Dagblaðið Vísir - DV - 20.03.2020, Blaðsíða 9

Dagblaðið Vísir - DV - 20.03.2020, Blaðsíða 9
20. mars 2020 FRÉTTIR 9 „Við erum vanmáttug“ n COVID-19 hefur mikil áhrif á Íslendinga í útlöndum n Allt í einu hefur lífið gjörbreyst og líkt og heimurinn hafi stöðvast Hiti mældur alls staðar Parið Ásgeir Helgi Magnússon og Garðar Þór Jóns- son ákvað að fara í heimsreisu í byrjun árs. Þeir unnu báðir hjá WOW air þegar flugfélagið féll; Ásgeir sem flugmaður og Garðar á skrifstofunni. Þeir hafa fengist við aðra hluti frá gjaldþroti flugfélagsins en fannst til- valið að hefja nýtt ár á heimsreisu. Reisan hefur hins vegar tekið mörgum skipulagsbreytingum í skugga COVID-19. „Við höfum verið að ferðast síðan um miðjan janúar. Við vorum fyrst í tvær vikur í Kaliforníu, síðan í viku á Havaí. Fórum þá til Ástralíu og þaðan til Indónesíu. Þá hófst Suðaustur-Asíu hlutinn af reisunni,“ segir Ásgeir. Þeir Garðar komu til Balí þann 17. febrúar. „Þá fyrst vorum við farnir að heyra meira talað um COVID-19. Við vorum mjög hissa þegar við lentum á Balí því það var enginn sérstakur viðbúnaður á flugvellinum. Eina sem við þurftum að gera var að fylla út eitt blað þar sem við sögðumst vera hraustir. Við vorum í tvær vik- ur á Balí og urðum í raun ekki varir við margt. Eins og hefur komið fram í fréttum undanfarið þá fannst okkur líka eins og indónesísk yfirvöld væru ekki að segja frá öllu sem væri að gerast. Við tókum strax eftir því þegar við komum að það var lítið um ferðamenn og engir Kínverjar þar sem búið var að loka á farþega frá Kína. Kínverjar eru stærsti hópurinn sem heimsækir Balí og hafa allir ferðaþjónustuaðilar virkilega fundið fyrir því.“ Frá Balí ákváðu þeir Ásgeir og Garðar að fara á Komodo-eyjuna, sem er hluti af eyjaklasa sem tilheyr- ir Indónesíu. Þeir voru búnir að bóka skoðunarferð um eyjuna og nærliggjandi eyjur, en á flugvellinum tilkynnti ferðaþjónustuaðilinn þeim að þeir væru þeir tveir einu sem bókaðir væru í ferðina og því væri hætt við hana. Eftir smá vangaveltur létu þeir slag standa, flugu til eyjunnar og gistu þar í fjórar nætur. Þaðan lá leiðin til Singapúr. „Þar var sérstaklega skrýtið að koma á einn af stærstu flugvöllum í heiminum og við gengum um hann einir. Sjúklega súrrealískt. Um leið og við kom- um út úr flugvélinni var líkamshiti okkar mældur og einnig þegar við tékkuðum okkur inn á hótelið, fórum í verslunarmiðstöðvar, bara alls staðar,“ segir Ásgeir. Upp frá því að þeir komu til Singapúr lokaðist meðal annars Ástralía og Filippseyjar, en síðarnefnda landið átti að vera næsti áfangastaður þeirra. Þá þurftu þeir að breyta ferðaplönum og tóku rútu til Kúala Lúmpúr. Þeir reyna nú að komast til Taílands þar sem Malasía hefur lokað sínum landamærum. „Þessi máltíð í kvöld [17. mars] var sem sagt síðasta máltíðin á veitinga- stað því öllum börum og veitingastöðum verður lok- að á morgun,“ segir Ásgeir. „Í dag var krísufundur hjá okkur og við ætlum að reyna að fara til Taílands þar sem er ekki búið að loka,“ segir Ásgeir, en þeir Garðar eru furðu hressir þrátt fyrir þessar vendingar. „Lokanir virðast elta okkur,“ segir hann og hlær. „Við viljum samt meina að við höfum ekkert með þetta að gera. Þetta er auðvitað háalvarlegt ástand og ég held að við reynum að halda í gleðina eins lengi og við getum,“ segir Ásgeir og bætir við að fjölskyldan á Íslandi sé ekki í rónni með þetta allt saman. „Mamma segir alveg: Komið heim núna. Það er bara þannig.“ Faraldurinn ýtir undir framkvæmdagleði „Það er mikil spenna, en fólk reynir að fela hræðsluna fyrir öðrum og varast að láta aðra finna fyrir henni. Öðrum finnst eins og það sé gert allt of mikið mál úr þessu,“ segir Eva Óskarsdóttir, leikkona og framleið- andi, sem búsett er í Breitenfurt bei Wien í Austurríki ásamt þarlendum eiginmanni sínum og tveimur börn- um þeirra. „Það er komið útgöngubann og ef þú tilheyrir ekki þeim hópi sem má fara út og keyra í vinnuna gætirðu þurft að greiða allt að 3.500 evrur í sekt,“ segir Eva. Fjölskyldan á hund sem þarf sína útiveru og hreyfingu og þess vegna fara þau reglulega í göngutúra. „Og við reynum þá öll að forðast að koma of nálægt hvert öðru. Nú eru bæði börnin mín heima því skólum þeirra var lokað, en mér þykir þetta vera frábært tækifæri til að breyta gömlu skólakerfi sem undirbýr börnin okkar ekkert fyrir framtíðina,“ segir Eva og bendir á að skóla- lokanir hafi þrýst á að kennarar tækju upp nútímalegri hætti en áður, til að mynda með því að senda nemend- um heimaverkefni dagsins í tölvupósti. Það sé jákvæð þróun. „Ég hef ekki áhyggjur af þeim sem eru yngri en 70 ára og með fulla heilsu, en ég er skíthrædd við að missa til dæmis ömmu mína og afa sem búa á Íslandi og eru mér allt. Enda er ég búin að biðja þau að vera ekki að hitta of marga og halda sig inni ef þau geta.“ Eva er sjálf æðrulaus gagnvart ástandinu sem hefur skapast. „Það þurfti að hætta við námskeið sem ég átti að halda, og það þurfti líka að blása af upptökur á kvik- mynd, en ég veit að þetta mun allt reddast,“ segir hún og bætir við að ástandið þessa dagana hafi í raun haft jákvæð áhrif á hana persónulega. Hún sé afkastameiri en áður og framkvæmdagleðin sé í hámarki „Ég er til dæmis búin að stofna kvikmyndaframleiðslufyrirtæki með tveimur öðrum og fyrsta stuttmynd okkar er nú þegar í gangi. Svo er ég að vinna í„ preproduction“ fyrir heimildaþátt sem verður tekinn upp á Íslandi, vonandi núna í ár. En auðvitað verðum við að sjá hvernig þetta með COVID-19 þróast.“ Eva nálgast hlutina af jákvæðni og bendir á að ástandið í heiminum þessa dagana geti fengið fólk til að staldra við og leita aðeins inn á við. „Fyrir marga var það orðið nauðsynlegt að fá frí og hægja aðeins á líf- inu. Ég vona að við stöndum öll saman og séum ekki of mikið á ferð og flugi ef það er ekki nauðsynlegt. Og komum þannig í veg fyrir að fleiri veikist.“ Engin matarpanikk Íslendingurinn Robert Lee Evensen vinnur sem flug- maður í innanlandsflugi á Grænlandi. Robert er bú- settur í Danmörku og skiptir tíma sínum á milli land- anna tveggja. Fyrsta smitið greindist á Grænlandi í gær, fimmtudaginn 18. mars. „Það er komið innanlands smittilfelli frá einstak- lingi sem ekki var á ferðalagi. Sá einstaklingur er tengdur háskólanum og búinn að umgangast aðra nemendur og starfsfólk undanfarið,“ segir Robert. „Þá var allur viðbúnaður settur í gang, öllum skólum, frí- stundastöðvum, veitingastöðum, börum og álíka lok- að, öllum meinað að yfirgefa Nuuk, hvort sem er með flugi, sleða eða bát. Fólk má enn fljúga inn til Nuuk þangað til á morgun [20. mars], en þá verður öllu flugi hætt nema sjúkra- og björgunarflugi. Þá ríkir heima- sóttkvíarskylda fyrir alla komufarþega. Markmiðið virðist vera að einangra tilfellin við Nuuk til að hlífa minni bæjum og þorpum, þar sem aðstoð er jafnvel minni,“ segir Robert. Afleiðingar COVID-19 fyrir hann núna eru þær að hann hættir í innlandsflugi og flýgur sjúkraflug milli Danmerkur og Grænlands í staðinn. Hann segir faraldurinn hafa valdið ákveðnum titringi í grænlenska samfélaginu. „Vitaskuld er fólk óöruggt um stöðu mála, bæði vegna þess að samfélagið er svo smátt og styrkur sjúkrahússins og annarra innviða tak- markaður. Kollegar mínir lýsa hálfgerðu ófremdar- ástandi, bæði á vinnustað og úti á götu, og flest- ir eru áhyggjufullir yfir takmörkuðu heilbrigðiskerfi. Fólk uppfærir fréttaveiturnar með reglulegu millibili, þannig að fréttir að innan sem utan, hafa mikil áhrif á svona samfélag,“ segir hann. Mesti óttinn er um minni byggðarlög í dreifbýli Grænlands. „Það búa margir eldri borgarar í smáum, fjarlægum og frumstæðum þorpum meðfram ströndinni og þar er erfitt að nálgast aðstoð í veikindum. Það er eitt af því sem ég sé að fólk er hrætt við.“ Matarskortur er hins vegar ekki það sem fólk hræðist. „Það góða við grænlenska menningu er að það er mjög vinsælt að veiða sér til matar, þannig að margir eru með fullar frystikistur af kjöti og fiski, svo það virðist ekki vera mikil matarpanikk ennþá.“ Ásgeir til vinstri og Garðar til hægri Eva Óskarsdóttir Robert Lee Evensen

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.