Spássían - 2013, Síða 55
55
Blam!
Borgarleikhúsið 5. apríl 2013
Höfundar:
Kristján Ingimarsson og Jesper Pedersen
Leikstjórn:
Kristján Ingimarsson, Simon Boberg
Lýsing:
Edward Lloyd Pierce
Leikmynd:
Kristian Knudsen
Hljóðmynd:
Svend E. Kristensen, Peter Kyed
Leikarar:
Kristján Ingimarsson, Lars Gregersen, Didier Oberlé, Joen
Højerslev
ÉG hef aldrei séð áhorfendahóp í viðlíka ástandi og þann
sem ruddist út úr stóra sal Borgarleikhússins 5. apríl
síðastliðinn. Fólk er oft glatt eftir góða og skemmtilega
sýningu, stundum augljóslega slegið, stundum dauðfegið
og jafnvel nývaknað þegar verulega illa hefur tekist til.
En þetta var eitthvað allt annað. Þessi áhorfendahópur
talaði (of) hátt og (of) hratt, allir búnir að týna
háttvísibremsunum. Fólk strunsaði, ruddist jafnvel,
ekki af því að það gæti ekki beðið eftir að komast út
úr „þessu hræðilega húsi“ heldur eins og (of) kátir
krakkar eftir afmælisveislu þar sem (of) mikill sykur var á
boðstólum.
Það var engu líkara en fólk hefði fengið aukaskammt
af adrenalíni. Sem var náttúrulega tilfellið. Það ágæta
efni skilar sér nefnilega milli manna með osmósu
sköpunarkraftsins.
Blam! sver sig í ætt við aðrar sýningar sem ég hef
séð úr hinni einstöku smiðju Kristjáns Ingimarssonar.
Grunnurinn er líkamstjáning á mörkum leiklistar,
látbragðsleiks og dans og skapandi rannsókn á
samskiptum við „dauða“ og gjarnan hversdagslega hluti.
Þriðja víddin er síðan hin bernska sýn trúðsins. útkoman
er ævinlega heillandi og það er hún svo sannarlega hér.
Þrír skrifstofumenn láta sér leiðast í vinnunni.
Eða ekki, því þeir bregða á leik í hvert sinn sem
skrifstofustjórinn/forstjórinn lítur af þeim. Og þá verður
skrifstofan vígvöllur í anda helstu hasarmynda, áhöld
og húsgögn ummyndast í vopn og verjur, hetjudáðir og
hetjudauði yfirskyggja allt. Viggó viðutan mætir rambó.
Næst þegar bossinn lítur upp er allt fallið í ljúfa
löð. Þangað til hann stendur undirsátana að verki og
ákveður/fær að vera með. Þá riðlast reglurnar aðeins,
frelsið eykst en hættan um leið. Það þarf að kenna nýja
manninum ævintýrareglurnar, en hann mun líka hafa
óafturkræf áhrif á hvernig leikurinn er leikinn.
Veikasti hlekkur sýningarinnar er hvernig þessari
framvindu, þessari þróun er miðlað. Þar rekast höfundar
sýningarinnar á þann vegg sem þögult leikhús kemst ekki
yfir. Áhorfandinn sá bókstaflega leikarana/persónurnar
engjast yfir að geta ekki leitt mál til lykta með orðum.
En það leyfir formið ekki. Fyrir það líður sagan. En
sjónarspilið græðir.
Og hvílíkt sjónarspil! Hin ævintýralega hugmyndaauðgi
í að umbreyta hversdagslegustu hlutum (skjalamöppum,
vatnskæli, borðlömpum) í vopn, verjur og vélmenni.
Stórkostleg fimi leikaranna, sem birtist bæði í
furðulegum áhættuatriðum og ótrúlegum líkamlegum
aga. Og svo þessi hættulega stóri skammtur af þriðja
kryddi leikhússins, hinni stórvarasömu leikgleði.
Þetta er allt með ólíkindum vel gert. Velflest atriðin eru
reyndar þannig að það væri beinlínis lífshættulegt að
þau væru ekki með ólíkindum vel gerð.
Það er lítið um frammistöðu leikaranna að segja
annað en að við hneigjum okkur í lotningu yfir að þeir
skuli geta gert þetta kvöld eftir kvöld. En það er heldur
ekki bara átthagahroki að taka sérstaklega ofan fyrir
höfuðpaurnum að norðan, Kristjáni Ingimarssyni. Þetta
er hans list, hans stíll. Og þó allir séu þeir framúrskarandi
flinkir þá er nú trúðablikið í auganu óneitanlega skærast
hjá honum.
Blam! er óskaplega skemmtileg sýning. Hún er líka
áminning um mikilvægi þess að leika sér, nauðsyn þess
að leika sér MEð þeim sem eru líka að leika sér og síðast
en ekki síst um allar þær óræðu hættur sem okkur stafa
af því ef vatnskælar öðlast sjálfsvitund.
Kannski var það sá óljósi ótti sem fékk áhorfendurna
til að tala svona hátt og flýta sér svona mikið þarna um
kvöldið.
„… ef kitlar mig
forstjórinn“
Eftir Þorgeir Tryggvason