Skessuhorn - 21.03.2018, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 21. MARS 2018 19
Ákveðið hefur verið að slíta sam-
starfi Rauða krossins á Íslandi
(RKÍ) og heilbrigðisyfirvalda um
rekstur sjúkrabíla hér á landi. Af
því tilefni vill ráðuneyti heilbrigð-
ismála árétta að öryggi sjúkraflutn-
inga verður áfram tryggt meðan
unnið er að því að skipuleggja fyrir-
komulag þessarar þjónustu til fram-
tíðar. Í yfirlýsingu RKÍ um mál-
ið frá síðustu viku kemur fram að
ágreiningur hefur verið milli RKÍ
og ráðuneytisins um rekstur sjúkra-
bílanna og eignarhald á þeim. Rík-
ið hefur staðið straum af kaupum
nýrra sjúkrabíla að stærstum hluta
en eignarhaldið hefur verið Rauða
krossins. Því hefur ráðuneytið vilj-
að breyta en ekki hefur náðst sam-
an hvað það varðar. Rauði krossinn
rekur nú á áttunda tug sjúkrabíla
víðsvegar um landið.
„Þar sem ljóst hefur verði um
skeið að ekki myndi nást sam-
komulag í þessu máli hefur ráðu-
neytið unnið að því að finna rekstri
bílanna annan farveg. Unnið hefur
verið eftir þeirri forsendu að rekst-
urinn verði að öllu leyti á hendi
opinberra aðila. Þannig megi best
tryggja öryggi og gæði sjúkraflutn-
inga í landinu og þróa þjónustuna
til samræmis við kröfur samtím-
ans,“ segir í tilkynningu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigð-
isráðherra segir að þótt nú sé orðið
ljóst að leiðir ríkisins og RKÍ muni
skilja í þessu máli sé skýrt af beggja
hálfu að vel verði vandað til skiln-
aðarins. „Rauði krossinn hefur full-
vissað ráðuneytið um að hann muni
annast rekstur sjúkrabílanna meðan
þess er þörf, eða þar til ráðuneyt-
ið hefur fundið verkefninu farveg
til framtíðar og ég veit að orðum
Rauða krossins er óhætt að treysta.
Ráðuneytið mun hraða sinni vinnu
eins og kostur er til að ljúka þessu
máli farsællega,“ segir Svandís.
mm/ Ljósm. úr safni Skessuhorns.
Ríkið tryggir sjúkraflutninga þótt RKÍ hætti þeim
Síðdegis á miðvikudag var undirrit-
uð viljayfirlýsing milli Bjargs fast-
eignafélags og Akraneskaupstaðar
um byggingu 33 leiguíbúða á Akra-
nesi. Með yfirlýsingunni veita bæjar-
yfirvöld vilyrði um úthlutun á þrem-
ur lóðum til fasteignafélagsins. Lóð-
irnar sem um ræðir eru Asparskóg-
ar 12, 14 og 16. Auk þess mun Akra-
neskaupstaður veita stofnframlag til
verkefnisins, 12% af stofnvirði í sam-
ræmi við lög um almennar íbúðir.
Getur framlagið verið í formi gatna-
gerðargjalda eða annarra opinberra
gjalda sem bæjarfélagið hefur for-
ræði yfir. Bæjaryfirvöld leggja fram
það skilyrði fyrir veitingu stofnfram-
lagsins að Akraneskaupstaður hafi
að jafnaði ráðstöfunarrétt á fjórð-
ungi íbúða samkvæmt samkomulagi
samningsaðila.
Bjarg er húsnæðissjálfseignar-
stofnun sem stofnuð var af verkalýðs-
hreyfingunni að danskri fyrirmynd.
Félagið er rekið án hagnaðarsjónar-
miða og markmið þess er að tryggja
tekjulágu fólki á vinnumarkaði hag-
kvæmt og vandað íbúðarhúsnæði í
langtímaleigu. „Með undirritun yfir-
lýsingarinnar er stórt skref stigið í að
mæta íbúum Akraness með fjölgun
leiguíbúða, en lítið framboð hefur
verið af slíkum síðastliðin ár“, segir
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á
Akranesi. „Ég er fullur tilhlökkun-
ar yfir verkefninu og hef mikla trú á
því. Við erum hér að mæta fjölskyld-
um hér í bæ með nýjum leiguíbúðum
á leiguverði sem tekur mið af tekjum
heimilisins,“ bætir hann við.
Fjórðungur
þarf stuðning
„Fjórðungur landsmanna býr við þær
aðstæður að ráða ekki við hvort sem
er leigu eða kaup á markaði og þarf
einhvern stuðning. Þetta er mikil-
vægt,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson,
forseti ASÍ, við þetta tilefni og lýsti
yfir ánægju sinni með undirritunina
og samstarfið við Akraneskaupstað.
Það sama gerðu Árni Stefán Jóns-
son, fyrsti varaformaður BSRB og
Björn Traustason, framkvæmda-
stjóri Bjargs fasteignafélags. Sögðu
þeir að spennandi yrði að fylgjast
með framvindu verkefnisins á Akra-
nesi. Gylfi sagði allar líkur á því að
fyrstu íbúðir Bjargs yrðu á Akranesi,
þær yrðu að öllum líkindum tilbúnar
fyrr en í þeim verkefnum sem þegar
væru hafin í Reykjavík. „Við vitum að
það verður horft til þessa verkefnis.
Þetta er fyrsta verkefnið sem við för-
um í fyrir utan höfuðborgina. Hérna
stefnum við á að gera hlutina svolítið
öðruvísi, nýta nýjar lausnir og vinna
þetta hratt. Það verður því horft til
þessa verkefnis hér á Akranesi. Þetta
er mjög spennandi bæði fyrir okkur
og líka fyrir ykkur,“ sagði Björn.
Sævar Freyr rifjaði upp að fyrir
aðeins ári síðan, á einum af fyrstu
fundunum eftir að hann hóf störf
sem bæjarstjóri á Akranesi, hafi þetta
mál komið til umræðu. „Einn bæjar-
fulltrúi hvatti mig til að skoða þetta
ASÍ félag, hvort það gæti ekki verið
sniðugt. Núna, ári síðar, erum við
að leggja af stað í þetta verkefni og
mig langar að minnast sérstaklega
á að bæjarfulltrúarnir hafa allir ver-
ið einhuga í þessu verkefni og viljað
keyra það áfram,“ sagði bæjarstjórinn
ánægður.
„Hrein viðbót við
leigumarkaðinn“
Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi og
varaformaður skipulags- og umhverf-
isráðs, fagnaði undirritun viljayfirlýs-
ingarinnar. „Mér finnst þetta gríðar-
lega mikilvægt. Þetta er hrein viðbót
við leigumarkaðinn. Það er búið að
vera svolítið frost á honum, eins og
við þekkjum sem búum hér. Fólk er í
stöðugum ótta við að missa húsnæði
því nánast allt leiguhúsnæði er á sölu.
En með þessu fær fólk tryggt leigu-
húsnæði,“ segir Rakel í samtali við
Skessuhorn. „Í því samhengi er mað-
ur að horfa til ólíkra hópa. Við getum
horft á ungt fólk, ungar fjölskyldur
þar sem annað foreldrið er í námi og
einar tekjur að koma inn. Þetta hef-
ur í för með sér gríðarlegar breyting-
ar fyrir þetta fólk. Þó maður vilji ekki
vera að skipta fólki í hópa þá kemur
þetta tekjulágum einstaklingum mjög
vel og maður fagnar því,“ segir Rak-
el og bætir því við að tilkoma þessara
íbúða muni liðka fyrir markaðnum.
„Þarna fer kannski ákveðinn hópur
inn og þá skapast rými fyrir annað
leigufólk sem er kannski með hærri
tekjur. Þetta liðkar fyrir öllu á hús-
næðismarkaðnum, hefur keðjuverk-
andi áhrif,“ segir Rakel. En telur hún
koma til greina að reisa fleiri sam-
bærilegar íbúðir í framtíðinni ef vel
tekst til nú? „Tíminn verður að leiða
í ljós hvernig þetta módel virkar. En
mér finnst ekkert útilokað að skoða
það. Þetta eru 33 íbúðir og miðað við
hvað okkur fjölgar hratt hér á Akra-
nesi þá verður örugglega markað-
ur fyrir fleiri svona íbúðir með tím-
anum. En það verður að koma í ljós
hvernig þetta þróast,“ segir Rakel
Óskarsdóttir.
Ný nálgun og aðferð
Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir
geti hafist í sumar og að fyrsti áfangi,
tólf íbúðir í tveggja hæða fjölbýli,
verði tilbúnar snemma á næsta ári
ef allt gengur að óskum. Næsta mál
á dagskrá er að skipa sérstaka verk-
efnastjórn sem skipuð verður fulltrú-
um Bjargs og Akraneskaupstaðar.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ,
segir í samtali við Skessuhorn að ætl-
unin sé að prófa nýja nálgun og nýja
byggingaraðferð sem bæði er ætl-
að að halda kostnaði niðri og stytta
byggingartímann. Hann vill þó ekki
ljóstra upp hver aðferðin er að svo
stöddu. Þá segir hann áherslu lagða
á að reisa íbúðar sem eru hagkvæmar
að stærð. „Stærð íbúðanna er kannski
lykilatriði í að ná niður leiguverði.
Við gerum til dæmis ekki ráð fyrir
miklu geymslurými heldur nota frek-
ar geymsluskápa. Geymslur kosta
jafn mikið og svefnherbergi í bygg-
ingu. Ef fólk hugsar um geymsluna
sína þá er hún tiltölulega ílöng og
hillur til beggja hliða og autt svæði í
miðjunni. Þá er nú ekki mikið meira
í geymslunni en gæti verið í skáp.
Þannig að í rauninni fer mikill kostn-
aður í geymslu án þess að skapa mik-
il lífsgæði,“ segir Gylfi. „Jafnframt
erum við að vinna með langtíma
húsnæðisöryggi. Okkar íbúar koma
til með að vera með langtímaleigu-
samning. Ekki þrjá mánuði, ekki sex
mánuði, heldur þess vegna til lífstíð-
ar. Þannig viljum við skapa þessum
félögum okkar nægilegt öryggi í sín-
um húsnæðisaðstæðum, sem hefur
skort mikið á,“ segir hann.
Lífeyrissjóðirnir lána
Fjármögnun verkefnisins er með
þeim hætti að Akraneskaupstað-
ur leggur til 12% stofnframlag en
18% koma frá ríkinu, sem fyrr seg-
ir. „Þetta er 30% eigið fé sem ekki
þarf að reikna vexti af. Í framtíð-
inni þurfum við að endurgreiða það,
þegar búið er að borga lánin. Á þess-
um 50 árum sem við erum að borga
lánin upp er engin afborgun af þess-
um 30%. Það veldur því að leiga
getur orðið hagkvæmari og á að
skapa okkur þann möguleika, í sam-
bland við hagkvæma stærð og kostn-
aðarhönnun, að leiguverð geti orð-
ið samkeppnishæft,“ segir Gylfi. En
hverjir koma til með að fjármagna
þau 70% sem upp á vantar? „Við
reiknum fastlega með því að lífeyr-
issjóðirnir verði þeir sem fjármagna
hin 70 prósentin. Þeir geta ekki
komið að þessu á framkvæmdatím-
anum en þegar eru hafnar viðræð-
ur við þá um langtímafjármögnun,“
segir hann.
Spurður hvort hann telji að íbúð-
irnar verði fleiri ef vel tekst seg-
ir Gylfi Arnbjörnsson að það verði
að ráðast af þörf fyrst og fremst.
„Það er líka krafa Íbúðalánasjóðs og
stjórnvalda að sýnt sé fram á það,“
segir hann. „Núna vinnum við þetta
þannig að við förum í samstarf við
verktaka, arkitekta og verkfræð-
inga við að reyna að útfæra og klára
hönnunina, þannig að það sé eng-
in óvissa. Þannig náum við verðinu
niður. Sá verktaki sem síðan tekur
þetta að sér gerir það í alútboði. Þá
er búið að ganga frá öllum endum,“
bætir hann við. „Það er fyrirséð að
kostnaðurinn er innan þeirra marka
að leigan geti verið hagkvæm. Það
er það sem þetta gengur út á og við
erum nokkuð örugg um að þetta
eigi eftir að ganga upp,“ segir Gylfi
Arnbjörnsson að endingu. kgk
Skrifað undir viljayfirlýsingu um byggingu 33 íbúða á Akranesi
Tryggja tekjulágu fólki hagkvæmt og vandað leiguhúsnæði
Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og Akraneskaupstaðar með pennana á lofti.
F.v. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs fasteignafélags, Árni Stefán Jóns-
son, fyrsti varaformaður BSRB, Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ og Sævar Freyr
Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.
Fulltrúar Akraneskaupstaðar og verkalýðshreyfingarinnar að undirritun lokinni.
Lóðirnar við Asparskóga 12, 14 og 16 liggja vestanmegin götunnar, samhliða
einbýlishúsunum til hægri í mynd.