Bændablaðið - 08.02.2018, Page 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Ísland sótti formlega um að
Vatnajökulsþjóðgarður – og
hluti gosbeltis Íslands – verði
tekinn inn á heimsminjaskrá
Sameinuðu þjóðanna (UNESCO)
31. janúar síðastliðinn. Ísland
tilnefnir þannig svæðið og verður
umsóknin í kjölfarið tekin fyrir á
skrifstofu UNESCO í París.
Á heimsminjaskrá UNESCO eru
staðir sem teljast hafa gildi bæði
fyrir viðkomandi land, en einnig
allt mannkyn og geta staðirnir bæði
verið skráðir á menningarlegum
forsendum en einnig vegna
náttúrufræðilegs gildis. Ísland er
með tvo staði skráða nú þegar;
Þingvellir voru skráðir 2004 og
Surtsey 2008.
T i l n e f n i n g i n e r
unnin af starfsmönnum
Vatnajökulsþjóðgarðs og
vinir Vatnajökuls styrktu gerð
tilnefningarinnar, en verkstjórnin
var í höndum Snorra Baldurssonar
líffræðings.
„Forsenda þess að geta tilnefnt
svæði á heimsminjaskrá er að það
hafi áður verið sett á svokallaða
yfirlitsskrá (tentative list; sjá: www.
heimsminjar.is ) hjá viðkomandi
landi,“ segir Snorri. „Skaftafell
var lengi á yfirlitsskrá Íslands
og eftir að það sameinaðist
Vatnajökulsþjóðgarði þótti eðlilegt
að hann færi á listann – og það
varð raunin 2011. Í framhaldi
voru umræður um hvaða staður af
yfirlitsskránni yrði tekinn fyrir næst
á eftir víkingaminjum norrænna
landa, sem var reyndar umsókn sem
hlaut ekki brautargengi.
Það var svo í ráðherratíð
Sigrúnar Magnúsdóttur og ekki
síst fyrir áhuga stjórnarformanns
Vatnajökulsþjóðgarðs, Ármanns
Höskuldssonar eldfjallafræðings,
að ákveðið var að fara af stað
með forkönnun meðal þeirra átta
sveitarfélaga sem umlykja garðinn
um hvort þau mundu styðja slíka
tilnefningu.“
Umsóknarvinna hófst
í byrjun árs 2017
Snorri segir að undirbúningsvinna
hafi farið af stað vorið 2016.
„Þá var sett saman sértæk
verkefnisstjórn sem fór og
heimsótti viðkomandi sveitarfélög
og kynnti heimsminjasamninginn
og hvað í því fælist að staður færi
á heimsminjaskrá. Í framhaldi voru
viðkomandi sveitarfélög beðin að
staðfesta með bréfi hvort þau mundu
styðja umsókn á heimsminjaskrá og
það gerðu þau öll.
Í október 2016 ákvað svo
ríkisstjórn Íslands að láta til skarar
skríða; verkefnisstjórn var stofnuð
í desember 2016. Verkefnisstjórnin
fól Vatnajökulsþjóðgarði gerð
tilnefningarinnar og mér verk- og
ritstjórn. Eiginleg vinna við gerð
tilnefningarskýrslunnar hófst svo í
janúar 2017,“ segir Snorri.
Magnað samspil elds og íss
Vatnajökull og gosbeltið er
margbrotið að sögn Snorra og
því eru erindi hans inn á skrána
nokkur. „Það sem við lögðum
áherslu á í umsókninni er hið
magnaða samspil elds og íss, sem
ekki á sinn líka annars staðar á
Jörðinni. Áköf eldvirkni stafar
af samspili virks úthafshryggjar
(Mið-Atlantshafshryggjarins) sem
rís úr sæ við Reykjanes og gengur
eftir landinu öllu þar til hann
steypir sér aftur í Öxarfjörð. Mið-
Atlantshafshryggurinn markar skil
milli jarðskorpufleka sem rekur
um 19 millimetra í sundur á ári.
Ástæða þess að hryggurinn rekur
kryppuna upp úr sjónum hér við land
er að undir landinu er svokallaður
möttulstrókur, möttulefni sem
stígur upp til yfirborðsins og ýtir
hryggnum upp á yfirborðið. Ofan
á þessu situr svo stærsti hveljökull
Evrópu. En það eru ekki síður
birtingarmyndir þessa samspils
í formi stapa, móbergshryggja
(sem hafa orðið til undir jökli við
gos úr einum gíg eða gígaröðum),
jökulhlaup, stórir jökulsandar, virk
árgljúfur, stöðuvötn og háhitasvæði
undir jökli – allt fyrirbæri sem finnast
ekki eða þá einungis í skötulíki á
heimsminjaskrá.
Það eru að vísu til mörg stór
eldfjöll með jökulís eða sífrera á
toppnum, en aðeins á Íslandi og
á Suðurskautslandinu finnast virk
eldfjöll undir stórum jökulbreiðum og
á Íslandi er eldvirknin mun ákafari og
aðgengilegri en á Suðurskautslandinu
og birtingarmyndirnar sýnilegri.
Þá er íslensk eldvirkni um
margt sérstæð, hér gýs stórum
hraungosum á löngum gossprungum
(samanber Lakagígaröðina), hér
myndast gríðarstór hraunflæmi og
hér finnast dyngjur eða hraunskildir
– allt saman einstakt. Þá hörfa hinir
fjölmörgu skriðjöklar Vatnajökuls
mjög hratt um þessar mundir og
skilja eftir sig fjölbreytt landform,
svo sem jökulgarða, jökullón,
jökulkembur, jökulker og fleira.
Skriðjöklar Vatnajökuls eru afar
aðgengilegir og sums staðar í 10
mínútna göngufæri frá þjóðvegi.
Segja má að allur suðurjaðar
Vatnajökuls sé lifandi kennslustofa
í landmótun.
Þetta var jarðfræðin sem við
leggjum höfuðáherslu á en margt er
líka einstakt í líffræðinni, til dæmis
landnám lífs við jaðra skriðjökla
og á jökulskerjum, barátta gróðurs
við eyðingaröflin eins og gosösku,
jökulhlaup, hraunflóð og svo
framvegis.
Þá má nefna að í sprungu-
sveimum gosbeltisins leynast
grunnvatnsmarflær, sem eru
einstakar lífverur og talið er að hafi
lifað af alla ísöldina í einangrun og
jafnvel alla tíð síðan Ísland skildist
frá löndunum fyrir austan og vestan
fyrir 15–20 milljónum ára,“ segir
Snorri.
Fyrst og fremst heiðurinn
Snorri segir að ávinningurinn
af skráningu sé fyrst og fremst
heiður fyrir landið. „Skráning
á heimsminjaskrá er æðsta
gæðavottun sem nokkru
náttúrusvæði eða menningarminjum
getur hlotnast.
Skráningunni fylgir aukinn
áhugi ferðamanna, auðveldari
markaðssetningu – sem ýmsum
finnst kannski óþarfi – og þess vegna
er skráning á heimsminjaskrá mjög
eftirsóknarverð fyrir sveitarfélög
og ferðaþjónustufyrirtæki.
Skráningunni fylgja ekki kvaðir
umfram þær sem er að finna
í núgildandi stjórnunar- og
verndaráætlun þjóðgarðsins, en
vissulega leggur hún auknar kröfur
á alla að vanda sig.“
Nú þegar tilnefningin hefur
verið afhent hefst að sögn Snorra
ferill sem byrjar á því að skrifstofa
samningsins skoðar umsóknina og
hvort öllum reglum hefur verið
fylgt.
Hún ákveður síðan hvort
umsóknin verður tekin strax fyrir
eða geymd til næsta árs, en það
helgast meðal annars af fjölda
annarra umsókna.
„Verði umsóknin tekin fyrir er
hún send til sérfræðinga hjá Alþjóða
náttúruverndarsjóðnum (IUCN) sem
rýnir skýrsluna og sendir fulltrúa
til landsins næsta sumar til að taka
svæðið út og ræða við stjórnvöld og
stofnanir sem að svæðinu standa.
IUCN skilar svo skýrslu til
heimsminjanefndarinnar, sem í
sitja fulltrúar 21 þjóðar, þar sem
mælt er með eða móti skráningu.
Heimsminjanefndin tekur svo
afstöðu í framhaldi af því, í fyrsta
lagi um mitt ár 2019,“ segir Snorri.
Umsóknin er mjög ítarleg, eða
alls 370 síður, og hana má skoða á
vefnum www.vjp.is. /smh
Íslands sækir um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna:
Einstakt svæði í jarðfræðilegu og líffræðilegu tilliti
– segir verkefnisstjóri umsóknarinnar
FRÉTTIR