Skessuhorn - 22.05.2019, Blaðsíða 24
MIÐVIKUDAGUR 22. MAí 201924
Í ár eru 100 ár liðin frá stofn-
un Félags íslenskra hjúkrunar-
fræðinga. Af því tilefni stendur
stjórn deildar hjúkrunarfræð-
inga á Akranesi og nágrenni fyr-
ir því á afmælisárinu að birta
greinar eftir hjúkrunarfræðinga
hér í Skessuhorni. Greinarnar
eru birtar jafnt og þétt yfir af-
mælisárið og í þeim fá lesendum
innsýn í þau fjölbreyttu störf og
áskoranir sem hjúkrunarfræð-
ingar fást við. Að þessu sinni
kynnir sig til leiks Kristjana
Kristjánsdóttir, skurðhjúkrunar-
fræðingur á Akranesi.
Ég heiti Kristjana Kristjánsdóttir
og er skurðhjúkrunarfræðingur. Ég
útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla ís-
lands í mars 1973 og er því búin að
starfa við hjúkrun í 46 ár. Strax eft-
ir útskrift tók ég til starfa á Sjúkra-
húsinu á Hvammstanga og var þar
fram í nóvember sama ár. Þá var ég
búin að vinna mér inn fyrir Evr-
ópureisu, sem þótti mjög flott í þá
daga.
Ég er fædd og uppalin í Reykja-
vík, en kom á Akranes í janúar
1974, fyrir tilstuðlan Árna Ingólfs-
sonar kvensjúkdómalæknis. Hann
hringdi til móðursystur minnar í
Kaupmannahöfn, því hann hafði
frétt af tveimur hjúkrunarfræð-
ingum, mér og frænku sinni, að
slæpast þar þegar það bráðvantaði
hjúkrunarfræðinga á Akranes. Ég
kom á Akranes en ekki frænkan. Ég
ætlaði að stoppa stutt á Akranesi,
en fara síðan um haustið til Noregs
í framhaldsnám. Á Akranesi tókst
Amor að skjóta mig með ör sinni,
því hér hitti ég eiginmann minn,
Stefán Magnússon húsasmið. Sam-
an eigum við þrjú uppkomin börn;
Gauta, Brynhildi og Bjarna.
Mikilvægt að skilja milli
starfs og einkalífs
Ég byrjaði að vinna á lyflæknisdeild
sjúkrahússins, fyrst sem almennur
hjúkrunarfræðingur og síðan sem
deildarstjóri til 1986. Það var mjög
skemmtileg en krefjandi vinna, að
halda utan um og stýra sólarhring-
sdeild, þar sem oft vantar starfsfólk.
í þessu starfi er mikilvægt að hlúa
vel að sjálfum sér og læra að skilja
á milli starfs og einkalífs. Maður
kynnist fólki mjög náið, þar sem
miklar tilfinningar koma fram við
erfið veikindi og missi nákominna
ættingja. Þar er líka gleði yfir að sjá
fólk ná góðum bata, jafnvel af sjúk-
dómum sem maður hafði ekki trú
á að myndu læknast. Miklar fram-
farir hafa orðið í lækningu ýmissa
sjúkdóma síðan ég fór að starfa við
hjúkrun og legutími styst.
Ætlaði aldrei að vinna
á skurðstofu
Þegar ég var búin að vera tíu ár sem
deildarstjóri, árið 1986, var kominn
tími til að breyta til. Ég var farin að
finna fyrir þreytu og kulnun í starfi.
Þá söðlaði ég um, ætlaði að hvíla
mig á stjórnunarstarfi. Það var laus
staða á skurðstofunni sem ég sótti
um, þó mér hafi ekki fundist það
áhugavert þegar ég var í hjúkrun-
arnáminu. Ég hélt að ég ætti aldrei
eftir að vinna á skurðstofu. Svona
veit maður nú lítið. Ég ákvað að slá
til og prófa það, sem leiddi síðan til
þess að ég fór í skurðhjúkrunarnám
í janúar 1989. Það var ansi mikið
átak að drífa sig í nám eftir svona
mörg ár og yngsta barnið mitt var á
fyrsta ári þegar ég byrjaði í náminu.
Við vorum þrjár af Akranesi sem
fórum í þetta nám og ferðuðumst
með Akraborginni suður á mánu-
dagsmorgni og heim á föstudegi,
því þetta var fyrir göng. Þá var gott
að eiga foreldra í Reykjavík, sem
voru boðnir og búnir að aðstoða.
Oft var maður alveg að gefast upp,
en með aðstoð fjölskyldu og góðra
vina tókst mér að klára þetta nám
vorið 1990 og hef ég aldrei séð eft-
ir því.
Fræðsla fyrir aðgerðir
mikilvæg
Lokaverkefni mitt var: Fræðsla sjúk-
lings fyrir skurðaðgerð, mikilvægi,
innihald og framkvæmd. Þarna var
farið að gera mikið af bæklingum
um fræðslu fyrir aðgerðir og bækl-
ingarnir sendir heim til sjúklinga.
Nú er hins vegar hægt að fletta öllu
upp á netinu. Það er mikilvægt að
geta lesið upplýsingarnar í róleg-
heitum heima því maður grípur
ekki allt sem sagt er við mann fyr-
ir aðgerð. Það dregur úr kvíða fyr-
ir aðgerð ef maður veit svona nokk-
urn veginn hvað maður á í vændum.
En auðvitað er ekki alltaf hægt að
fræða fyrirfram ef um bráðaaðgerð
er að ræða og verður þá fræðslan að
koma eftir á. Eftir námið fór ég að
vinna á skurðstofunni 50% og 30%
á slysamóttökunni, en síðan ein-
göngu á skurðstofunni.
Getur verið hættulegt
að hafa of mikið álag
Árið 2002 tók ég við deildarstjóra-
stöðu skurðdeildar ásamt Ólafíu
Sigurðardóttur. Við skiptum með
okkur verkum. Hún sá um vinnu-
skýrslur og starfsmannahald og ég
sá um innkaup, eftirlit með tækj-
um, fundasetu og skipulag. Svo
gátum við leyst hvor aðra af í frí-
um. Það skiptir miklu máli að hafa
góða samstarfsmenn. Við höfum
alltaf verið svo heppin með starfs-
fólk, þar sem allir leggjast á eitt að
láta hlutina ganga, oft undir miklu
álagi. Hér höfum við alltaf verið að
spara og því verið með lágmarks
mannskap. Starfsemin hefur vax-
ið jafnt og þétt undanfarin ár, en
alltaf hefur verið góður starfsandi,
með öryggi og velferð skjólstæð-
ingsins að leiðarljósi. En það getur
verið hættulegt, að hafa of mikið
álag á starfsmenn til langs tíma og
er það ein af skýringunum á kuln-
un í dag.
Hröð þróun
í skurðlækningum
Við erum með starfsemi á tveim-
ur skurðstofum alla daga vikunn-
ar og að auki er sólarhrings bak-
vakt sem tekur við bráðaaðgerðum.
Við gerum liðskiptaaðgerðir; hné
og mjaðmir og einnig hnéspeglan-
ir, almennar aðgerðir; svo sem gall-
og kviðslitsaðgerðir og fleira, kven-
sjúkdómaaðgerðir; svo sem leg-
nám, blöðru- og legsigsaðgerðir,
keisaraskurði og fleira, háls-, nef,
og eyrnaaðgerðir, þvagfæraaðgerð-
ir og lýtaaðgerðir.
Þetta er fjölbreytt starf, sem
þarfnast góðs undirbúnings og allt
þarf að vera til staðar sem nota á í
aðgerðunum. Einnig þarf stöðugt
að fylgjast með nýjungum, því það
er svo hröð þróun í skurðlækning-
um. Mikil bylting varð þegar farið
var að gera aðgerðir með speglun-
artækni í stað opinna aðgerða. Sjúk-
lingar eru þá miklu fljótari að ná
sér og fyrr komnir aftur til starfa.
Mesta álagið er auðvitað þegar þarf
að fara í aðgerðir með hraði og
líf liggur jafnvel við, eins og t.d. í
bráðakeisaraskurði.
Lánsöm að hafa valið
hjúkrunarstarfið
September 2016 ákvað ég að
minnka við mig vinnu, hætti sem
deildarstjóri og fór í 50% vinnu.
Það eru mikil forréttindi að get-
að minnkað vinnuna smám saman
og aðlagast þeim kafla lífsins þegar
byrjað er að taka lífeyri. Það líður
því að starfslokum hjá mér og mér
finnst gott að geta litið yfir farinn
veg og séð hvað ég hef verið lán-
söm að hafa valið hjúkrunarstarfið.
Ég hef aldrei séð eftir að hafa sest
að hér á Akranesi og hugsað um
þau forréttindi að hafa alltaf get-
að farið gangandi eða hjólandi til
vinnu. Vinnan hefur alltaf verið
full af áskorunum, en ég man ekki
eftir degi þar sem ég hef ekki farið
glöð til vinnu.
Kristjana Kristjánsdóttir
Kristjana Kristjánsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur.
„Ég man ekki eftir degi þar sem ég
hef ekki farið glöð til vinnu“