Fréttablaðið - 17.03.2016, Síða 25
Þorvaldur
Gylfason
prófessor
Í dag
Sérhver þjóð á sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sérhver þjóð þarf að huga vel að landi sínu, lífi, sögu og menningu, og mætti hafa langt mál um það.
Hér ætla ég að láta mér duga að huga
að einum þætti málsins, sameiginleg-
um fjáreignum íslenzku þjóðarinnar.
Þær eru margar og voru enn fleiri á
fyrri tíð áður en alda einkavæðingar
reið yfir landið, en þá hafði kommún-
isminn hrunið með brauki og bramli í
Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra í
Austur-Evrópu um og eftir 1990.
Rökin fyrir einkavæðingu banka og
ýmissa annarra ríkisfyrirtækja voru þá
og eru enn býsna sterk, en framkvæmd-
in mistókst enda varðaði einkavæðing
bankanna veginn að hruni þeirra
fáeinum árum síðar. Alþingi ber höfuð-
ábyrgð á málinu og hefur í reyndinni
gengizt við sekt sinni með því að láta
undir höfuð leggjast að framfylgja eigin
ályktun frá 2013 um að láta rannsaka
einkavæðingu bankanna ofan í kjölinn.
Auðlindarentan
Sameiginlegar fjáreignir íslenzku þjóð-
arinnar eru annars vegar landið og
miðin með öllum þeim auði sem þar er
að finna og hins vegar ýmis manngerð
verðmæti, t.d. fyrirtæki og innviðir í
eigu ríkis og byggða og ýmis mannvirki
(heilbrigðiskerfið, vegakerfið o.s.frv.).
Alþingi hefur yfirleitt ekki haldið vel á
þessum eignum fyrir hönd eigandans,
fólksins í landinu. Það er til marks um
hirðuleysi yfirvalda um eigur almenn-
ings að hvergi í opinberum gögnum
– t.d. ekki á vefsetri Hagstofu Íslands
– er nokkrar upplýsingar að finna
um áætlað verðmæti sameiginlegra
fjáreigna þjóðarinnar. Eina opinbera
stofnunin sem birt hefur slíkt mat er
Þjóðhagsstofnun undir stjórn Þórðar
Friðjónssonar; hún var lögð niður.
Það hefur því komið í hlut hagfræð-
inga utan stjórnkerfisins að meta eigur
þjóðarinnar til fjár á eigin ábyrgð.
Indriði Þorláksson hagfræðingur og
fv. ríkisskattstjóri metur sjávarauð-
lindina svo að hún gefi af sér rentu
upp á 2% til 3% af landsframleiðslu
á hverju ári eins og ég lýsti á þessum
stað 12. nóvember í fyrra. Sigurður
Jóhannesson hagfræðingur í Háskóla
Íslands metur orkulindirnar með líku
lagi svo að þær geti gefið af sér rentu
sem nemur 1,5% til 2% af landsfram-
leiðslu á hverju ári. Við erum því að
tala um auðlindarentu sem nemur
samtals 3,5% til 5% af landsframleiðslu
á hverju ári. Séu eðlilegir vextir taldir
nema 3,5% til 5% á ári má í grófum
dráttum af þessu ráða að auðlindir
þjóðarinnar til sjós og lands séu jafn-
virði landsframleiðslunnar á hverju ári
eða því sem næst líkt og t.d. í Kanada.
Þetta er meira en í Danmörku, Finn-
landi og Svíþjóð en minna en í Noregi.
Að höndla með annarra fé
Landsbankinn og Búnaðarbankinn
voru seldir vel tengdum mönnum á
undirverði, þ.e. undir sannvirði, eins
og Ríkisendurskoðun lýsti í skýrslu
sinni um einkavæðingu ríkisfyrir-
tækja 2001. Þar segir m.a.: „Sú söluað-
ferð að auglýsa ráðandi hlut til sölu á
sama tíma í Landsbanka Íslands hf. og
Búnaðarbanka Íslands hf. verður að
teljast óheppileg. Í fyrsta lagi var ekki
komin reynsla á þessa söluaðferð og
í öðru lagi gaf hún minni möguleika
á að koma á samkeppni milli áhuga-
samra kaupenda. Enn fremur vaknar
spurning um hvort sá tími sem valinn
var til sölunnar hafi verið heppilegur.“
Sala bankanna í hendur vildarvina
á undirverði var þó ekki annað en
rökrétt framhald ókeypis afhendingar
aflakvóta til útvegsmanna sem hafa
þakkað fyrir sig líkt og bankarnir
gerðu með því að moka fé í stjórn-
málamenn og flokka og fjölmiðla svo
sem fram kemur í skýrslu rannsóknar-
nefndar Alþingis.
Umgengnin við orkuna hefur verið
sömu ættar. Orkuverð til erlendra
kaupenda hefur jafnan verið svo lágt
að því þurfti að halda leyndu fyrir
eiganda orkunnar, almenningi. Stjórn-
málamenn tóku sinn toll með kosn-
ingaloforðum um framkvæmdir við
byggingu orkufrekra iðjuvera og veiktu
með því móti samningsstöðu Íslands
gagnvart erlendum kaupendum eftir
kosningar. Kaupendurnir vissu sem
var að stjórnmálamenn voru búnir að
lofa framkvæmdum.
Orkubúskapurinn hefur því verið
sama marki brenndur og sjávarút-
vegurinn og bankabransinn: allt á
undirverði. Þannig getur farið þegar
menn höndla með annarra fé. Borg-
unarmálið nú – verðmæt eign úr safni
ríkisbanka seld völdum mönnum (og
frændum!) án útboðs langt undir réttu
verði – er angi á sama meiði.
Fjölskyldusilfrið
Í ljósi þessarar sögu þarf að skoða
ástand og horfur annarra eigna
almennings svo sem heilbrigðis-
kerfisins sem rambar nú á barmi
hruns vegna langvinnrar vanrækslu,
Ríkisútvarpsins o.fl. sameigna fólksins
í landinu. Hví skyldu sömu menn og
flokkar ekki reyna til þrautar að selja
allt fjölskyldusilfrið á undirverði?
Lífið er sameign
Það er til marks um hirðu-
leysi yfirvalda um eigur
almennings að hvergi í opin-
berum gögnum – t.d. ekki
á vefsetri Hagstofu Íslands
– er nokkrar upplýsingar
að finna um áætlað verð-
mæti sameiginlegra fjáreigna
þjóðarinnar.
Sigurður R.
Þórðarson
fv. starfsmaður
við vatnsátöpp-
un í Reykjavík
Í umfjöllun Fréttablaðsins 15.03. 2016 um deilumál Hrafns Gunn-laugssonar og fleiri sumarbú-
staðaeigenda við Elliðavatn vekja
athygli rökfærslur Bjarna Bjarna-
sonar, forstjóra OR, um að þessi
aðgerð teljist til langtímamarkmiða
sem gerð eru í þágu vatnsverndar á
höfuðborgarsvæðinu.
Ég held því miður að þessi gjörn-
ingur hljóti að teljast vera gerður í
þágu einhverra annarra hagsmuna
en vatnsverndar. Rök fyrir að svo
muni vera á öðrum og mikilvægari
sviðum umhverfisverndar í umsjá
OR, sérstaklega er varðar verndun
kannski verðmætustu sameignar
þjóðarinnar, kalda vatnsins í Heið-
mörk, virðast vera ærin. Þetta á
við þegar kemur að því að stöðva
meðvitaða ásókn hinna ýmsu hags-
munaaðila inn á vatnsverndarsvæði
OR. Þar sem almennt er vitað að vatn
er þeirrar náttúru að renna undan
halla er staðsetning þessara tilteknu
sumarbústaða þess vegna til muna
hættuminni en þau umsvif er blasa
við þegar ekið er austur yfir fjall.
Til að nefna örfá dæmi um þá
hættu sem blasir við framtíðarheil-
brigði kaldavatnsauðlindarinnar í
Heiðmörk og stofnað hefur verið
til af OR og heilbrigðisyfirvöldum á
svæðinu má nefna:
l Ótakmörkuð umsvif við jarðhita-
orkuvinnslu á Hellisheiði með
tilheyrandi niðurdælingu brenni-
steinsvetnismengaðs vatns.
l Aukin umsvif á Bláfjallasvæðinu
auk nýlegra olíuslysa í tengslum
við heimsóknir ferðamanna að
Þríhnúkagíg.
l Flutningur 40.000 rúmmetra af
olíumenguðum uppgreftri sem
fluttur var af svæðinu neðan Öskju-
hlíðar til losunar í Hólmsheiði,
gegnt Gvendarbrunnum. Aðgerð
sem reyndar var stöðvuð á síðari
stigum, þegar þessir flutningar
voru langt komnir.
l Starfsemi Waldorfskólans sunnan
Lögbergs.
l Heimild heilbrigðisyfirvalda á
höfuðborgarsvæðinu til losunar
gríðarlegs magns jarðvegsúrgangs
í Bolaöldum. Með sérstöku fyrir-
heiti sömu heilbrigðisyfirvalda
um að þau sæju Bolaöldur fyrir sér
sem framtíðarstaðsetningu fyrir
sorpflokkun. Fréttir af þessum
skelfilegu áformum mátti lesa í
Morgunblaðsumfjöllun 16. mars
2012.
l Heimild umhverfisráðherra til
keppnishalds og æfinga torfæru-
klúbba höfuðborgarsvæðisins í
Jósepsdal, þar sem talið var í ráðu-
neytinu að tiltekinn dalur væri á
Vestfjörðum.
l Auk annarra smámuna, svo sem
heimildar heilbrigðisyfirvalda til
dreifingar hænsnaskíts á Sand-
skeiði.
Vegna allra framangreindra verk-
efna hefur undirritaður óskað skrif-
legra umsagna eða rökfærslna fyrir
heimildum umhverfisráðuneytis og
annarra stjórnsýslustofnana fyrir
þessum ákvörðunum. Engu þeirra
erinda hefur verið svarað, sem líka
er brot á stjórnsýslulögum.
Ég er eindregið þeirrar skoðunar
að stjórn OR ætti að líta sér nær og
taka til í meira aðkallandi verkefn-
um en að fjarlægja nefnda sumar-
bústaði.
Undirritaður leyfði sér óumbeðið
að taka sér penna í hönd vegna sér-
stakrar virðingar við minningu Her-
dísar Þorvaldsdóttur, þáverandi for-
manns Landverndar, fyrir veittan
stuðning við málstað okkar nokk-
urra félaga sem í 40 ár höfum árang-
urslaust leitað úrlausna vegna vald-
níðslu íslenskra embættismanna í
svokölluðu Heiðarfjallsmáli.
Á skal að ósi stemma
Þar sem almennt er vitað að
vatn er þeirrar náttúru að
renna undan halla er stað-
setning þessara tilteknu
sumarbústaða þess vegna til
muna hættuminni en þau
umsvif er blasa við þegar
ekið er austur yfir fjall.
PÉTUR OG ÚLFURINN
Listvinafélag Hallgrímskirkju 34. starfsár
Sögumaður: Halldóra Geirharðsdóttir
Organisti: Mattias Wager
Þetta er í þriðja sinn sem Mattias kemur til Íslands og flytur hið sívinsæla barnaævintýri Pétur og úlfinn
eftir Prokovief í útsetningu W. Grimm á stóra Klaisorgelið í Hallgrímskirkju.
Halldóra Geirharðsdóttir hefur mikla reynslu af söguflutningi með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Stóra Klais orgelið bregður sér í hlutverk heillar sinfóníuhljómsveitar!
HALLGRÍMSKIRKJA
Laugardagur 19. mars 2016 kl. 14
listvinafelag.isAðgangseyrir: 2500 kr. / listvinir: 50% afsláttur - ókeypis fyrir börn Miðasala á MIDI.IS og í Hallgrímskirkju s. 510 1000
s k o ð u n ∙ F R É T T a B L a ð i ð 25F i M M T u d a g u R 1 7 . M a R s 2 0 1 6