Skessuhorn


Skessuhorn - 27.06.2018, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 27.06.2018, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 27. JÚNÍ 201822 Guðrún Bjarnadóttir sem ný- lega gaf út bókina Grasnytjar á Ís- landi, þjóðtrú og saga, mun kynna bók sína fyrir gestum og gang- andi á komandi Hvanneyrarhá- tíð sem fram fer laugardaginn 7. júlí á Hvanneyri í Borgarfirði. „Ég hef alltaf haft gaman af gróðri og villtum jurtum. Amma mín kenndi mér að þekkja plönturnar þegar ég var barn,“ segir Guðrún. Hún tek- ur það fram með bros á vör að hún hafi lítið verið að fylgjast með því sem amma sín sagði þá en seinna hafi það allt saman rifjast upp fyrir Guðrúnu. Hún hefur síðan nýtt sér það við rit og störf. Guðrún áttaði sig fljótt á því þegar hún starfaði sem landvörður í Mývatnssveit og í þjóðgarðinum í Skaftafelli að fólk sem hún fór með í grasagöngur á þeim tíma hafði lítinn áhuga á einungis grasafræð- inni. „Ég lagði það á mig að læra latnesku heitin en eitthvað svona fræðilegt gjörsamlega drap fólk úr leiðindum. Ég áttaði mig þannig mjög snemma á að ef maður hafði einhverjar auka upplýsingar eins og til hvers plantan var notuð eða ein- hverja þjóðtrú jafnvel, þá fyrst fóru eyrun að hreyfast og fólk hlustaði og mundi þá frekar tegundina,“ segir Guðrún. Tilgangurinn að vekja athygli fólks á náttúrunni Bókin er gefin út sem skemmti- efni og er ætluð almenningi á öll- um aldri. „Síðan bókin kom út þá hef ég til dæmis fengið hringingar frá foreldrum segja mér frá börn- um sínum sem spyrja um plönt- urnar. Hvað heitir þessi planta? Og þessi planta,“ segir Guðrún sem tekur undir að bókin sé barnvæn. „Tilgangur bókarinnar er að vekja augu fólks fyrir náttúrunni í kring- um okkur og grasnytjasögunni og að það er í lagi að nýta náttúruna eins og við gerðum en verðum bara að gera það af virðingu og ekki tína of mikið af jurtinni og hugsa fallega um umhverfið.“ Guðrún mun sem fyrr segir kynna bókina sína á Hvanneyrarhá- tíðinni 7. júlí næstkomandi. glh Guðrún Bjarnadóttir kynnir bók sína á Hvanneyrarhátíðinni Guðrún Bjarnadóttir hefur alltaf haft gaman af gróðri og villtum jurtum. Jakob Björgvin Jakobsson er ný- ráðinn bæjarstjóri í Stykkishólmi. Jakob er fæddur og uppalinn í Hólminum þar sem hann bjó til 16 ára aldurs. Þá flutti hann bú- ferlum með fjölskyldu sinni á Suð- urland og hóf nám við Fjölbrauta- skóla Suðurlands. Jakob lauk laga- prófi frá Háskólanum í Reykjavík og starfaði um árabil sem verk- efnastjóri á skatta- og lögfræði- sviði Deloitte, en áður starfaði hann sem lögfræðingur m.a. hjá Skattrannsóknastjóra ríkisins og Skattstjóranum í Reykjavík. Jak- ob er stofnandi Arctic lögfræði- þjónustu, þar sem hann starfaði sem lögmaður þar til Arctic lög- fræðiþjónusta og Opus lögmenn sameinuðust og var Jakob með- eigandi Opus lögmanna þar sem hann veitti fyrirtækja- og skatta- sviði forstöðu. Hreinræktaður Hólmari „Það er mjög gott að flytja heim aftur,“ segir Jakob brosandi þegar blaðamaður Skessuhorns leit við hjá honum á skrifstofunni í Ráð- húsi Stykkishólmsbæjar. Hann er spurður um tengslin við Stykkis- hólm. „Það er óhætt að segja að tengsl mín við bæinn séu mjög sterk. Ég er hreinræktaður Hólm- ari og á mínar ættir að rekja hingað í Breiðafjörðinn. Á tímabili þegar ég var ungur átti ég 15 ömmur og afa sem búsett voru hér í Stykkis- hólmi. Það voru þá ömmur og afar, stjúpömmur og stjúpafar, lang- ömmur og langafar og svo fram- vegis,“ segir Jakob og hlær. „Það hefur aðeins fækkað í þessum hópi en ég á enn í dag tvö sett af ömm- um og öfum sem búa hér og bý ég einmitt heima hjá öðru þeirra eins og er. Ætli ég sé ekki eini bæjar- stjórinn sem býr hjá ömmu sinni og afa? Þetta er reyndar einungis tímabundið ástand og í raun dæmi um vöxt og framþróun í bænum en það hafa verið örlitlir vaxtarverkir í Stykkishólmi undanfarið vegna fjölgunar íbúa. En hér er samfé- lag í miklum uppvexti og hing- að er ungt fólk að flytja í aukn- um mæli. Þannig að það má segja að þetta sé svokallað lúxusvanda- mál bæjarfélaga. Þá vildi ég ekki láta bæinn þurfa að sjá okkur fyrir húsnæði svo við Soffía Adda, kon- an mín, fluttum bara til ömmu og afa tímabundið með börnin okkar tvö. Það eru einungis nokkrar vik- ur síðan við fluttum og við fáum að sjálfsögðu hús á endanum og erum við því alveg róleg þangað til. Það er bara mjög gott að vera kominn til ömmu og afa aftur, en hér bjó ég líka þegar ég var á leik- skólaaldri. Nú fær maður lamba- skanka, bjúgu og annan góðan heimilismat af gamla skólanum og kvarta ég ekki yfir því,“ segir Jak- ob og hlær. Fannst ég vera kominn heim Jakob segir það mikinn heiður að njóta þess trausts sem honum hef- ur verið sýnt með ráðningunni. „Þegar H-listinn kom að máli við mig í vetur um að kynna mig sem bæjarstjóraefni listans vildi ég fá að hugsa mig aðeins um. Við vor- um búin að koma okkur vel fyrir í Kópavogi og ég kominn á góðan stað með mitt fyrirtæki og Soffía Adda ánægð í sinni vinnu sem flugfreyja,“ segir hann og heldur áfram: „Þegar ég keyri svo hing- að inn í Stykkishólm til að hitta frambjóðendur H-listans fannst mér ég vera kominn heim og þar með var þetta ekki spurning leng- ur. Þarna var frábært tækifæri fyr- ir mig að flytja aftur í Hólminn. Ég er gífurlega þakklátur fyrir að fá nú tækifæri til að taka þátt í að móta samfélagið sem ól mig upp og á svo stóran þátt í því hver ég er í dag,“ segir hann. „Ég er einn- ig mjög þakklátur fyrir að geta alið börnin mín upp í þessari náttúru- paradís hér í Stykkishólmi. Það er einstakt fyrir börn að fá að alast upp við þetta frelsi og öryggi sem hér er að finna.“ Vill halda uppbyggingu áfram „Við þurfum að bregðast við fjölg- un íbúa og tryggja nægt framboð byggingalóða fyrir bæði íbúð- ar- og atvinnuhúsnæði. Nú þegar eru komin deiliskipulög af tveim- ur nýjum íbúðahverfum,“ svarar Jakob aðspurður hver séu brýn- ustu verkefni nýrrar bæjarstjórnar. „Við þurfum einnig að halda vel um innviðina og halda uppi því háa þjónustustigi sem hér hefur verið. Svo dæmi séu tekin þá eru teikn- ingar af nýrri glæsilegri skólalóð á lokastigi og þá liggja fyrir drög að teikningum að stækkun grunn- skólans og nýjum tónlistarskóla sem fyrirhugað er að muni rísa á sömu lóð. Þá er kominn tími á að- gerðir í málefnum eldri borgara og hefur í því sambandi verið ritað undir samkomulag um uppbygg- ingu og breytingu á hluta húsnæð- is sjúkrahússins í hjúkrunarheim- ili. Áður er sú uppbygging fer af stað þarf að huga að skipulagningu lóðar umhverfis dvalarheimilið þannig að hún verði aðgengileg fyrir íbúa, svo sem bílastæði, gras- fleti og annað til útiveru. Önnur stór og smá verkefni eru í farvatn- inu en vissulega verður ekki farið í öll verkefni á sama tíma en við viljum líka horfa lengra en aðeins til fjögurra ára í senn,“ segir Jak- ob og bætir því við að einnig sé mikilvægt að halda vel á spöðun- um og sýna ábyrgð í rekstri. „Hér í Stykkishólmi er lítið atvinnu- leysi og tekjur bæjarins hafa vax- ið en það þýðir ekki að við ættum að ráðast í of margar framkvæmd- ir í einu. Við þurfum að forgangs- raða og vinna vel fyrir alla bæjar- búa. Ég trúi því að við getum gert meira fyrir fleiri með góðri sam- vinnu við íbúana og því legg ég mikla áherslu á að eiga samtal við íbúa.“ Hlakkar til að vera virkur íbúi í Stykkishólmi Aðspurður segist Jakob vongóð- ur um að eiga góð samskipti við bæjarbúa. „Íbúar í Stykkishólmi eru mér margir kunnugir frá því ég var yngri og ég veit að okkur þykir öllum vænt um bæinn okkar. Við viljum öll vinna að því sam- eiginlega markmiði að gera Stykk- ishólm enn betri. Ég hlakka mik- ið til að vera virkur íbúi í Stykk- ishólmi, vera foreldri, þátttak- andi í félagstarfi, íþróttum og öllu því sem gerir okkur að samfélagi hér.“ arg „Ætli ég sé ekki eini bæjarstjórinn sem býr hjá ömmu sinni og afa“ Rætt við Jakob Björgvin Jakobsson, nýjan bæjarstjóra í Stykkishólmi Jakob Björgvin Jakobsson er nýráðinn bæjarstjóri í Stykkishólmi. Frá Stykkishólmi. Norska húsið í baksýn. Ljósm. gbh.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.