Heimsmynd - 01.07.1992, Side 8

Heimsmynd - 01.07.1992, Side 8
FRA RITSTJORA Stríð gegn konum mannfólkið er eina dýrategund- in þar sem annað kynið er stöðugt að kúga hitt, segir rit- höfundurinn Marilyn French í nýútkominni bók sinni The War Against Women. Hún bendir á hvernig karlmenn líti á sig sem náttúrulega stjórnendur, sem sé eðlislægt að drottna yfir konum og misnota þær. Vegna þessa, segir French, er mannkynið dæmt til að deyja út. En sagan sýnir að karlmenn hafa ekki alltaf stjórn- að konum - á einhverju tímaskeiði ríkti jafnræði meðal kynjanna. Síðan kom feðraveldið til sögunnar, ef til vill sem svar við fyrri yfirráðum kvenna því á vissum skeiðum í sögunni hafa konur haft völd en þær bundust aldrei samtökum gegn hinu kyninu eða reyndu í sameiningu að kúga það. Allt bendir til þess að fyrstu þrælarnir hafi verið konur og þær hafa verið undirokaðar af karlmönnum í þúsundir ára. Staða kvenna hefur að mati French versnað mjög síðustu aldirnar þegar herraþjóðirnar í Evrópu voru að leggja undir sig heiminn og gripu til trúarlegra réttlætinga til að sannfæra sjálfa sig og aðra um réttmæti drottnunar hins hvíta manns yfir umheiminum, náttúrunni og konunni. Öreigarnir í iðnbyltingunni voru að stærstum hluta konur og börn. Það er ekki fyrr en á síðustu öld sem fyrsta kvenfrelsishreyfingin kemur til sögunnar árið 1848 í Bandaríkjunum. Kvenfrelsishugmyndir höfðu ver- ið settar fram á fyrri tíð af rithöfundunum Christine de Pisan, Mary Woll- stonecraft, George Sand og fleiri konum. En samstaða meðal kvenna hef- ur aldrei verið til staðar á sama hátt og meðal karla, hvar í stétt sem þeir standa, því konur hafa ætíð bundist börnum sínum sterkustu böndunum. Það er fyrst á þessari öld að frelsisbarátta kvenna hefur skilað árangri. French segir að sá árangur líkist kraftaverki, hann sé ekki bundinn við einhverja eina stefnu, kvenfrelsisbaráttan teygi anga sína víða. Eitt er víst, segir höfundurinn, að sé tekið mið af því hve sterk öfl standi gegn konum og baráttu þeirra þá er árangurinn undraverður. Nú segir Marilyn French að karlmenn út um allan heim séu að bregðast við öflugustu kvennabar- áttu sögunnar. Þeir velti ekki vöngum yfir eigin þörf til að ráða yfir kven- fólki, heldur spyrni við fótum í því sem hún kallar stríð gegn konum. Marilyn French talar um stríð. Þetta stríð segir hún fólgið í því að herða tök karla á konum, kvenlíkamanum og þeim eiginleika kvenna að geta al- ið börn. Hún talar um kúgun karla á konum (ofbeldi) sem alþjóðleg átök. Hún segir blaðamenn og félagsráðgjafa hylma yfir þá staðreynd að hér er um víðtækt ofbeldi að ræða, þó ekki sé tekið mið af öðru en því sem á sér stað innan heimilanna. Hún segir ofbeldi gegn konum, nauðganir, bar- smíðar, morð á eiginkonum og unnustum og kynferðislegt ofbeldi karla gegn stúlkubörnum afgreitt sem afbrigðilegt og einstaklingsbundið atferli í stað þess að litið sé á það sem útbreitt mein í samfélaginu. Máli sínu til stuðnings vísar hún á hve vægt dómstólar og lögregla taki oft á þessum málum. French færir rök fyrir því að konur séu kúgaðar á kerfisbundinn hátt af stofnunum samfélagsins þar sem þær hafi ekki jafnan aðgang á við karla og með almennri hugmyndafræði. Flest trúarbrögð gangi út á að konur séu undirokaðar enda byggi þau flest á feðraveldi, þar sem guðinn er karlkyns. Það stríð sem nú er háð gegn konum og gengur út á að gera þær enn undirokaðri er bersýnilegt í því trúarofstæki sem hefur vaxið ásmegin hvort sem er hjá múslimum í Asíu og Afríku eða öfgasamtökum í Banda- ríkjunum sem berjast gegn löglegum fóstureyðingum á sama tíma og þau leggja áherslu á íhaldssöm fjölskyldugildi þar sem staður konunnar á að vera innan heimilisins. Hún segir að hægt sé að tala um útrýmingu á kon- um, líkt og talað er um þjóðarmorð. Dráp á stúlkubörnum í Kína, brúðar- brunar á Indlandi, konur sem deyja úr hungri í Afríku og eru drepnar af karlmönnum á Vesturlöndum, segir French allt dæmi um þá hættu sem steðjar að konum. Stríðið gegn konum birtist einnig í kvenfyrirlitningunni sem er alls stað- ar ríkjandi og endurspeglast bæði 1 tungumálinu og listinni. í einum vin- sælasta listmiðli nútímans, kvikmyndunum, segir hún allt of algengt að dregin sé upp mynd af konum sem heimskum dræsum og tekur sem dæmi Jennifer Jason Leigh í Last Exit to Brooklyn en örlög þeirrar konu eru djöf- ulleg martröð þar sem hundrað karlmenn nauðga henni fyrir rest. f kvik- myndum er einnig dregin upp vafasöm mynd af framsæknum konum; eigin- gjömum (Sigoumey Weaver í Working Girl) og grimmum (Glenn Close í Fatal Attraction) - svo ekki sé minnst á Sharon Stone í Basic Instinct. Há- mark kvenfyrirlitningarinnar er klámiðnaðurinn eins og hann leggur sig. Það er erfitt að sýna fram á þá mismunun sem konur verða fyrir þar sem fordómarnir eru slíkir að jafnvel konurnar sjálfar vilja ekki kannast við þá. Þessir for- dómar birtast á margvíslegan hátt eftir því hvaða sam- félög eiga í hlut. Ágætt dæmi, segir French, er það að konur eru alltaf skoðaðar sem frávik hvað svo sem þær taka sér fyrir hendur: Óbyrjan, framakonan, frekjan eða sú undirokaða. Samfélagið dæmir konur fyrir að vera metnaðargjarnar, fyrir að skorta metnað, fyrir auð sinn eða fátækt, fyrir að vera feitar eða mjóar, fyrir starfsframa eða fyrir engan starfsframa. Þar sem konur eru dæmdar fyrir allt sem þær gera og gera ekki, er erf- itt að sýna fram á fordómana sem þær mæta, segir French. Óháð tíma og rúmi hefur karlmönnum í aldanna rás tekist að gera konur undirokaðar með tilvísun í ágæti sinna eiginleika ólíkt þeirra: Karlar eru rökvísir og skynsamir, konur láta stjórnast af tilfinningum. Og harðast taka þeir fyrir vikið á konum sem standa uppi í hárinu á þeim. Því er áráttan sú að afgreiða alla kven- frelsisbaráttu sem öfgar fámennra þrýstihópa rétt eins og baráttan varðaði ekki helming mannkyns heldur einhverja smáhópa. Börn eru háð konum, mæðrum sínum. Þar sem farið er illa með konur er farið illa með börn, segir French. Hvort sem er í einhverju Afríkurík- inu eða á Islandi er afkoma kvenna háð því að þær geti fótað sig á vinnu- markaðinum. En þar sem karlar eru við völd mæta konur ekki bara for- dómum af hálfu stofnana samfélagsins heldur einnig hindrunum. Og hún segir: Langoftast þegar konum er skaði gerður bitnar það á börnunum. Þegar konum er hjálpað er börnum hjálpað. Pólitík, í hvaða formi sem er, sem beinist gegn konum skaðar mannkynið allt. Lokaniðurstaða Marilyn French er sú að karlmenn kúgi konur af því að þær ali börnin. Það viðhorf sé ríkjandi að allt framhald lífs sé undir kon- um komið og því sé þeim falin öll ábyrgðin af uppeldi barnanna. En þrátt fyrir alla þessa ábyrgð fái þær enga umbun fyrir, litla hjálp og lítið tillit sé tekið til þeirra. Uppeldi barna sé hvorki í þróuðum né þróunarlöndum álitið fullt starf. Þær tölfræðilegu staðreyndir sem kynntar voru á kvennaráðstefnu Sam- einuðu Þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir tólf árum eru enn þær sömu: Konur vinna um tvo þriðju eða þrjá fjórðu af þeim störfum sem unnin eru í heiminum. Þær bera ábyrgðina en karlarnir eru við völd. Af þeim milljarði sem gengur til náða hvern dag stöðugt vannærður eða hungraður er meirihlutinn konur og börn. Um fimmtíu þúsund manns deyja daglega úr hungri, meirihlutinn eru konur og börn. I Bandaríkjun- um eru tólf milljónir barna sem ekki njóta læknishjálpar og flest þeirra eru börn einstæðra mæðra. Fjórir fimmtu þeirra fátækustu þar í landi eru konur og börn. Það er þekkt staðreynd hvar sem er nú á tímum að einni konu gengur erfiðlega að sjá fyrir börnum sínum með því að vinna úti og ala þau upp um leið. Þetta er veruleikinn. En flest erum við ef til vill svo skyni skroppin, að mati French, að afmarka þessi vandamál og útiloka frá okkur sjálfum sem vanda umræddra kvenna - hungraðrar móður sem horfir brostnum aug- um á deyjandi bam sitt, einstæðrar, örvæntingarfullrar móður sem getur ekki séð börnum sínum farborða. Konur eru að vakna til vitundar. Þær hafa sótt í sig veðrið, aflað sér aukinnar menntunar og barist hetjulega á vinnumarkaðinum. Hver og ein einasta þeirra, hvar í flokki sem hún stendur, hefur að öllum líkindum lagt meira á sig en karlinn við hliðina á henni. Það er löngu kominn tími til að konur hætti að rífast um stefnur og strauma í baráttunni fyrir mann- réttindum sínum og framtíð barnanna sinna. Hugmyndir Marilyn French eru ugglaust enn of róttækar fyrir meginþorra fólks - en konur eiga að krefjast valda og áhrifa í samræmi við þá ábyrgð, sem þær axla alla daga vikunnar frá morgni til kvölds, frá austri til vesturs og norðri til suðurs, í Kalkútta, Moskvu, Chicago, Róm og Reykjavík. iknlíi WftiUAíttÍfu 8 HEIMSMYND

x

Heimsmynd

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heimsmynd
https://timarit.is/publication/1408

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.