Bændablaðið - 08.02.2018, Qupperneq 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 201850
LESENDABÁS
Þórdís Kolbrún Reykfjörð
Gylfadóttir ráðherra skrifaði
grein í Morgunblaðið fyrr á þess
ári. Þórdís lagði út frá eftirfarandi;
tveir menn standa og horfa báðir
á sömu töluna sem skrifuð hefur
verið í sandinn. Talann er 6 sagði
annar, en hinn sagði töluna vera 9.
Þessi skrif iðnaðarráðherra komu
mér í hug við lestur fréttaskýringar
um fjármögnun vegaframkvæmda,
eftir ritstjóra Bændablaðsins í
síðasta tölublaði þess. Grunnur að
skrifum hans er það viðhorf margra,
svo sem Félag íslenskra bifreiðra
eigenda, þess efnis að skatttekjum
af umferð og ökjutækjum sé ekki
ráðstafað til vegamála. Þessi nálgun
er í grundvallaratriðum villandi,
ef hún er skoðuð í samhengi við
framkvæmd laga um opinber
fjármál.
Þótt ég hafi þá reynslu að lítið þýði
að reyna að leiðrétta þessa meinloku,
geri ég samt hér litla tilraun. Ég
er að reyna að horfa á sömu tölur
frá annarri hlið. Þá þeirri hlið sem
ritstjórinn beinir orðum sínum að,
þeim sem höndla með skatttekjur
almennings, stjórnmálamenn, sem
er sú stétt sem ég tilheyri nú um
stundarsakir.
Hin hliðin
Veruleikinn er að þeir skattstofnar
sem helgaðir hafa verið til vegamála
hafa lengst af skilað sér til vegamála.
Eldsneytisgjöld og önnur gjöld af
umferð, eins og þungaskattar, hefur
verið varið til vegamála. Reyndar
hefur fjármunum umfram það verið
ráðstafað. Samkvæmt áralöngu
uppgjöri á þeim tekjustofnum,
sem með beinum hætti voru
merktir vegagerð og færðir til
Vegagerðarinnar, hefur verið
ráðstafað hærri fjárhæðum, með
fjárlögum. Samkvæmt því uppgjöri
„skuldar“ Vegagerðin ríkissjóði
ríflega 19 milljarða. Þetta er
auðvitað sérstök framsetning því
Alþingi með fjárlögum samþykkir
fjárheimildir til Vegagerðarinnar. Á
meðfylgjandi töflu er gerð tilraun
til að sýna hvernig þessi „skuld“
Vegagerðarinnar hefur þróast frá
árinu 2013 til ársloka 2017. Ætla
má að við upphaf þessa árs hafi
uppsafnaður halli farið yfir 20
milljarða. En uppgjör ársins liggur
ekki endanlega fyrir þegar þetta er
ritað.
2013 17,3
2014 17,3
2015 18,3
2016 19,3
Það er síðan önnur umræða
hvort það sé fullnægjandi og ekki
ætla ég annað en að taka undir með
ritstjóranum um að þessar fjárhæðir
þurfa að verða mun hærri. En þetta
er hið formlega uppgjör, eftir þeim
lögum sem um slíkt gilda og hafa
gilt. Uppgjörið segir að meiri
fjármunum hefur verið á fjárlögum
– umfram þær tekjur sem merktar
hafa verið vegagerð.
En varðandi aðrar tekjur sem
m.a. FÍB hefur viljað merkja til
vegamála er mjög langt seilst.
Að tína til tolla og vörugjöld af
ökutækjum og varahlutum og
merkja það til vegagerðar, hvað þá
virðisaukaskatt. Hér er um almenna
skattstofna að ræða. Ekki frekar en
við sérmerkjum almenna skattstofna
eins og vsk af ýmsum vörum til
einstakra málaflokka.
Ættum við kannski að setja allar
tekjur ríkissjóðs af sjónvarpstækjum
til kvikmyndagerðar? Með þessari
nálgun mætti þá allt eins spyrja hvort
tekjur af bílum og umferð eigi þá
að greiða fyrir kostnað af sem af
bílaumferð. Eins og fyrir löggæslu
á vegum og framvegis. Auðvitað
gerum við það ekki.
En við skulum þá orða þetta eins
og það er. Ökutæki og þeim tengd
starfsemi er hluti af tekjuöflun
ríkissjóðs. Þeir sem ræða um
að milljörðum sé stolið af þeim
tekjustofnum til annarra verkefna
ættu líka að bera fram tillögur um
hvar á þá að taka þá fjármuni til
baka. Hvort sem okkur líkar þessi
ráðstöfun eða ekki, þá er þetta
veruleikinn. Ættum við skera niður
í menntamálum, heilbrigðismálum?
Hvar eigum við skera niður til að
sækja þessa tugi milljarða? Ég deili
ekki um þörfina fyrir þessa fjármuni
í vegakerfið og tek undir þær. En
það er ekki þannig að þessum
fjármunum hafi verið skotið undan.
Þeir eru í notkun. Þeir bíða ekki á
bók. Það er alveg sama hvað margar
myndir af þyrlum eða öðrum þörfum
framkvæmdum við nefnum að hefði
mátt fara í – þeir fara í notkun í
almannaþágu.
Gagnrýni til gagns
Það er hins vegar málefnaleg
gagnrýni á hækkun kolefnisgjalda
og þá þráhyggju stjórnmálamanna
að leggja stöðugt á nýja skatta, í
fréttaskýringu blaðsins.
Sjálfum líkar mér ekki hækkun
kolefnisgjalda – en ber samt
ábyrgð á þeim með mínu atkvæði
á Alþingi. Fyrst og fremst þar
sem ég er hluti af þeim meirihluta
sem myndaður var. Í núverandi
meirihluta er stjórnmálaflokkur sem
talaði með mjög skýrum hætti fyrir
kolefnisgjöldum og vildi reyndar
ganga mun lengra. Með því að sá
flokkur leiðir núverandi meirihluta
er ekki óskiljanlegt en að stefnu hans
gæti.
Ég þekki vel hvaða áhrif þessi
gjöld hafa á fólk sem búsett er í
dreifbýli og hefur ekki annan kost
í samgöngum en að reka sterka bíla
og keyra tugi eða hundruð km til
að sækja almenna þjónustu. Það
er ekki veruleiki okkar sem búum
í sveitum landsins að geta keypt
rafmagnsbíla, með skattaívilnun, til
að sinna daglegum ferðum okkar um
langan veg. Í það minnsta ennþá.
Verkefnið er stórt
Lauslega má segja brýn
úrbótaverkefni í samgöngum sem
þegar er búið að leggja út að þurfi að
ráðast í – kosti ríflega 200 milljarða.
Þá er ég ekki með í þeirri tölu úrbætur
á þeim þúsunda km tengivega sem
íbúar dreifbýlis búa við. Þar liggja
ríflega 100 milljarðar til viðbótar.
Það er öllum ljóst að núverandi
fjármagn til vegamála dugar
hvergi. Það má öllum vera ljóst að
stórhækkun kolefnisgjalda breytir
litlu um loftslagsmál fyrir stóran
hluta landsmanna – annað en að
gera búsetu þessa fólks óbærilega
dýra. Það er flestum ljóst að með
fjölgandi bílum sem nota aðra
orkugjafa en bensín og olíur – verður
að endurskoða skattheimtu af þeim.
Ný og breytt skattlagning ökutækja
verður að verða sem fyrst og að því
er nú unnið.
Umræðan um vegtolla eða
veggjöld í því sambandi á
fullkomlega rétt á sér. Ef landsmenn
eiga ekki að bíða í tvær aldir í viðbót
eftir framförum þá þýðir ekki að slá
slíka umræðu af borðinu
Veggjöld eru staðreynd í okkar
samfélagi. Innheimtu þeirra lýkur
á þessu ári í Hvalfjarðargöngum.
Innheimta veggjalda mun verða í
nýjum Vaðlaheiðargöngum, innan
skamms. Innheimta notendagjalda er
hjá þeim sem nota ferjur sem hluta
af sínum samgöngumáta. Nefna má
hafnargjöld, eða gjöld á flugvöllum
til viðbótar.
Ég vildi hins vegar skýra frá
sjónarhóli stjórnmálamanns sem
hefur um skamma hríð starfað
við fjármál ríkissjóðs – hvernig
þau mál eru þar skilgreind og
unnin. Örugglega hef ég einhvern
tímann tekið undir slíka nálgun
sem ég gerði hér að umtalsefni –
hana virði ég. Í engu reyni ég að
hrekja þau viðhorf sem sett eru
fram í fréttaskýringu blaðsins um
mikilvægi uppbyggilegrar umræðu
um þetta mesta hagsmunamál sem
búa á landsbyggðinni – heldur get
tekið undir það flest.
En svona horfi ég á „silfrið“.
Haraldur Benediktsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Haraldur Benediktsson alþingis-
maður.
Á síðunni Skepticalscience.
com má lesa að ef við höldum
áfram að óbreyttu (business as
usual) í loftslagsmálum heimsins
er líklegt að meðalhitastig á
jörðinni hækki um 4°C fyrir
lok þessarar aldar. https://www.
skepticalscience.com/contary-
to-contrarians-ipcc-temp-
projections-accurate.html
Afleiðingarnar fyrir líf á jörðinni
ef meðalhitastig hækkar um 4°C
eru í stuttu máli ófyrirsjáanlegar
hamfarir og að stór hluti jarðarinnar
verður óbyggilegur. Útlitið er með
öðrum orðum mjög alvarlegt og
full ástæða til að staldra við og
horfast í augu við veruleikann.
Spurningin sem við öll eigum
að vera að ræða er: Hvað getum
við Íslendingar gert til að draga
úr losun gróðurhúsalofttegunda?
Ljóst er að taka verður málið
mjög föstum tökum og vinna
á öllum sviðum. Til að ná sem
mestum árangri er ágætt fyrsta
skref að skoða hvar mesta losunin
er og hvað getum við gert til að
draga úr henni eins fljótt og hægt
er. Í skýrslu Hagfræðistofnunar um
Ísland og loftslagsmál sem kom út
í febrúar 2017 kemur fram á bls.
138-139 að talið er að árið 2013
hafi um 11,7 milljónir tonna af
CO2 ígildum komið frá framræstu
votlendi eða 73% af um 16 milljón
tonna heildarlosunar Íslands. Því
er ekki hægt að tala um virkilegar
aðgerðir í loftslagsmálum fyrr
en farið verður í að endurheimta
votlendi með skipulegum hætti, en
það er viðurkennd aðferð af IPCC
(http://www.ipcc.ch/), til að draga
úr losun gróðurhúsalofttegunda af
mannavöldum.
Nýlega hafa verið settar
fram efasemdir um losun
gróðurhúsalofttegunda úr
framræstu votlendi sbr. hugleiðingar
Guðna Þorvaldssonar og Þorsteins
Guðmundssonar í Bændablaðinu
25. janúar 2018. Ég er ekki rétti
maðurinn til að draga í efa mat
okkar færustu vísindamanna við
Landbúnaðarháskólann sem hafa
rannsakað þetta í tugi ára og bera
ábyrgð á losunartölum úr framræstu
votlendi gagnvart IPCC. Það hefur
verið gert á öðrum vettvangi.
En ef við gefum okkur að
losunin sé stórlega ofmetin og sé
t.d. helmingi minni (sem engin
ástæða er til að halda) þ.e. ekki
11,7 milljónir tonna heldur 5,85
milljónir tonna, værum við samt
að tala um umtalsvert meiri losun
en allir hinir losunarþættirnir
til samans sem skv. skýrslu
Hagfræðistofnunar voru árið 2014
um 4.600 tonn.
Talið er að hér á landi sé í dag
aðeins verið að nýta u.þ.b. 15% af
framræstu landi til ræktunar. Vera
má að einhver skekkja sé í þeirri
tölu en hún er ekki veruleg. Ætla
má að megnið af því landi sem eftir
er, þ.e. 85%, megi endurheimta.
Nágrannaþjóðirnar okkar
eru að endurheimta votlendi í
stórum stíl. Skotar hafa t.d. í
nokkur ár unnið að stórfelldri
endurheimt votlendis til að minnka
losun gróðurhúsalofttegunda.
Í meðfylgjandi myndbandi er
sýnt frá endurheimtarverkefni
þar sem verið er að stöðva
losun gróðurhúsalofttegunda
um 400.000 milljón tonn af
CO2. https://www.youtube.com/
watch?v=XCXM1jqX3gI.
Finnar hafa unnið
myndarlega í mörg ár að því að
endurheimta votlendi og hafa
náð að stöðva gríðarlegt magn
af gróðurhúsalofttegundum. Sjá
má skýrslu um verkefnið hér:
http://ec.europa.eu/environment/
l ife/project/Projects/ index.
c f m ? f u s e a c t i o n = h o m e .
showFile&rep=file&fil=Boreal_
Peatland_Best_Practices.pdf
Það vekur furðu mína hversu
öfgakennd umræðan er um
endurheimt votlendis hjá sumum
aðilum. Aðilar sem í einu orðinu
tala um aðgerðir í loftslagsmálum
en í hinu orðinu tala þeir af
hæðni um endurheimt votlendis.
Neikvæð orðræða, óhróður, oft
undir yfirskini vísinda, hefur unnið
loftslagsmálum á Íslandi mikið
ógagn. Fullyrt er að óábyrgt sé að
fara út í endurheimt votlendis því
allar rannsóknir vanti. Reynt er
að upphefja skógrækt á kostnað
endurheimtar og etja saman fólki
sem á ekki að þurfa að velja á milli
þess að rækta skóg eða endurheimta
votlendi. Slíkur málflutningur
dæmir sig sjálfur.
Undirritaður er ásamt
fjölmörgum aðilum að vinna
að því að stofna Votlendissjóð
sem mun vinna að því að styðja
við og fjármagna aðgerðir til að
endurheimta votlendi á Íslandi.
Um er að ræða þjóðarátak í
nafni samfélagslegrar ábyrgðar
þar sem fólk og fyrirtæki leggja
fram fé (eða vinnu) sem verður
varið í að endurheimta votlendi.
Meðal aðila sem hafa tekið þátt
í undirbúningi verkefnisins
og munu leggja því lið eru
fagstofnanir eins og Landgræðsla
ríkisins, Landbúnaðarháskólinn,
Náttúrufræðistofnun Íslands,
Náttúrustofa Austurlands,
Náttúrustofa Vesturlands,
Fuglavernd, Rannsóknarsetur
Háskóla Íslands á Suðurlandi,
Landvernd, Vegagerðin, Efla
verkfræðistofa, Þekkingarmiðlun,
París 1,5, áhugahópur um
aðgerðir í loftslagsmálum,
PWC endurskoðendaskrifstofa,
Klappir, Fjarðabyggð og Auðlind
náttúrusjóður. Fleiri aðila mætti
nefna eins og sauðfjárbændur sem
hafa stigið fram fyrir skjöldu um að
vilja kolefnisjafna framleiðsluna.
Við erum síðasta kynslóðin á
þessari jörð sem getur enn komið
í veg fyrir miklar ógnanir við allt
líf á jörðinni ef okkur tekst ekki að
stöðva frekari hlýnun. Við verðum
því að grípa til aðgerða strax og
vinna saman. Annað er ekki í boði.
Eyþór Eðvarðsson
eythor@thekkingarmidlun.is
Einn af aðstandendum
Votlendissjóðsins
Hver lítur sínum augum á silfrið
Af tilefni umræðu um endurheimt votlendis