Hugur og hönd

Issue

Hugur og hönd - 01.06.1988, Page 45

Hugur og hönd - 01.06.1988, Page 45
Neyðarástand! Hver er framtíð íslensks heimilisiðnaðar? Eins og — væntanlega — öllum landslýð er kunnugt, er til í landinu sauðfé sem að stofni til er hið sama og landnámsmenn höfðu með sér. Ull þessa fjárstofns er sérstœð. Hún er blanda af löngu, glans- andi toghári sem er mjög slitsterkt og fínu, glansandi, mjúku þelhári. Þelið er hrokkið og hárin liggja ekki samhliða, eins og í ull á ræktuðum erlendum stofn- um. Þess vegna hefur hún mjög mikið einangrunargildi. Það er ekki þjóðsaga að íslenska ullin sé hlýrri en önnur. Óvenjulegt fjaðurmagn íslensku ullar- innar gefur henni einnig sérstætt gildi. í orðsins fyllstu merkingu hélt íslensk ull lífinu í þjóðinni meðan hún bjó í óupphituðum torfbæjum. Þess þarf hún sem betur fer ekki lengur, en sauðfé er enn uppistaða margra býla í landinu og er talið að á þessu hausti (1988) verði sett á um 550—600 þúsund fjár. Hagnýt ræktun á íslensku sauðfé hefur verið og er enn nær eingöngu miðuð við kjöt- framleiðslu. En það falla til u.þ.b. 2 kg af ull af hverri skepnu sem myndi verða samtals um ein milljón kg við næsta rún- ing. Hvað verður um alla þessa ull? Stærstum hluta mun blandað saman við innflutta ull í vélprjónaband, hluti er fluttur út óunninn. Á þessari öld hafa starfað í landinu þrjár stórar spunaverksmiðjur sem í fyrstu unnu eingöngu band og lopa úr ís- lenskri ull. Ullarverksmiðjan Framtíðin var lögð niður fýrir allmörgum árum. I des. 1987 voru ullarverksmiðjurnar Gefjun og Álafoss sameinaðar og skiptu þannig með sér verkum að öll bandfram- leiðsla fer nú fram hjá Álafossi, var sam- tímis lögð niður hjá Gefjuni. Þar féll síð- asta vígi íslenskrar ullar og þeirra sem kjósa að vinna úr henni. Gefjun fram- leiddi lopa og loðband úr hreinni ís- lenskri ull sem nær eingöngu var notað við heimilis- og listiðnað. Hjá Álafossi er framleidd ein tegund af grófum lopa úr hreinni íslenskri ull undir fram- leiðsluheitinu ,,Natur“ og auk þess sér- stakt vélprjónaband. Það er því ekki um auðugan garð að gresja. Islenskur heimilisiðnaður hefur byggt tilveru sína, fram til þessa, á framleiðslu úr íslenskri ull. Þessi ráðstöfun ,,ullar- ráðherranna," að hætta allri bandfram- leiðslu, er því raunverulega dauðadómur yfir heimilisiðnaði í landinu. Ekki held ég að sá dómur sé felldur vísvitandi og vil ekki trúa öðru en fá megi einhverja úrlausn. Eins og áður er nefnt falla til, samhliða kjötframleiðslunni, um milljón kg af ull. Metnaður fjárbænda gagnvart ullinni er afar lítill, svo að ullin flokkast mjög illa. Þó munu um 10% af henni lenda í úrvals- flokki. Skyldi ekki vera til ráð að nýta, þó ekki væri nema hluta af þeim 100 þús- und kg, til að vinna úr gott band fyrir ís- lenskan handiðnað? Ullariðnaður í landinu hefur síðustu áratugi verið byggður á stóriðnaði til út- flutnings. Handiðnaður, sem aldrei getur orðið annað en smáiðnaður, á litla sem enga samleið með stóriðju né þeim tröllslegu vélum sem til hennar þarf. Fyrir örfáum árum var keypt að Álafossi lítil tóvinnuvél ætluð til tilrauna. Fátt veit ég um verkefni hennar til þessa en hygg samt að íslenskri ull hafi ekki enn verið gerð þar skil. Þó er það þessi vél sem allt traust okkar er nú byggt á, að nota megi hana til að bæta úr brýnustu þörf. Birgðir Gefjunar þverra óðum. Framtíðarverkefni spunavélarinnar ætti, að mati flestra sem að þessum málum hyggja, að beinast að því að ná fram bestu eiginleikum íslensku ullarinnar í úrvalsbandi. Slíkt band mætti, án efa, nota til framleiðslu, m.a. á dýrum list- iðnaði sem renndi styrkum stoðum undir ágæti íslenskrar ullar og efldi ímynd hennar í huga þjóðarinnar og hins er- lenda kaupanda útflutningsvörunnar. Ef þetta mætti takast tel ég að íslenskum heimilisiðnaði væri jafnframt borgið. En hvert liggur leiðin að því marki? Tilraunastarfsemi af þessu tagi verður vart rekin nema fyrir opinbert fé, á því þarf að vekja skilning á réttum vígstöðv- um. Urvalsband verður ekki til úr öðru en úrvalshráefni og það fæst ekki nema fjárbændur leggi meiri metnað í ullaraf- urðir sínar. I því sambandi vildi ég mega beina orðum mínum sérstaklega til bændakvenna. Beitið þið ykkur fyrir betri meðferð á ullinni og gangið eftir sanngjörnu mati. Með því rennið þið stoðum undir endurnýjaða framleiðslu á bandi úr íslenskri ull sem bændakonur hafa einnig þörf fyrir, ekki síst þær mörgu sem nú leita sér að verkefnum á sviði heimilisiðnaðar eða smáiðnaðar. Hlýtur ekki íslensk ull að verða megin- uppistaða í slíkum iðnaði og hvað er eðli- legra en nýta eigin afurðir? Aðrir sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli og unnið gætu, e.t.v. sameig- inlega, að framgangi þess eru t.d. handavinnukennarar, vefnaðarkennarar, textíllistakonur, framleiðendur hand- prjónavöru og margir fleiri. Þann hóp vildi ég mega hvetja, jafnvel skora á, að taka nú höndum saman um að ýta á að vönduð og fjölbreytt bandframleiðsla úr íslenskri ull verði tekin upp að nýju, áður en í meira óefni er komið. Þar við liggur framtíð íslensks heimilisiðnaðar. Sigríður Halldórsdóttir Ljósmynd: Rafn Hafnfjörð. HUGUR OG HÖND 45

x

Hugur og hönd

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Link to this issue: 1. tölublað (01.06.1988)
https://timarit.is/issue/406978

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.

1. tölublað (01.06.1988)

Actions: