Víkurfréttir - 04.06.2020, Síða 17
Nauðsynlegt er að fólk geti sótt sér
menntun óháð bakgrunni eða efnahag
– sagði Kristján P. Ásmundsson, skólameistari, við útskrift á vorönn 2020
„Við aðstæður sem nú eru uppi, vaxandi atvinnuleysi sem er misskipt eftir
atvinnugreinum og landshlutum og hálflamað athafnalíf er brýnt að verja
auknu fé til menntunar eins og verið er að gera. Nauðsynlegt er að fólk geti
sótt sér menntun óháð bakgrunni eða efnahag. Öll misskipting er skaðleg
og getur leitt af sér fáfræði og skert lífsgæði. Við þurfum öflugt mennta-
kerfi sem skapar jöfn tækifæri fyrir ungt fólk og veitir því tækifæri til að
þroska hæfileika sína,“ sagði Kristján Pétur Ásmundsson, skólameistari Fjöl-
brautaskóla Suðurnesja, við útskrift á vorönn síðasta föstudag á sal FS.
Hér er ágrip úr ræðu skólameistara:
„Útskriftardagurinn er dagur gleð-
innar og stoltsins af farsælum verk-
lokum, dagur nýrra markmiða og
nýrra væntinga. Það að hafa náð tak-
marki sínu og klárað þessa áskorun
veitir ákveðna innri vellíðan. Öll
þekkjum við hversu gaman er að
sigrast á verðugri áskorun. Menn
fá oft auka orku þegar þeir sjá fyrir
endann á takmarkinu og innri gleðin
þegar markinu er náð er ólýsanleg
og ég vona að þið séuð að upplifa
það í dag.
Þessi síðasta önn hefur svo sannar-
lega verið eftirminnileg og reynt á.
Hún hófst á hefðbundinn hátt og fólk
gerði áætlanir hvernig ljúka mætti
prófum og ná þannig settu marki.
Í einu vetfangi var öllu umturnað
og nemendur sem ætluðu sér að vera
í hefðbundnu námi voru þess í stað
komnir í fjarkennslu og öll samskipti
við kennara orðin rafræn. Segja má
að fjórða iðnbyltingin, svo kallaða,
hafi skollið á fyrirvaralaust. Þessi
breyting gerði ríkar kröfur bæði til
kennara og nemenda. Nú þurfti að
meta þekkingu og þjálfa færni og
hæfni nemenda á annan hátt en áður.
Þetta hvatti kennara og nemendur
jafnframt til að prófa nýjungar og
vera skapandi í lausnum.
Skólahúsnæðið stóð að mestu tómt
en kennarar og nemendur sinntu
kennslu og námi að heiman. Í þessu
fólust samt ákveðin tækifæri. Þið
urðuð að tileinka ykkur ný vinnu-
brögð, treysta meira á eigin getu
og sýna meira sjálfstæði í vinnu-
brögðum til að sigrast á þessum
áskorunum.
Þið sem hér eru stóðust þessa
áskorun og eru að útskrifast. Því
er ekki að leyna að þið hafið farið
margs á mis á þessari síðustu önn
ykkar, ekkert skemmtikvöld, engin
dimmisjón svo þið fenguð ekki tæki-
færi til að kveðja samnemendur og
starfsmenn eins og venja er og þið
voruð búin að búa ykkur undir með
kaupum á búningum.
Kennsluhættir eru í stöðugri
þróun og skólastarfið hefur tekið
miklum breytingum undanfarin ár.
Við leggjum áherslu á að allir geta
lært og viljum skapa ólíkum hóp-
um tækifæri til náms. Meginatriðið
er að hjálpa hverjum og einum að
nýta hæfileika sína til hins ýtrasta
svo árangur náist. Þær aðstæður
sem sköpuðust á þessari önn urðu
til þess að kennarar þurftu að breyta
áherslum, tileinka sér ný vinnu-
brögð, nýja tækni og nýja siði til að
mæta breyttum aðstæðum og að
mínu mati tókst það vel.
Það er samheldinn og góður hópur
starfsmanna hér við skólann sem
hefur metnað fyrir hönd nemenda
og vilja til að sækja stöðugt fram.
Það er þessum góða starfsmanna-
hópi að þakka hvað skólinn er í dag.
Ég vil nota tækifærið og þakka
kennurum og öðru starfsfólki fyrir
þeirra góða starf og umburðar-
lyndi, því án samstillts átaks hefði
þetta ekki tekist. Því er samt ekki að
leyna að svona fjarkennsla hentar
ekki öllum og einhverjir nemendur
helltust úr lestinni.
Hverjar verða mögulega afleið-
ingar kórónuveiru faraldursins?
Það er ánægjulegt að stjórn-
völd séu að leggja aukið fjármagn
í menntun. Fjölbrautaskóli Suður-
nesja mun til að mynda bjóða upp á
sumarskóla sem stendur þeim opinn
sem vilja nýta sér það tækifæri til að
afla sér meiri menntunar, flýta fyrir
sér í námi og styrkja sig hvort heldur
er til frekara náms eða til að auka
getu sína og fjölhæfni í starfi.“
Smelltu á myndskeiðið til að horfa og hlusta
Fimmtudagur 4. júní 2020 // 23. tbl. // 41. árg.
VÍKurFrÉttir á SuÐurnESjum Í 40 ár // 17