Bændablaðið - 08.02.2018, Side 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Skógarafurðir ehf. í Fljótsdal í hraðri uppbyggingu:
Kaupa fyrsta sérsmíðaða timburflutningabíl
landsins ásamt fyrsta vínekrutraktornum
Fyrsti sérsmíðaði timbur-
flutninga bíllinn kom til landsins
fyrir skömmu. Það er fyrirtækið
Skógarafurðir ehf. í Fljótsdal sem
keypti ækið sem samanstendur af
bíl með hleðslupalli og krana og
sérsmíðuðum tengivagni.
Fyrirtækið RAG import –
export í Hafnarfirði aðstoðaði við
innflutninginn en Bjarki M. Jónsson
hjá Skógarafurðum segir að þetta æki
komi til með að auðvelda þeim mikið
að sækja hráefni til vinnslunnar.
Hann er af gerðinni Scania R 620
topliner árerð 2008. Var bíllinn sóttur
alla leið til Lapplands í Finnlandi.
Bíllinn er útbúinn fyrir XL timbur
pakka frá Alucar í Finnlandi með
2015 árg Palfinger Epsilon Q150L97
með krana með húsi. Þetta er nýjasta
línan af skógarkrana frá þeim.
Tengivagninn er 12 metra og 4
öxla finnskur beislisvagn að gerðinni
JYKI. Hann er einnig útbúinn frá
Alucar. Vagninn er hægt að lengja
og stytta um 4 metra og segir Bjarki
það mjög hentugt þegar snúa þarf
á þröngum skógarvegum. Einnig
til að hafa ekki vagninn lengri en
hann þarf að vera miða við lengd á
trjábolunum. Hægt er að setja tvö 3
metra bunkt á bílinn eða eitt 6 metra
og á vagninn er einnig hægt að setja
3 bunkt að 4 metra bolum.
Hleðslumetið á þessum
bíl var sjö mínútur
Bíllinn er eins og fyrrr segir með
krana með húsi aftan við pall og
situr kranastjórinn það hátt að hann
sér vel yfir hleðsluvagninn þegar
hlaðið er á bílinn. Bjarki segir að
mun ódýrara og fljótlegra verði að
hlaða timbri á vagninn en hingað til
hefur þekkst við timburflutninga úr
íslenskum skógum. Það sem menn
hafi áður verið að gera við hleðslu
á vagna á einhverjum klukkutímum
með krana og bíl, taki þennan bíl vel
innan við hálftíma.
„Timburflutningabílar af þessu
tagi eru stöðugt að verða fljótvirkari.
Met fyrri eiganda við að hlaða á
þennan bíl við fjögurra metra efni
var sjö mínútur.“
Þennan bíl kaupi ég bara til að
þjónusta mig og sækja efni fyrir
þetta fyrirtæki. Hingað til hefur
heimflutningurinn verið svo dýr og
kostað kannski 500 þúsund á hvern
bílfarm. Af því er um 100 til 150
þúsund króna kostnaður við að lesta
bílinn. Það er peningur sem ég er
ekki tilbúinn að borga og losna við
með þessum nýja bíl.“
Fyrsti vínekrutraktórinn
Auk þessa bíls keyptu Skógarafurðir
líka fyrstu sérhæfðu vínekrudráttarvél
landsins. Segir Bjarki að sú
vél, sem er ítölsk og af gerðinni
Valpadana, sé sérhæfð til að vinna
í miklum hliðarhalla sem henti vel
í skógræktarvinnunni. Aftan í hann
er svo hengdur timburvagn til að
sækja timbur í eldiviðarframleiðslu
fyrirtækisins. Samtals eru þetta
fjárfestingar upp á um 20 milljónir
króna.
„Við erum oft að skrönglast
einhverjar erfiðar leiðir og þá höfum
við verið að berjast við að finna tæki
sem tylldi á hjólunum. Það er nú
leyst með þessu tæki,“ segir Bjarki.
Þennan traktor ætlum við líka að nota
við öðruvísi jólatrjáaakur. Þar ætla ég
að nýta tún og breyta því jólatrjáaakur
líkt og gert er á vínekrunum. Ég
tek þá bara grasþökurenninga sem
plantað verður í og á milli þeirra
verður bil sem traktorinn kemst um
og verður það svo slegið reglulega.
Fyrirtækið byggist hratt upp
Bjarki segir að Skógarafurðir hafi
verið að byggjast upp mjög hratt á
skömmum tíma.
„Við erum að vinna timbur úr
bændaskógum hér á svæðinu og svo
úr mínum skógi. Svo erum við að fara
að fá ösp frá Sandlæk á Suðurlandi.
Eins erum við að reyna að fá greni
úr Skorradal til vinnslu. Við erum
þannig svolítið að færa út kvíarnar
með að þjónusta landið.“
Bjarki segir að um sé að
ræða grisjunarvið úr íslenskum
skógum. Hingað til hafi megnið
af honum farið til brennslu í
málmblendiverksmiðjunni í
Hvalfirði, en nú sé Skógarafurðir
farið að framleiða úr viðnum timbur
fyrir byggingariðnaðinn.
„Þetta er eina einkarekna
sögunarmylla landsins og þjónustar
skógarbændur á landsvísu. Við erum
mest að framleiða panel, parket,
pallaefni, utanhússklæðningar og
eldivið. Hér eru þrír þurrkarar og
þar af landsins stærsti þurrkari sem
ég nota m.a. til að þurrka eldivið.
Við erum að senda frá okkur einn
til tvo bíla af eldiviði á mánuði fyrir
pitsuhúsin. Eldiviðarframleiðslan
er okkar fasti punktur og brúar
reglulegan fastakostnað hjá
fyrirtækinu. Önnur verkefni taka
mislangan tíma og tekjur af því skila
sér hægar.“
Bjarki segir að mikill kostnaður
liggi í að koma á fót svona fyrirtæki
og efniskostnaður við að byggja
upp lager sé mikill. Þá taki þetta
allt langan tíma. Hráefniskostnaður
af einum bílfarmi geti verið um ein
milljón og síðan taki tíma að þurrka
og vinna efnið.
„Þar að auki er maður í bullandi
samkeppni við ríkið, en við settum
okkur þó strax það markmið að
sérhæfa okkar á öðrum sviðum en
Skógræktin er að gera.“
Bjarki segir að markaðssetning á
fyrirtækinu hafi gengið með ágætum.
Sem stendur hafi þeir ekki haft undan
að framleiða nema í sérpantanir fyrir
utan eldivið.
„Við erum að taka það skref að
fara að framleiða á lager staðlaðar
stærðir af smíðavið. Í því augnamiði
vorum við að biðja Skógræktina um
þúsund rúmmetra af greni á ári.“
Öfugsnúin þróun
Bjarki segir líka mjög öfugsnúið að
ríkið skuli enga áherslu hafa lagt
á skógrækt til kolefnisjöfnunar.
Samt horfi menn fram á það á sama
tíma að ríkið muni þurfa að greiða
11 milljarða í sekt til útlanda fyrir
kolefnisútblástur á ári frá 2020. /HKr.
Nýi timburflutningabíllinn er Scania R 620 topliner Palfinger Epsilon Q150L97 með krana með húsi aftan
á hleðslupalli sem hleður jöfnum höndum á bíl og tengivagn.
Valpadana er sérhæfð vínekrudráttarvél sem nýtist vel við skógarvinnsluna
þegar glíma þarf við mikinn hliðarhalla.
SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA
S: 5272600 - www.velavit.is
Varahlutir - Viðgerðir
Vélavit
Sala Þjónusta
Startarar og Alternatorar
í flestar gerðir véla og tækja