Spássían - 2013, Side 43

Spássían - 2013, Side 43
43 Í SKuLDuNAuTuM, annarri ljóðabók Steinunnar G. Helgadóttur, er ferðast vítt og breitt; í tíma og rúmi, litið á víðara samhengi og inn í djúp hins persónulega. Ljóðabókin skiptist í fimm hluta og má í hverjum þeirra greina ákveðið þema, en ljóðin eru öll áþekk að forminu til. Í fyrsta hlutanum förum við í tímaferðalag og ferðumst um fortíðina, eftir að hafa verið búin undir þá ferð í fyrsta ljóðinu; þar „krýpur / forvörður / við ræturnar“ og „hanskaklæddur / fingur / gómur þreifar / reynir / að skilja“ (7). Í næsta ljóði ferðumst við til baka í tímann um „ormagöng / og sofandi / augu sjá // kolsvört höf / líflaus orðlaus“ (8). Áfram er haldið og við stöldrum m.a. við ónumið land, finnum frummanninn Ötzi „einn í ísnum / flís / úr tímalínu / frosin í brúnum / augum“ (13) og stöndum í fótsporum herstígvéla rómverskrar „harðstjóraspíru“ (14). Við förum hratt yfir sögu og fylgjum hundinum Laiku þar sem hún sveimar „ein / með milljón / stjörnum // en hundar / skilja ekki / fegurðina“ (17). Þær línur sýna vel hvernig knöpp notkun tungumálsins skilar mörgum áhrifamiklum svipmyndum í þessari ljóðabók. Steinunn býr yfir hæfileika til að fanga algjörlega andrúmsloft andartaksins í örfáum orðum, eins og í eftirfarandi línum: Frost við hliðið sót á ísnum exi heggur út dagana inn kyrrðina blaðið er það mýksta sem hefur snert hann (15) Steinunn notar ekki aðeins myndmál til að miðla tilfinningu andartaksins til lesandans, það er mikill rytmi í ljóðum hennar. Í ljóðlínunum hér að ofan verða miðlínurnar tvær eins og axarþytur, eins og taktur axarblaðsins upp og niður, eins og skörp taktbreyting sem stöðvar hraðan rytma lýsingarinnar á frosti, sóti, ís og exi og færir okkur hæga mýkt. Steinunn notar einnig endurtekningar á áhrifamikinn hátt til að koma undirliggjandi hrynjandi til skila, marka áherslur og magna upp tilfinningarnar sem ljóðmyndirnar vekja.  Í öðrum hluta Skuldunauta erum við komin í sólarlandaferð að hætti nútímafólks sem fer um í Boeing 787 og „millilendir ekki“ (23), en eins og í fyrri bók Steinunnar, Kafbátakórnum, eru það oft litlu andartökin, smáatriðin, sem segja stærstu söguna: Dropinn sem fellur Af glasinu Á borðið Er tær Og ég þerra hann Með erminni Þannig Eru viðfangsefni Þessa dags (28) Í þessum hluta bókarinnar kemur inn persónulegri tónn og hann verður enn sterkari í þriðja hlutanum, sem virðist, ef við höldum okkur við hugmyndina um ferðalög, lýsa ferð einhvers úr þessu lífi og tilfinningunni um fjarveru hans. Í fjórða hlutanum erum við komin á bólakaf í hið persónulega; hringurinn þrengist, umgjörðin er heimilið og hið heimilislega en tilfinningin er kæfandi og ógnandi: Svona er þetta í blíðu og stríðu hvíslar hann og þrengir enn hringinn um hana sem hann elskar svo heitt í ljósaskiptri stofu (48) Eina hreyfingin er inn á við og þar fara ævintýraminnin á stjá, eins og eftir pöntun frá Freud og félögum; Gullbrá vonar að litli björninn komi aftur en „vindubrúin er uppi / kerfið er á“ og aðeins óvættir á ferli fyrir utan harðlæst heimilið. Í síðasta ljóðinu í þessum hluta verður hins vegar breyting. Ógnin er enn til staðar en nú er ljóðmælandinn staddur fyrir utan heimilið, fyrst í sporum úlfsins og svo veiðimannsins. Þótt þeir séu báðir á „endalausum flótta“ (51) hvor frá öðrum, markar þessi tilfærsla áherslubreytinguna sem verður í síðasta hluta bókarinnar þar sem innilokunarkenndin víkur fyrir frelsistilfinningu og hið heimilislega gefur öryggi til að tengja sig við alheiminn: „Ég mála þakið / halla mér / að himninum / varanleg / vörn / í penslinum“ (61). Því ógnin er ávallt undir og allt um kring; ef til vill er annað syndaflóð í nánd og þá þarf að „leita / í veskinu / að annarri / lífvænlegri / plánetu“ (58).  Ljóðin í Skuldunautum standa sterk ein og sér og í sjálfu sér er engin ástæða til að reyna að lesa jafn mikið samhengi í þau og hér er gert. Freistist maður hins vegar til að leita sífellt að tengingum mætti lesa síðasta hluta bókarinnar sem svo að þar fléttist endanlega saman þeir þættir sem stefnt var saman í fyrri ljóðum bókarinnar, til dæmis gamla og nýja heimsmyndin: „Lengdargráður / breiddargráður / sviðsmynd / með gömlum himni / og jörð / úr bóseindum“ (25). Fortíð og nútíð mætast og vísa til framtíðar þar sem hið persónulega er samofið hinu stóra sögulega samhengi. Því í síðasta kaflanum eru hreyfing jarðar og hreyfing ljóðmælandans bókstaflega samtvinnaðar: ég reima á mig rauðu strigaskóna stekk yfir einn reit og möndull jarðar hallast enn (57) Steinunn minnir okkur þannig á að hvert spor okkar skiptir máli, og þar er kannski fólgin skýringin á titlinum Skuldunautar, sem vafðist lengi fyrir mér. Hvert og eitt okkar, í fortíð, nútíð og framtíð, ber persónulega ábyrgð á því hvað um okkur verður. grænuhlíð Ferð um lengdargráður og jörð úr bóseindum Eftir Auði Aðalsteinsdóttur Steinunn G. Helgadóttir. Skuldunautar. Uppheimar. 2013.

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.