Bændablaðið - 08.02.2018, Qupperneq 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
„Það er augljóst að hraða þarf
framkvæmdum eins fljótt og auðið er,
einfaldlega vegna þess að hinn stöðugi
straumur ferðamanna þarfnast þjónustu
sem staðurinn getur ekki sinnt nema að litlu
leyti við þær aðstæður sem nú eru,“ segir
Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í
Skálholti, vegna nýs vígslubiskupshúss sem
stendur til að byggja á staðnum.
Haldin var samkeppni um hönnun hússins
og var dómnefnd sammála um að mæla með
tillögu ASK arkitekta til frekari útfærslu.
Áhersluatriði keppnislýsingar voru: Innra
fyrirkomulag, aðlögun húss að nýrri starfsemi,
aðkoma og tengingar við nærliggjandi
umhverfi og mannvirki, samhljómur við
aðrar byggingar og umhverfi Skálholts og
hagkvæmni í byggingu og rekstri.
Þjónustuhús fyrir ferðamenn
Með breytingu á biskupshúsinu, frá því að
vera heimili og móttökurými vígslubiskups,
og aðstaða fyrir Skálholtsskórinn og
organistann, verður nýja húsið þjónustuhús
fyrir kirkjugesti og ferðamenn. Reiknað
er með að framkvæmdir við húsið hefjist í
byrjun sumars. „Ég er hvorki fagmaður né
spámaður og ætla ekki að geta mér til um
kostnað eða byggingalok,“ bætti Kristján
Valur við þegar hann var spurður út í kostnað
við framkvæmdina. /MHH
Biskupshúsið í Skálholti fær nýtt hlutverk
MÆLT AF
MUNNI FRAM
Á tímum misvirðingar karla á konum, þá er næsta víst að þær kenndir eru ekki nýtilkomnar. Í þingsal Alþingis
veitti Kristinn J. Magnússon því eftirtekt
að augu þingmanna mældu út þingkonu á
leið í ræðustól:
Gekk í salinn fljóðið frítt,
fljótt það Einar kenndi.
Ástartillit undur blítt
eftir frúnni sendi.
Brynjólfur í Þverárdal A-Húnavatnssýslu
var mikill höfðingi á sinni tíð. Eitt sinn
fylgdi hann úr hlaði góðum gestum sínum,
þar á meðal var Þorsteinn Erlingsson
skáld. Þorsteini þótti sérstakt af Brynjólfi
að gefa sér tíma frá heyönnum til að fylgja
gestum að þjóðbraut hjá Bólstaðarhlíð:
Að gera sér með gestum kátt
í glaumi og söng er hérna vandi,
og með þeim ríða um miðjan slátt.
Margt er skrítið á Norðurlandi.
Þó er það máske mest um vert,
sem mér var sýnt á þessum degi,
Bólstaðarhlíð af þjóðbraut þvert,
Þverárdalur á hvers manns vegi.
Karl Kristjánsson, alþingismaður á
Húsavík, var eitt sinn á ferð í áætlunarbíl
ásamt fjölda fólks:
Auðlegðin er eigi smá,
og ekki smiðurinn gleyminn
að láta sérstakt andlit á
alla, er koma í heiminn.
Til Karolínu Einarsdóttur magisters orti
Karl:
Þú átt flest í anda og æðum
einmitt það, sem töfrar mig.
Vildi ég á himinhæðum
hleypa Sleipni og reiða þig.
Karolína svaraði Karli:
Orðalaus er ástin mín,
örðum kvæðaglíma,
en hestinum mínum heim til þín
hleypi ég einhverntíma.
Karl sat veislu þingmanna sem haldin var í
London. Jón Pálmason frá Akri var meðal
þingmanna, og ljóðaði til Karls:
Enginn vafi er um það;
ungum burt frá hrundum
fíkjuviðar fýkur blað
fyrr en varir, stundum.
Karl svaraði að bragði:
Gerum enga yfirsjón,
er það fararkvöðin.
Horfðu á brosin hýru, Jón
heldur en fíkjublöðin.
Síðan héldu þeir félagar heim til Íslands. Í
flugvélinni orti Karl:
Þó um loftsins léttu svið
liðugt Faxi rynni,
hafð‘ann ekki að hálfu við
heimþrá minni og þinni.
Þegar þeir félagar lentu hér heima var það
fyrsta sem þeir heyrðu fréttnæmt, að einhver
hefði sprengt „hafmeyjuna“ af stalli sínum
í Reykjavíkurtjörn. Karl orti þá:
Ómynd býður eyðing heim,
-Auður brást með vörnina-
enginn hefur uppi á þeim
sem afmeyjaði Tjörnina.
Hjörleifur Jónsson á Gilsbakka fyllir svo
þennan þátt:
Þegar aðrir laga ljóð,
list og snilli finna,
yla ég mér við aringlóð
æskudrauma minna.
Sæti ég lagi, sigli af gát
sundin æ þótt bláni.
Oftast ræ ég einn á bát,
árarnar fæ að láni.
175
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
Skálholt er einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins, enda koma þar margar rútur á hverjum degi ársins með ferðamenn.
LÍF&STARF
Svona mun biskupshúsið í Skálholti líta út samkvæmt tillögu ASK arkitekta.
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra
hefur úthlutað alls 100 milljónum króna til
menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar
á starfssvæði Eyþings.
Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir
verkefnastyrki til menningarverkefna,
atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og
rekstrarstyrkja til menningarmála. Hann er
hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um
Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015–2019.
Uppbyggingarsjóði bárust samtals 133
umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar
og nýsköpunar og 82 til menningar.
Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita
85 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 100
milljónir króna. Samtals var sótt um rúmlega
271 milljón í sjóðinn að þessu sinni.
Meðal verkefna má nefna að Ágúst
Marinó Ágústsson hlaut eina milljón
króna til að vinna að spænisframleiðslu.
Búnaðarsamband S-Þingeyjarsýslu fékk
hálfa milljón vegna verkefnis sem nefnist
Matarauður Þingeyjarsýslu, Fræðasetur um
forystufé hlaut þrjá styrki, ríflega 2 milljónir
í allt, vegna þriggja verkefna, m.a. að koma
upp útilistaverki við setrið og annars verkefnis
sem ber nafnið Fjalla Bensi. Þá hlaut
Hafsteinn Hjálmarsson 750 þúsund krónur
til að setja upp kjötvinnslu á Gilsbakka,
Heimskautagerðið á Raufarhöfn fékk eina
milljón króna og Hjörleifur Hjartarson sömu
upphæð til að vinna að hljóðleiðsögn um
Dalvík.
Verksmiðjan á Hjalteyri fékk 4 milljónir
króna. Kvenfélagið Baugur í Grímsey hlaut
styrk til að vinna að atvinnuskapandi hönnun
í eynni. Vistorka hlaut tvo styrki, annan
vegna verkefnis sem heitir Jarðefnalaus
Hrísey og hitt vegna nýtingar á lífrænum
úrgangi. Skjálftasetrið á Kópaskeri hlaut
styrk og einnig Könnunarsetrið á Húsavík.
Þróunarverkefni vegna grænþörunga hlaut
sömuleiðis styrk og sjónvarpsstöðin N4 fékk
3,3 milljónir króna vegna verkefnis sem heitir
„Uppskrift að góðum degi“. /MÞÞ
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra:
100 milljónir í styrki vegna margvíslegra verkefna
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra hefur úthlutað alls 100 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði
Eyþings.