Dagblaðið Vísir - DV - 20.03.2020, Blaðsíða 4

Dagblaðið Vísir - DV - 20.03.2020, Blaðsíða 4
4 20. mars 2020FRÉTTIR Það er staðreynd að… Brauðristin var fyrst sett á markað í Bandaríkjunum árið 1909. Svín eru einu dýrin ásamt mannfólkinu sem geta sólbrunnið. Maður þjáist af dendrófóbíu ef manni er illa við að vera nálægt trjám eða er dauðhræddur við þau. Á tímum seinni heimsstyrjaldar lærði Elísabet II Englandsdrottning bifvélavirkjun. Hjartakóngurinn er eini kóngurinn í spilastokknum sem er ekki með yfirvaraskegg. Hver er hann n Hann her fæddur árið 1953 í Reykjavík. n Hann hefur stundað maraþonhlaup reglu- lega. n Hann varði doktorsverkefni sitt í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. n Hann afhenti Menntaskól- anum að Laugarvatni fyrsta smokkasjálfsala framhaldsskóla árið 2018. n Hann hefur verið mikið í fjölmiðl- um undanfarnar vikur. SVAR: ÞÓRÓLFUR GUÐNASON FYRRVERANDI SAMBÝLISMAÐUR RÆNDI INGU ALEIGUNNI n Hvorki lögregla né réttarkerfið vildi hjálpa n Komst að því að málið væri hjá Hæstarétti eftir að dómur féll Á rið 2016 var fótunum kippt undan Ingu Jónu Traustadóttur. Fyrrverandi sambýlismaður hennar rændi hana aleigunni og hvorki lögregla né réttarkerfið gat hjálpað henni að endurheimta hana. Eftir sat hún með sárt ennið og þurfti að byggja líf sitt aftur upp frá grunni. Inga Jóna hafði áður verið í fjárhagserfiðleikum og endaði á vanskilaskrá. Það var þess vegna sem sambýlismaður hennar var einn skráður fyrir húsnæði sem þau keyptu meðan á sambúðinni stóð. Hún átti því engan rétt þegar sambandi þeirra lauk. Rauk út með svívirðingum og hótunum Sambúð hennar og sambýlismanns hennar lauk árið 2016. Að sögn Ingu hafði hann þá yfirgefið húsnæðið með svívirðingum og hótunum og sagt henni og dóttur hennar að hypja sig. Hann hafði beitt hana andlegu ofbeldi í sambandinu og fleygði gjarnan í hana hlutum í skapofsaköstum svo hótanirnar tók hún alvarlega. Dóttir hennar, 16 ára, varð vitni að þessu og var það henni mikið áfall. Í kjölfarið reyndi Inga Jóna að fá að leigja húsnæðið áfram, því dóttir hennar var þarna í fjölbrautaskóla og undi hag sínum vel, en áður hafði hún átt erfitt uppdráttar. Þessu gekk maðurinn ekki að og vildi þær út hið fyrsta. Inga reyndi að finna húsnæði en á meðan hallaði hratt undan fæti hjá dóttur hennar og var Ingu sjálfri vísað á Kvennaathvarfið sem vildi þó ekkert fyrir hana gera, því hún hefði húsnæði sem fyrrverandi hennar byggi ekki í þessa stundina. Ekki var horft til þess að Inga gat á þeim tíma ekkert sofið. Hún bjóst alltaf við því að vakna með manninn yfir sér, því hann hafði lykla að húsnæðinu og aðgangskóða að þjófavarnarkerfi. Hún fékk þó skjól hjá syni sínum rúmum mánuði eftir sambandsslitin, pakkaði því eigum sínum niður með hraði og flutti þær í geymslu hjá Geymslum Eitt. Til að fá geymslu leigða þarf að leggja fram kreditkort til tryggingar. Hún fékk því að skrá kort fyrrverandi en var þó sjálf greiðandi og tók skýrt fram að hún óttaðist að hennar fyrrverandi reyndi að fjarlægja eigurnar. Mánuði síðar kom á daginn að ótti hennar var á rökum reistur. Lögreglan neitar að rannsaka „Sæl vildi láta þig vita að ég hef læst geymslunni þar sem þú hefur ekki sýnt neinn vilja til að ganga frá þínum málum allar tilraunir til að opna geymsluna verða kærðar til lögreglu þar sem eg er rétthafi, þú þarft ekki að mæta þarna til að greiða geymsluna þar sem þau munu ekki taka við greiðslu frá þér, þú þarft að greiða mér reksturinn af húsinu á meðan þú varst þar plús leigu ég áskil mér rétt til að hirða draslið eða selja ef þú telur þig sleppa við að græja þetta,“ segir í skilaboðum sem fyrrverandi sendi henni. „Ég hringdi í Geymslur Eitt á Völlunum og fékk þetta staðfest þar og ég varð náttúrulega mjög reið. Þau könnuðust ekkert við að hafa lofað mér að hann fengi ekki aðgang að geymslunni. Í kjölfarið hafði ég samband við lögregluna í Hafnarfirði. Þar tók á móti mér strákur og ég sagði honum hvað væri búið að ganga á. Ég átti meðal annars upptökur á símanum mínum þar sem fyrrverandi minn er að hóta mér og dóttur minni. Strákurinn hlustaði á þetta og sagðist ekki heyra betur en að þetta væri hrein og bein kæra.“ Lögreglumaðurinn ákvað að ráðfæra sig við fulltrúa á staðnum. Sá maður leyfði Ingu Jónu aðeins að spila smá brot af upptökunni, en lét hana stoppa áður en hótanir hennar fyrrverandi heyrðust. „Hann sagði eitthvað á þá leið að það skipti ekki máli. Þetta væri einkamál og ég þyrfti bara að finna mér lögfræðing. Hann sagði þetta af svo miklum hroka og leiðindum að hann braut mig niður.“ Höfðaði einkamál Þá leitaði hún til lögfræðings og úr varð að lögð var fram aðfararbeiðni í héraðsdómi þar sem Inga krafðist þess að fá afhentar eigur sínar sem maðurinn hafði tekið ófrjálsri hendi. Þar sem Inga hafði flutt eigur sínar í flýti þá fylgdi beiðninni gróf upptalning á þeim munum sem í geymslunni voru og auk þess voru lögð fram tölvupóstsamskipti þar sem fyrrverandi sambýlismaður hennar viðurkennir að hafa farið inn í geymsluna. Hins vegar hélt fyrrverandi því fram að hann hefði sjálfur tekið geymsluna á leigu og greitt af henni. Lögmaður Ingu hafði undir höndum sannanir um hið gagnstæða, en lagði þær ekki fram fyrir dómi. Inga hafði þó betur fyrir héraði, en tapaði málinu í Hæstarétti. Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms með þeim rökum að Inga hefði ekki lýst meintum eigum sínum nákvæmlega, og ekki fært sönnur á eignarhald sitt. Hluti af eigum hennar var persónulegs eðlis, fatnaður, skartgripir, húsgögn, skrautmunir, straujárn, munir úr dánarbúi foreldra hennar, svo dæmi séu tekin. Margir hlutir yfir áratuga gamlir og því erfitt að framvísa kvittunum fyrir kaupunum. Inga á bágt með að skilja þessar kröfur Hæstaréttar. Sömuleiðis átti hún að færa sönnur á að hlutirnir væru í hans vörslu, en tölvupóstur þar sem hann viðurkennir að hafa tekið þá úr geymslunni þótti ekki nægja, og lögregla neitaði að rannsaka málið. Eins þótti ekki skipta máli að við rekstur málsins skilaði maðurinn hluta af búslóðinni. „Það fannst mér eiginlega það besta við það: Allt í einu skilar hann hluta af búslóðinni. En skilar því hins vegar meira og minna ónýtu.“ Fékk ekki að vita Lögmaður Ingu Jónu tilkynnti henni aldrei um rekstur málsins fyrir Hæstarétti svo hún hafði enga hugmynd um að hún hefði tapað málinu fyrr en um það var fjallað í fjölmiðlum. Þegar þarna var komið sögu hafði Inga Jóna fengið vitni fyrir afdrifum eigna sinna en fékk aldrei að leggja það fram. Fyrrverandi hennar fékk þó að leggja fram ný gögn við rekstur málsins fyrir Hæstarétti. Á meðan mál Ingu fór sína leið í gegnum réttarkerfið þá hafði fyrrverandi sambýlismaður hennar hafið sambúð með annarri konu og þegar málið var komið til Hæstaréttar þá var því sambandi lokið. Sú kona hafði samband við Ingu og sagði henni hvað hefði orðið um eigur hennar. „Hún sagði mér að hún hefði reynt að stoppa hann, sérstaklega þegar kom að persónulegu hlutunum. Til dæmis var þarna myndaalbúm sem mamma mín hafði gert fyrir dóttur mína. Þetta var eina minning hennar um ömmu sína. Þessu henti hann. Hann sagði að allt sem mér þætti vænt um færi á haugana, annað seldi hann eða eignaði sér sjálfur.“ Eftir að hafa misst aleiguna þurfti Inga að hefja lífið nánast á byrjunarreit. „Ég þurfti í rauninni að eignast lífið aftur. Ég þarf að kaupa það sem stelpuna vantar, hann tók meira og minna allar hennar eigur, og ég var ekki með neitt nema rúmið mitt og ísskáp.“ n Erla Dóra erladora@dv.is

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.