl.is
„Við vorum full af þjóðernisást þegar
Íslendingafélagið í New York fagn-
aði 10 ára lýðveldisafmæli Íslands á
Piccadilly-hótelinu í New York,“
segir Guðrún Tómasdóttir, sópran-
söngkona og söngkennari, sem tók
þátt í hátíðarhöldunum 18. júní 1954.
Guðrún segir að Magnús Blöndal
Jóhannsson píanóleikari hafi verið í
forsvari fyrir dagskrá kvöldsins. Hún
og Guðmunda Elíasdóttir hafi sungið
íslensk lög við undirleik og í útsetn-
ingu Magnúsar Blöndal. Á trompet
hafi spilað amerískur tónlistarmaður
sem Guðrún man ekki nafnið á.
Gunnar Eyjólfsson leikari hafi lesið
upp ættjarðarljóð ásamt henni og
Guðmundu og allir hafi verið í sínu
fínasta pússi á lýðveldisafmælinu.
„Guðrún Camp, formaður Íslend-
ingafélagsins, bjó með eiginmanni
sínum í New York og ef ég man rétt
var hún ein af þeim sem komu að
stofnun fyrstu AA-deildarinnar á Ís-
landi. Guðmunda Elíasdóttir flutti til
New York með fjölskyldu sinni 1953
en hún lærði söng í París og Kaup-
mannahöfn. Gunnar Eyjólfsson lærði
leiklist í New York, hann fékk hlut-
verk í a.m.k. einu leikriti en vann á
þessum tíma fyrir sér sem flugþjónn
og Magnús Blöndal stundaði píanó-
nám við Juilliard-skólann. Sjálf var
ég að læra söng,“ segir Guðrún, sem
langaði að læra með öðrum Íslend-
ingum, svo sem Kristni Hallssyni,
Þuríði Pálsdóttur og leikaranum Jóni
Sigurbjörnssyni á Ítalíu eða í
London. Á þeim tíma máttu Íslend-
ingar ekki vinna fyrir sér á þessum
stöðum og þar sem Guðrún fékk ekki
styrk hafði hún ekki tök á að læra á
Ítalíu eða í London.
„Guðrún Á. Símonar söngkona
kom á eftir mér til New York, hún
var mikil kattakona eins og margir
vita. Gunnar Eyjólfsson kom úr einu
fluginu frá Austurlöndum með sí-
amskött sem hann gaf Guðrúnu. Svo
leið tíminn og leit hófst að vænlegum
högna til þess að halda læðunni
undir. Það tókst og í fyllingu tímans
fæddust níu fallegir síamskettlingar.
Móðirin vildi ekkert með kettlingana
hafa. En þá birtist gömul íslensk
kisa, Katla, sem Halldóra hjá ís-
lenska konsúlatinu átti. Katla kom af
sjálfsdáðun, kettlingarnir lögðust all-
ir á spena hjá henni og döfnuðu vel í
hennar fóstri,“ segir Guðrún. Hún
hóf söngnám að loknu stúdentsprófi
frá MA 1948. Hún flutti til New York
árið 1951 og hóf störf á læknastofu.
Heim til Íslands kom hún aftur með
Goðafossi 1958 ásamt eiginmanni
sínum, Frank Ponzi listamanni, sem
hún kynntist í New York. Í þeirri
borg vann hún einnig töluvert með
Guðmundu Elíasdóttur og Magnúsi
Blöndal.
„Ég var alltaf ákveðin í að halda
mína fyrstu tónleika á 10 ára stúd-
entsafmælinu mínu og við það stóð
ég. Tónleikarnir voru haldnir í Gamla
bíói, árið sem við komum heim. Sal-
urinn í Gamla bíó er yndislegur og
hljómburðurinn góður, “ segir Guð-
rún en á Íslandi starfaði hún mikið
með Ólafi Vigni Albertssyni, söng
með vinkonu sinni Þuríði Pálsdóttur
og kom nokkrum sinnum fram með
Jóni Sigurbjörnssyni leikara og
mörgum fleirum.
Kom enn fram rúmlega 90 ára
Guðrún söng í mörgum kórum,
m.a. Dómkirkjukórnum undir stjórn
Páls Ísólfssonar og Útvarpskórnum.
Hún kenndi söng, m.a. í Tónskóla
þjóðkirkjunnar í áratugi. Hún sá um
raddþjálfun í mörgum kórum, eins
og Fílharmóníukórnum. Pólífón-
kórnum og Vorboðum, kór eldri
borgara í Mosfellsbæ, en Guðrún
hætti að koma fram opinberlega og
raddþjálfa fyrir einu til tveimur
árum .
„Ég er orðin 94 ára og kominn tími
til að hætta því söngur er ungs
manns atvinna. Í dag syng ég sam-
söng ásamt vinum mínum í dag-
þjálfun á Hrafnistu,“ segir Guðrún
og bætir hlæjandi við að Vorboðarnir
hafi orðið frægir þegar þeir sungu í
auglýsingu fyrir DAS, texta eftir
Ómar Ragnarsson, „DAS, DAS, DAS
og aftur DAS.“
Guðrún er fljót til svars þegar hún
er spurð hvað söngur geri.
„Hann gefur gleði, þér líður vel
þegar þú syngur og þú tjáir eitthvað
sem snertir við öðrum. Það er hollt
að syngja í kór en það er vandasamt
og gott að kunna að blanda saman
röddum og syngja í samhljómi,“
segir Guðrún, sem er langt í frá sam-
mála því að einsöngvarar eigi ekki að
syngja í kórum eins og margir haldi
fram.
„Ég söng mest kirkjulega tónlist
og þjóðlög og hef gefið út diskana Ís-
lensk þjóðlög og Vor mitt þar er blæ-
ösp, með lögum, ljóðum og ljóðaþýð-
ingum Þorsteins Valdimarssonar. Ég
tók einnig upp lög sem sungin höfðu
verið í íslenskum leikritum en þær
upptökur virðast vera glataðar.“
Þóttum skrýtin á þeim tíma
„Mitt lifibrauð hefur verið af söng
og kennslu auk þess sem við Frank
byggðum sjálf lítinn bæ, Brennholt, í
Mosfellsdalnum, þar sem við stund-
uðum sjálfsþurftabúskap. Við þótt-
um voða skrýtin á sínum tíma, við
Frank. Nú er sonur minn, Tómas
Atli, tekinn við og ræktar þar bestu
tómata á Íslandi sem þola meiri
kulda en aðrar gerðir af tómötum,“
segir Guðrún, stolt af syni sínum.
Guðrún og Frank eignuðust dóttur-
ina Margréti Jósefínu en feðginin lét-
ust bæði úr krabbameini, Frank árið
2008 og Margrét 2010.
Guðrún býr í Reykjavík, er í dag-
þjálfun á Hrafnistu í Reykjavík og á
enn sitt herbergi í Brennholti. Hún
hefur aldrei tekið bílpróf og því
gengið mikið. Hún þakkar göng-
unum það hversu hress hún er í dag.
Guðrún var sæmd fálkaorðu árið
1996 fyrir framlag sitt til tónlistar og
segist þá hafa klæðst kjól sem hún
keypti í New York. Hún segir að á
árum áður hafi fólk klætt sig upp á
hvort sem það var að fara í fiskbúð-
ina eða mæta á samkomur og mann-
fagnaði, eins og sést á meðfylgjandi
mynd frá 10 ára lýðveldisafmælinu í
New York 1954.
Ljósmynd/Empire
Prúðbúin Gestir á Hotel Piccadilly á 10 ára fullveldisafmæli Íslendingafélagsins í New York 18. júní 1954. Morgunblaðinu hafa borist nokkrar ábendingar um nöfn gesta. Á fremsta borði vinstra
megin sitja f.v. Kristín E. Jónsdóttir læknir, Halldór Hansen læknir, bandarískur trompetleikari, Magnús Blöndal píanóleikari, Bryndís Sigurjónsdóttir, kona Magnúsar, og Guðrún Tómasdóttir
söngkona. Fyrir aftan Bryndísi er Guðrún Camp og maður hennar, David. Við borðið aftan við þau er m.a. Thor Thors sendiherra. Fyrir miðju í fremstu röð á myndinni eru í ljósum kjólum þær
Magnea Hannesdóttir, Stefanía Kjartansdóttir og Guðmunda Elíasdóttir söngkona. Í næstu röð fyrir aftan, milli Magneu og Stefaníu, er Guðrún Steingrímsdóttir flugfreyja. Aftar, aðeins til
hægri, situr Sigurður A. Magnússon rithöfundur og á borði aftan við hann er m.a. Leifur Guðmundsson hjá Loftleiðum. Fremstur á myndinni hægra megin er Jóhannes Markússon flugstjóri og
fyrir aftan hann Ólaf Olsen flugstjóri. Fyrir aftan Ólaf, með svört gleraugu, er Henrik Knudsen, maður Guðmundu Elíasdóttur.
Sungið af þjóðernisást í New York
Kom fram á 10 ára fullveldisafmælinu í New York Sjálfsþurftabóndi í Mosfellsdal Kenndi og
söng fram á tíðræðisaldur Söng einsöng og í kórum Fyrstu tónleikar hennar í Gamla bíói 1958
Morgunblaðið/Eggert
Söngfélagar Guðrún Tómasdóttir söngkona og Jón Sigurbjörnsson, leikari og söngvari, hittast á Hrafnistu þar sem
Guðrún er í dagþjálfun og Jón býr. Þau rifja upp skemmtilegar minningar frá því að þau sungu saman á árum áður.
Ljósm./Einkasafn Guðrúnar Tómasdóttur
Viðurkenning Vigdís Finnbogadóttir
sæmdi Guðrúnu Riddarakrossi 1996.
Ljósmynd/Einkasafn Guðrúnar Tómasdóttur
Gleði Magnús Blöndal, Gunnar Eyjólfsson, Guðrún Camp, Guðrún Tómas-
dóttir og Guðmunda Elíasdóttir æfa sig fyrir samkomuna í NY 1954.