Bændablaðið - 08.02.2018, Page 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Í Fagradal var búið eingöngu
með sauðfé þangað til skerðingar
í sauðfjárframleiðslu neyddu
bændurna til að finna upp á
einhverju nýju til að geta lifað af
búskapnum.
Árið 1991 fengum við fyrstu
fiskakerin og seiðin og stofnuðum
Fagradalsbleikju ehf. og síðan
breyttum við gömlum súrheysturn í
fiskvinnslu og reykhús. Þessi vinnsla
var mjög smá til að byrja með en með
auknum ferðamönnum jókst áhuginn
á þessum vörum og þar með hefur
vinnslan aukist.
Býli: Fagridalur.
Staðsett í sveit: Mýrdalshreppi.
Ábúendur: Jónas Erlendsson og
Ragnhildur Jónsdóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra):
Jónas, Sævar Jónasson og Ragna,
hundarnir Fókus, Ninja, Donna og
Yrja, kettirnir Prins og Tommi – auk
þess eru 10 hænur og tveir hanar á
bænum.
Stærð jarðar? 1.000 ha.
Gerð bús? Sauðfé og bleikjueldi
(Fagradalsbleikja ehf.), jafnframt
rekum við fiskvinnslu og reykhús.
Fjöldi búfjár og tegundir? 309
kindur og um 60.000 bleikjur (þrír
árgangar).
Hvernig gengur hefðbundinn
vinnudagur fyrir sig á bænum?
Vinnudagurinn fer mikið eftir
árstíma, en föst verk eru að gefa
fiskum að borða á morgnana, allt
árið, og kindum á veturna, þá er alltaf
litið í húsin á kvöldin og gefin ábót
ef þarf og gáð hvort nokkuð sé að.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu
bústörfin? Skemmtilegast er að
heimta kindurnar heilar heim á
haustin, leiðinlegast að taka út
grindaskít.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir
ykkur á jörðinni eftir fimm ár?
Eftir fimm ár verður hann vonandi í
svipuðu horfi og hann er núna.
Hvaða skoðun hafið þið á
félagsmálum bænda? Það er
ýmislegt sem þarf að laga. Til dæmis
er alltof mikil áhersla lögð á að fækka
og stækka sauðfjárbú í núverandi
kerfi. Allir styrkir og greiðslur miðast
við fjölda, ef sveitirnar eiga að þrífast
áfram má bændum ekki fækka mikið
og þá er það fjölbreytileikinn sem
skiptir máli ekki stærðin.
Hvernig mun íslenskum
landbúnaði vegna í framtíðinni?
Vonandi vel ef tekst að lagfæra
verðmyndun á sauðfjárafurðum.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin
séu í útflutningi íslenskra búvara?
Eina vitið í útflutningi er að finna
markaði sem vilja borga gott
verð, magnið getur aldrei orðið
það mikið að annar útflutningur
sé réttlætanlegur. En alltaf verður
innanlandsmarkaður okkar besti
markaður.
Hvað er alltaf til í ísskápnum?
Mjólk, egg, skyr, smjör og að
sjálfsögðu reykt Fagradalsbleikja.
Hver er vinsælasti maturinn
á heimilinu? Lambakjöt, nýtt,
steikt, saltað og reykt og saltaður
fýlsungi.
Eftirminnilegasta atvikið við
bústörfin? Mjög eftirminnilegt
var þegar við byggðum nýtt fjárhús
2006 við hliðina á eldra fjárhúsi
og tókum það í notkun, það var
ótrúlegur vinnusparnaður þegar allt
féð var komið á einn stað.
Fylltar flatbökur og grænmetissamlokur
Hér sýnir Bjarni Gunnar okkur
nokkrar hugmyndir að fylltum
flatbökum, eða hálfmánum, en þær
heita calzone á upprunamálinu,
ítölsku, sem þýðir hosa.
Fylltar flatbökur
Fyrir tvær stórar pitsur eða tvo
hálfmána.
› 500 g af brauðhveiti
› 260 g af vatni við 20 gráður
› 100 g af fljótandi súrdeigi (hægt að fá
súrdeigs-móður hjá vini eða í bakaríi)
› 3 g af þurrger (5 g ef ekki er notað
súrdeig)
› 10 g salt
› 15 g sykur
› 30 g af ólífuolíu
Myndið deigbolta, setjið rakan
klút yfir deigið. Látið hefast í tvær
klukkustundir við stofuhita. Gott að
slá deigið einu sinni niður.
Dreifið svolitlu hveiti á borðplötuna.
Skiptið deiginu í tvo hluta (um 460
g í hvorum hluta) og rúllið út með
höndum eða með kökukefli.
Gott er að setja pitsuna á smjörpappír
til að auðveldara sé að færa á heita
bökunarplötuna. Látið hefast í
klukkustund.
Fyllið til dæmis með osti, aspas og
hráskinku eða humri.
Hitið ofninn í 250 gráður (hæstu
stillingu). Rétt áður en ofnhurðinni
er lokað, er 5 ml af vatni sett á
hitaplötuna. Bakið svo í fjórar
mínútur, en lækkið þá hitastigið niður
í 220 gráður og haldið áfram að baka,
þar til pitsan (hálfmáninn) er stökk
og falleg.
Osta- og aspasfyllt calzone
› 400 g grófhakkaðir San Marzano
tómatar í dós
› 1 búnt aspas
› 2 stórar kúlur ferskur mozzarella, rifinn
niður með höndum
› 50 g parmesan ostur, fínt rifinn eða
annar góður ostur eins og Ísbúi eða
Tindur
Humarfyllt calzone
› 3 msk. ólífuolía með vel af hvítlauk og
hvítlaukssalti
› 4–5 stór basilikublöð
› 1 stk. chili, fínt skorið
› 100 g lítill humar, kjöt fjarlægt úr
skelinni og saxað fínt
› 1 msk. mangó chilli sósa
› salt og ferskur jörð svart pipar
Útflatt pitsudeigið er lagt á
smjörpappír.
Dreifið helmingi af mozzarella og
restina af hinum ostinum. Dreifðu
chili yfir og svo helminginn af
hvítlauksolíunni.
Setjið að lokum nokkur basilikublöð
og kryddið með salti og svörtum
pipar.
Flytjið yfir í ofninn, setjið pitsuna
á upphitaðan pitsubakka eða stein
og eldið í fimm til átta mínútur, eða
þar til eldað í gegn og kúla hefur
myndast (gott er líka að hita upp
pönnu eða þykkan pott svo komi
góð skel undir pitsuna).
Fyrir calzone:
Lokið deiginu svo hálfmáni
myndist, með humar og ost á milli.
Hellið restina af hvítlauksolíunni
yfir ásamt salti og svörtum pipar.
Klemmið brúnirnar saman og
settu á upphitaða pitsasteininn eða
bakkann.
Eldið í 5–10 mínútur þangað til
áferðin verður gullbrún og stökk.
Berið strax fram með mango-chili
sósu eða góðu kryddmajónesi og
smá basiliku ofan á sem skraut.
Grænmetis- eða
kjúklingasamloka
Oumph!-loka
Nú geta grænmetisætur glaðst
því verslanir eru farnar að bjóða
upp á grænmetisafurð frá Svíþjóð
sem heitir því skemmtilega nafni
Oumph! Bragðið af Oumph! minnir
á kjötbragð og því má nota það til
að líkja eftir steikarsamlokum og
hamborgurum og nota tómata, súrar
gúrkur og ferskt salat með. Hægt er
að bæta kjúklingi eða Oumph! saman
við grænmetisrétt og þú ert kominn
með rétt sem er hollur og gómsætur
– og fljótlegt að laga.
› 1 poki kryddað Oumph!
› 4 stykki af góðu hamborgarabrauði
(hægt að fá glúteinlaust eða gróft
brauð)
› 1 poki af salatblöndu (eða gerðu þína
eigin með kryddjurtum)
› 1 rauðlaukur
› Nokkrar sneiðar súrar gúrkur
› 1 dl vegan majónes / eggjalaust
› 1 matskeið dijon sinnep
› 1 msk. sæt chilli sósa
› ½ stykki af gulrót fínt rifin
› 1 sítrónusafi
› 1 tsk. karrí
› 1 matskeið steiktur laukur
› salt
Rífðu gulrót og skerðu súrar
gúrkur í litla bita. Blandið öllum
innihaldsefnum í sósuna og kryddið
með salti.
Settu Oumph! á heita pönnu, en
gættu þess að hún sé ekki of heit.
Gott að bæta ögn BBQ sósu á
pönnuna. Smakkaðu til með salti,
ef þess þarf (það er líka hægt að nota
kjúklingalæri í stað Oumph!).
Skerið brauðið í sneiðar og ristið
brauðið í ofninum. Raðið Oumph!
ofan á og framreiðið með grænmeti
að eigin vali.
Bjarni Gunnar Kristinsson
Matreiðslumeistari
MATARKRÓKURINN
LÍF&LYST – BÆRINN OKKAR
Fagridalur
Jónas Erlendsson, Sævar Jónasson og Ragnhildur Jónsdóttir. Myndin er
tekin þegar Sævar var útskrifaður stærðfræðingur frá HR 2012.
Fjárhúsin í Fagradal.