Spássían - 2013, Page 20

Spássían - 2013, Page 20
20 undirtónninn sé ef til vill harmrænn, og úr hinu handskrifaða skjali má jafnvel lesa einhvers konar ómeðvitaða uppreisn og hefnd í garð umheims sem breytist án tillits til einstaklinga. Á hinn bóginn er óljóst hvort minningargreinin ratar nokkurn tíma á síður Morgunblaðsins. Og í Suðurglugganum dugar ekki að hverfa til enn eldri tækni og taka upp penna þegar ritvélin klikkar. Hann reynist engu betra tæki til að ná sambandi við sjálfið og stafirnir hverfa þar líka: Ég er alltaf að týna minnisbókunum sem ég krota í. Svo finn ég þær í vösum regnkápunnar, eða ofan í náttborðsskúffunni, en það einkennilega er að síður þeirra eru alltaf auðar þegar ég rekst á þær, þó mig minni endilega að ég hafi verið búinn að krota heilmikið í þær. Ég er með margar minnisbækur, eina í hanskahólfinu á bílnum, en ég gleymi oft pennanum þegar ég fer í bíltúr. Minnisbók án penna er einsog maður sem hefur verið hálshöggvinn, höfuðið oltið burt og sést hvergi (29). Í meðförum Gyrðis Elíassonar verður hin daufa og dofnandi skrift mun merkingarmeiri og táknrænni en í Íslendingablokk og helst í hendur við annað ferli í Suðurglugganum; árstíðaskipti og hvarf sögupersónunnar úr þessum heimi. Í fyrstu má eygja von um að vorið, árstíð upphafsins, verði frjósamur tími. Það verður þó fljótt ljóst að þessi upphafsárstíð lífsins felur þegar dauðann í sér og sögumaðurinn veltir því fyrir sér snemma hvort haustið sé ef til vill eina árstíðin á þessu landi (35). Þegar haustþokurnar leggjast af alvöru yfir situr sögumaðurinn „gráfölur við Olivetti-vélina, gráum lit slær á A-4 blöðin og stafirnir eru þokugráir“ (85). Um veturinn eru svo sögumaðurinn og stafirnir sem hann hamrar nánast horfnir í alhvítum veruleika, en í Suðurglugganum og Fjarverunni er hvíti liturinn jafnt einkenni dauðans og pappírsarkanna sem skrifað er á. „Blaðið í ritvélinni er jafnhvítt og snjórinn fyrir utan. Stafirnir rétt marka slóð í pappírinn“ (112), segir sögumaður Suðurgluggans og stuttu síðar: „Það er einsog öll náttúran sé orðin eitt óskrifað blað, og þegar ég geng út til að hvíla mig frá ritvélinni finnst mér einsog fótspor mín séu framandi letur sem skrifað er á þetta blað“ (114). SkiLABOð Að HANDAN The Enchanted Typewriter eða Andsetna ritvélin er smásagnasafn eftir Bandaríkjamanninn John Kendrick Bangs og kom út árið 1899. Í upphafi bókarinnar segir sögumaðurinn frá því hvernig sögurnar bárust honum gegnum gamla ritvél sem hann hafði fundið uppi á háalofti og gert upp. Hann segist vera heillaður af vélum og hafa gaman af því að „fíflast“ með ritvélina en fyrir alvarlegri verkefni, eins og að semja skáldskap, þarf hann penna. Og þessi ritvél er þeirrar náttúru að það sem hann reynir að skrifa á hana týnist milli takkanna og hamranna. Nótt eina gerist svo nokkuð furðulegt: ritvélin fer sjálf að hamra stafi á blað og þeyta úr sér hverri vélritaðri blaðsíðunni á eftir annarri. Í ljós kemur að látinn rithöfundur, Jim Boswell, er að nota ritvélina að handan til að skrifa fréttir úr Hadesarheimi. Sögumaðurinn sér strax tækifæri til að nýta sér ritsmíðarnar sem þannig berast, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af höfundarrétti og upplýsir lesendur um að afraksturinn hafi ratað einmitt í þessa bók.  Í Suðurglugganum verður ritvélin hins vegar ekki þessi tenging milli lifandi og dauðra og heldur ekki tenging hins lifandi dauða við sjálfan sig. Á endanum eru stafirnir orðnir dauðafölir og helst það í hendur við þá vaxandi tilfinningu lesandans að sögumaðurinn sé í raun alls ekki lifandi, heldur draugur sem hamrar örvæntingarfullt á ritvélina sína, án tengsla við sjálfan sig og undrandi á því að ekkert skili sér á blaðið. í DAuðATEYgJuNuM Prófarkalesarinn Ármann Valur, aðalpersónan í bók Braga Ólafssonar, Fjarverunni, og félagi hans, tónskáldið Markús Geirharður, eiga margt sameiginlegt með sögupersónunum í Suðurglugganum og Íslendingablokk. Þeir eru farnir að reskjast og allt frá upphafi bókar má finna vísbendingar um yfirvofandi feigð. Í Fjarverunni hrökkva reyndar ekki færri en sex karlar upp af og mannshvörf eru einnig áleitið þema. Til dæmis fyllir Geirfinnsmálið „út í eitt hólfið í huga Ármanns; og á eftir að gera, eins lengi og heili hans starfar“ (31). Á sínum tíma hleraði hann nefnilega af tilviljun mikilvægar upplýsingar „sem hefðu getað – og gætu enn – leitt til svars við spurningunni hvað varð um Geirfinn Einarsson“ (33). Þessar upplýsingar urðu að texta við lag sem Markús Geirharður samdi og kom út á plötu undir titlinum „Þögnuð slóð“, ásamt laginu „In articulo mortis“ sem þýtt er sem „Dauðastundin, eða Í dauðateygjunum“ - en segja má að flestir karlanna í

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.