Bændablaðið - 06.07.2017, Page 14

Bændablaðið - 06.07.2017, Page 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2017 Björgvin Jóhannesson stýrir Hótel Kötlu, rétt austan Víkur í Mýrdal. Hann var á dögunum kjörinn formaður Félags ferðaþjónustubænda. Hann telur að ferðaþjónustan á Íslandi sé á réttri leið en vaxtarverkir hafi verið óhjákvæmilegir í því að fylgja eftir þeirri miklu aukningu ferðamanna sem komið hafa til landsins á síðustu tveimur árum. Björgvin segir að eitt af verkefnum ferðaþjónustunnar í landinu og Félags ferðaþjónustubænda sé að koma ferðamönnunum meira út á land – í sveitirnar. „Ég held að ferðaþjónustan á Íslandi sé á réttri leið í flestum málum en vissulega fylgja ákveðnir vaxtarverkir þessari miklu fjölgun ferðamanna undanfarin ár. Vinsælustu staðirnir eru orðnir ansi þétt setnir á álagstímum og væri gaman að sjá einhverja betri stýringu þar, til að dreifa álaginu yfir daginn,“ segir hann. Nauðsynlegt að ríkið komi að stuðningi „Það ætti að vera mögulegt með góðu skipulagi og samvinnu rútufyrirtækjanna. Eins þyrftu sveitarfélög í samvinnu við ferðaþjónustuaðila á hverju svæði að vera sneggri til við að koma upp viðunandi salernisaðstöðu og tryggja gott aðgengi og stýringu að vinsælum stöðum svo náttúran láti ekki á sjá. Ég held að það sé nauðsynlegt að sveitarfélögin fái meira fjármagn frá ríkinu til uppbyggingar á vinsælum ferðamannastöðum, því eins og staðan er núna er útsvar starfsfólks og fasteignagjöld einu tekjurnar til að standa undir kostnaði. Ríkissjóður hefur gífurlegar tekjur af ferðaþjónustunni í dag, sem er frábært fyrir þjóðarbúið, en ég myndi vilja sjá stjórnvöld duglegri í að skila fjármagni til baka til greinarinnar til uppbyggingar,“ segir Björgvin um hvernig helst þurfi að bæta innviði íslenskrar ferðaþjónustu. Ferðaþjónustubændur hafa staðið sig vel En hvernig skyldu ferðaþjónustu- bændur hafa mætt þessari aukningu – margir hafa vafalaust þurft að fara í uppbyggingu? „Ferðaþjónustubændur hafa staðið sig mjög vel í að auka flóruna í afþreyingu úti á landi. Það er gaman að sjá hversu margir möguleikar eru nú í boði fyrir ferðamenn miðað við hvernig staðan var fyrir um tíu árum. Þetta á bæði við um gistingu, afþreyingu og veitingasölu. Margir ferðamenn eru sólgnir í að upplifa söguna og tengjast nærumhverfinu og þar koma ferðaþjónustubændur sterkir inn. Mikil eftirspurn er eftir afurðum beint frá býli og upplifun gestanna verður yfirleitt meiri og betri þegar eitthvað sem kallast „local“ er á boðstólum.“ Fjölbreytt afþreying í boði við Vík Björgvin er sem fyrr segir hótelstjóri á Hótel Kötlu, sem er í eigu foreldra hans. Hann hefur verið viðloðandi ferðaþjónustuna þar allt frá því að búskapur með sauðfé og hross var aflagður í kringum 1990 og rekstur bændagistingar hófst. Byrjað var að leigja út tvö til þrjú herbergi en nú telja þau 103 og starfa 40 manns á Hótel Kötlu yfir sumartímann. Vík er meðal vinsælustu áningarstaða ferðamanna á Íslandi og segir Björgvin að heimamenn hafi haldið ágætlega í við fjölgunina að undanförnu. „Já, mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína í Mýrdalinn og hefur uppbygging í ferðaþjónustu verið umtalsverð á síðustu árum. Reynisfjara og Dyrhólaey hafa mikið aðdráttarafl og fjölbreytt afþreying er hér í boði, til dæmis jeppaferðir, ísklifur, jöklagöngur, hestaleiga, svifvængjaflug og veiði. Þessi fjöldi ferðamanna hefur haft þau jákvæðu áhrif á samfélagið að hægt er að velja úr fjölda veitingastaða, afgreiðslutími verslana er rýmri og vöruúrval meira. Við viljum fá fleiri gesti í Mýrdalinn, en ekki endilega alla á sama tíma. Innleiðing Vakans leiðir til aukinnar fagmennsku Að sögn Björgvins eru spennandi tímar fram undan fyrir Félag ferðaþjónustubænda, sem telur um 180 félaga, og ýmis áhugaverð verkefni í pípunum. „Vakinn er til dæmis gæðakerfi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem verið er að innleiða. Ferðamálastofa hefur umsjón með verkefninu. Nokkur fyrirtæki eru þegar komin með vottun hjá Vakanum og enn fleiri í umsóknarferli. Ég held að það séu allir sammála um það að auka þurfi gæði og fagmennsku í ferðaþjónustu á Íslandi og Vakinn er klárlega verkfæri sem ferðaþjónustuaðilar geta nýtt sér til þess. Félag ferðaþjónustubænda stefnir á að fjölga meðlimum í Vakanum á næstu misserum. Ég held að Vakinn geti verið gott verkfæri til markaðssetningar en ég vildi samt sjá meiri aðgreiningu á milli þeirra sem eru meðlimir og þeirra sem kjósa að vera fyrir utan Vakann, til dæmis varðandi gjöld og starfsleyfi.“ Eitthvað virðist hafa hægt á fjölgun þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja Ísland, miðað við sama tíma í fyrra. Fleiri afbókanir eru nú, að sögn Björgvins, en áður og einnig hefur dregið úr sölu á ferðum og gistingu. „Þrátt fyrir þetta er útlitið ágætt núna. Aukningin undanfarin ár hefur verið óeðlilega hröð og þarf ekki að koma á óvart að aðeins dragi úr henni, en ég hef samt áhyggjur af því að þróun gengismála – styrking krónunnar – geti hægt enn meira á vextinum. Íslandsferð erlendra ferðamanna er í dag um 25–30 prósent dýrari en fyrir tveimur árum. Þetta leiðir til þess að fólk kaupir styttri ferðir og verslar minna. Ef að svo við bætist hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu um mitt næsta ár líst mér ekki á blikuna – sérstaklega fyrir dreifbýlið og aðila í Félagi ferðaþjónustubænda. Ég er nú þegar farinn að verða var við auknar afbókanir fyrir þetta sumar, eitthvað sem við höfum ekki upplifað síðastliðin ár. Ferðaþjónustan á Íslandi þarf því að aðlagast fljótt breyttu rekstrarumhverfi,“ segir Björgvin. /smh Ferðamenn sólgnir í upplifun á sögunni – Ferðaþjónustubændur hafa staðið sig vel í að auka afþreyingarmöguleikana Fjölbreytt dagskrá í boði á Hvanneyrarhátíð Hvanneyrarhátíðin verður haldin laugardaginn 8. júlí nk. frá kl. 13.30 til 17 á Hvanneyri í Borgarfirði. Þennan dag taka heimamenn vel á móti gestum og gangandi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Upphaf hátíðarinnar má rekja til Safnadagsins sem Landbúnaðarsafn Íslands tók þátt í, og bauð þá velunnurum sem og gömlum nemendum að koma á Hvanneyri og kíkja á safnið, sér að kostnaðarlausu og hitta gamla félaga og vini. Nú hefur Safnadagurinn verið færður fram í maí og Hvanneyrarhátíðin stendur nú sem sér viðburður sem hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og fjöldi gesta margfaldast á milli ára. Heyvagnaakstur og opið fjós Meðal dagskrárliða í ár eru heyvagnaakstur, opið fjós hjá Hvanneyrarbúinu, leiðsögn verður um Yndisgarða, markaður í gömlu íþróttahöllinni, leiðsögn um gömlu Hvanneyrartorfuna með Sveini Hallgrímssyni, tónlistaratriði, húsdýr verða á staðnum og ýmsir leikir verða í boði fyrir börnin. Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna mun einnig vera með sína árlegu landnámshænsnasýningu á hátíðinni. Þá mun matsala vera á vegum Kvenfélagsins 19. júní, Skemmunnar kaffihúss og Hvanneyri pub. Frítt á Lanbúnaðarsafnið Frír aðgangur verður að Land- búnaðar safni Íslands og ætla konurnar sem standa að Ullarselinu að leika listir sínar. Einn af vinsælustu viðburðunum er innkoma Fornbílafjelags Borgarfjarðar sem mun stilla bifreiðum sínum upp ungum sem öldnum til gamans ef veður leyfir. Tenging fyrrverandi nemenda Bændaskólans við Hvanneyri er sterk og hjá mörgum er það orðinn fastur liður að sækja Hvanneyrarhátíðina heim þar sem gamlir og góðir tímar eru rifjaðir upp. Formleg dagskrá hefst kl. 13.30 og lýkur henni kl. 17.00. Allar nánari upplýsingar um hátíðina og dagskrá má finna á Facebook-síðunni www. facebook.com/hvanneyrarhatid. Extreme Chill Festival í Reykjavík 6.–9. júlí Íslenska tónlistarhá- tíðin Extreme Chill Festival verður haldin í Reykjavík helgina 6.–9. júlí. Hátíðin mun eiga sér stað á sex mismunandi stöðum í miðborginni, í Húrra, Fríkirkjunni, Bíó Paradís, Mengi, Lucky Records & Miðgarður- Center Hotels. Extreme Chill Festival er fjögurra daga tónlistarveisla þar sem íslenskir og erlendir listamenn með ólíkan bakgrunn á öllum aldri mætast í sköpun sinni undir áhrif- um íslenskrar náttúru. Þetta verður leyndardómsfullt ferðalag um raf- ræna Reykjavík. Í ár kemur mikill fjöldi listamanna fram á hátíðinni sem verður með enn stærra sniði en áður. Heimsþekktir tónlistarmenn á við The Orb (UK), Mixmaster Morris (UK), Courtesy (DK), Christoper Chaplin (UK), Studnitzky (DE), mæta íslenskum tónlistarmönnum í hæsta gæðaflokki. Fremsta í flokki má nefna Jónas Sen, Jón Ólafsson & Futuregrapher, Gyða Valtýsdóttir, Stereo Hypnosis, Reptilicus, Tonik Ensemble, Mikael Lind, SiGRÚN, Poco Apollo (Halldór Eldjárn) ofl. Í tengslum við hátíðina í ár verður frumsýnd í Bíó Paradís heimildamyndin um The Orb „Lunar Orbit“ sem hefur unnið til fjölda verðlauna víða um heim: www. lunarorbitfilm.com Takmarkaðir miðar verða í boði í ár og kostar passinn á hátíðina aðeins 7.900 kr. Við hvetjum því fólk til að tryggja sér passa tímanlega en síðustu ár hefur selst upp og komust færri að en vildu. Passinn gildir líka á tónleika The Orb laugardaginn 8. júlí á Húrra. Viðburðir: 6. júlí - Lucky Records (passi gildir/Frítt inn) 6. júlí - Mengi (Miðasala við hurð, takmarkaðir miðar í boði) 7. júlí - Bíó Paradís - Lunar Orbit: The Orb Movie (passi gildir, miðasala við hurð) 7. júlí - Húrra (Tryggvagata 22) passi gildir, dagspassi eða miðasala við hurð. 8. júlí - Miðgarður - Center Hotels - Frítt Inn. 8. júlí - Húrra (Tryggvagata 22) passi gildir, dagspassi eða miðasala við hurð 9. júlí - Fríkirkjan, Reykjavík (passi gildir, dagspassi eða miða- sala við hurð. FRÉTTIR Björgvin Jóhannesson stýrir Hótel Kötlu rétt austan við Vík. Hann er nýkjörinn formaður Félags ferðaþjónustubænda. Mynd / smh

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.