Morgunblaðið - 23.04.2020, Side 41

Morgunblaðið - 23.04.2020, Side 41
„Og svo sterk var þessi bólusótt, að hana fengu og jafnvel dóu úr henni sumir, sem voru á sextugs- og sjötugsaldri og hana höfðu áður fengið svo mikla, að mjög voru bólu- grafnir í andliti. Þó helzt dó úr henni fimmtugt fólk og yngra … og víðast hið efnilegasta til vitsmuna og karl- mennsku, og mannvænlegasta fólkið, hvort það var ungt eður gamalt, eins og blómi eður kjarni landsins væri útvalinn; andkramað og burðalítið lifði af. Þungaðar konur dóu flest- allar og allir þeir, sem fengu þá blá- svörtu bletti, er henni fylgdu.“ (Ann. II, 369-370.) Jón Ólafsson höfundur Gríms- staðaannáls skrifar: „Sumir fengu svarta bletti og dóu þeir allir; aðrir urðu alteknir á augabragði, og lágu þeir þrjú eða fjögur dægur og deyðu síðan; fæstir lágu meira en hálfa þriðju viku, sem dóu.“ (Ann. III, 535.) Látum eitt fórnarlambið hafa orð- ið. Bjarni Pétursson sýslumaður á Skarði á Skarðsströnd og eiginkona hans sýktust. Bjarni lýsti reynslu sinni í bréfi til Árna Magnússonar um miðjan október 1707. „… hér á heimili dóu alls 12 manneskjur. Ég hélt við rúmið vel í 3 vikur, Elín mín var mjög þvinguð af bólu þessari og síðan til fallandi bólgu í höfðinu, alls í 7 vikur vel sem hún ei klæddist, ann- ars er nú lof Guði, nokkur bati þar á kominn, þó hefur hún enn nú ekki sjón fengið nema á öðru auga.“ (AM pb, 359.) Á Gröf á Höfðaströnd var mannmargt heimili árið 1703 eða 25 manns. Þar létust 10 heimilismenn. (Ann. I, 484.) Hjúkrunarleysi Heimildir eru næsta þögular um hvernig hlúð var að þeim veiku. Þrátt fyrir skort á nútímalækningum var til þekking og ráð við ýmsum sjúkdómum eða sjúkdóms- einkennum. Vissa aðhlynningu hafa þeir sjúku auðvitað fengið, ef tök voru á. Það er áhugavert að kynnast áhyggjum fólks sem upplifði sjúk- dómsálagið sem var þegar bólusóttin geisaði með sem mestum krafti og sá að þeir veiku fengu ekki þá aðhlynn- ingu sem þeir hefðu þurft. Í Fitja- annál er þessi frásögn: „Meðan strangasta sóttaráhlaupið yfirstóð hér sunnanlands varð því sjúka og framliðna fólki víða ekki svo þjónað, sem við þurfti; var og haldið, að í sjó- plássum hefði sumt dáið af aðbún- aðar- og hjúkrunarleysi; gáfust og dæmi, það í sumum afbýlum var flest allt fólk andvana, nema einhver ör- vasa karl, kerling eður ungbarn, sem ekkert lið gat veitt, þá til var komið af öðrum bæjum.“ (Ann. II, 369.) Páll Vídalín lögmaður skrifaði á sömu nótum í annál sínum: „Þá var svo margur maður bólusjúkur í Snæ- fellssýslu að þeir heilbrigðu unnust ekki til að þjóna þeim sjúku, og ætla ég það víst, að fyrir þjónustuleysi muni margur dáið hafa, sem ella hefði kunnað að lifa.“ (Ann. I, 715.) Páll og kona hans Hildur Arn- grímsdóttir frá Mel voru mektarfólk og vel að sér og hefur heimilisbragur í Víðidalstungu dregið dám af því. Í október þegar Páll kom heim til sín lágu þar 13 bólusjúklingar og hafði þá einn látist. Einungis einn dó þar (Ann. I, 717). Þar voru 19 í heimili ár- ið 1703 og meirihlutinn fæddur eftir 1672. Verður að telja afar líklegt að góð hjúkrun hafi þar skipt miklu máli. Talning hinna dauðu Einhvern tíma á vetrarmánuðum 1708 (mars-apríl) tóku íslensk yfir- völd ákvörðun um að láta telja og skrá þá sem dóu í bólunni, skipt eftir kyni. Biskupar fólu próföstum að biðja presta að skrá látna með þess- um hætti. Ekki var um að ræða skráningu einstaklinga með nafni heldur fjölda þeirra sem létust í ból- unni, karla og konur, aðgreint frá þeim sem létust af öðrum orsökum. Jafnframt báðu lögmennirnir tveir sýslumenn og hreppstjóra að skrá með sama hætti látna í sveitarfélög- unum. Tvöfalt kerfi. Hluti þessara skráninga hefur varðveist og gerir kleift að reikna út dánartíðnina í sum- um sýslum, hreppum eða sóknum og fyrir landið allt. Dánartíðnin var 26% Samtímaheimildir eru afdráttar- lausar um að milli 13 og 14 þúsund Ís- lendingar hafi dáið úr bólunni. Út frá tölulegum upplýsingum í heimild- unum má reikna að dánartíðnin á landinu í heild var 26,2% að meðaltali. Fjölda látinna í heild má því reikna út frá því hlutfalli af þeim 50.000 íbúum sem í landinu voru 1703. Það gefur okkur að 13.500 manns hafa fallið í valinn. Talsverður munur var á mannfalli milli einstakra svæða eða landshluta. Í Grímsey dóu 38% og er það hæsta dánartíðnin. Í Snæfells- nes- og Hnappadalssýslum létust 33% íbúa en í Skagafjarðarsýslu var hlutfallið 20%, svo dæmi séu tekin. Til að setja þessar tölur í okkar samhengi má nefna að fjórðungur þjóðarinnar í dag er um 91.000 manns. Það má nærri geta að íslenskt samfélag lamaðist meðan á þessu gekk. Sóttartími Sumar heimildir greina frá hversu lengi sóttin varaði í tilteknum sókn- um eða sveitum. Til dæmis greinir Setbergsannáll frá gangi bólunnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Að með- altali tók það sóttina um þrjá mánuði að ljúka sér af. Í Bessastaða- og Garðasókn var hún í 88 daga, 96 daga í Seltjarnarnessóknum (höfuðborgar- svæðið), 127 daga í Mosfellssóknum og í Kjósarsóknum 67 daga svo dæmi séu tekin (Ann. IV, 197-198). Dæmi eru um mun styttri sóttartíma. Á fimm vikum gekk sóttin um Grímsey og lagði alls 33 eyjaskeggja í gröfina (Ann. I, 490). Hér er dánartíðnin 38%. Sú hæsta sem var í einu byggð- arlagi sem áður greinir. Hér móta að- stæður örugglega að sóttin gekk hratt og skelfilegum afleiðingum. Fólk bjó þétt og vann náið saman við fiskveiðar, munu nær allir hafa sýkst. Ástandið á sóttartíma En hvernig var umhorfs meðan sóttin gekk yfir, hvaða afleiðingar hafði það að fjórðungur fólks dó á skömmum tíma? Það má ljóst vera að annasamt var á kirkjustöðum meðan á þessu gekk. Páll Vídalín segir: „Enginn hlutur var jafntíður að sjá sem líkfylgdir, kistusmíði að dauðum mönnum, angur þeirra, er sína misstu, þreyting og mæði þeirra lif- enda í þjónustu hinna dauðu og dauð- sjúku.“ (Ann. I, 715.) Páll Vídalín skrifaði ítarlega um bóluna í annál sínum og er þekkt frá- sögn hans af því þegar hann og Árni Magnússon komu til Staðastaðar á Snæfellsnesi þegar bólan geisaði þar sem mest. Frásögnin er í stuttu máli þannig að þegar þeir komu til Staða- staðar stóðu þar tvö lík. Þeir gengu til kirkju og gerðu bæn sína. Og er þeir stóðu upp var komið hið þriðja lík. Þá var þeim boðið til bæjar og á meðan kom hið fjórða lík. Inni í bænum töfðu þeir skamma stund og er út kom barst hið fimmta lík til kirkjunnar og á meðan þeir stigu á bak hestum sín- um kom hið sjötta lík. Alls varaði heimsókn þeirra í 1,5 klst. (Ann. I, 716.) Þessi frásögn kemur heim og saman við frásagnir annarra annála um að margir hafi verið grafnir sama dag í fjölmennum sóknum. Í Hest- annál segir: „Að Kálfatjörn voru jarð- aðir 34 á einum degi, en 19 á Ingjalds- hóli undir Jökli.“ (Ann. II, 560.) Ástandið í Möðruvalla- klausturssókn Ministerialbók (prestsþjónustu- bók) Möðruvallaklausturssóknar í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu er sú eina sem varðveitt er frá tímum ból- unnar. Þar eru tilgreindar fæðingar (skírnir), andlát (greftranir), gift- ingar og önnur prestsverk. Vitnis- burður hennar sýnir með sláandi hætti áhrif stórubólu í sókninni. Þeir sem deyja eru tilgreindir með nafni og heimilisfangi. Dánarorsök er ekki tilgreind en líklegast er að 75 hafi dáið úr bólusóttinni í sókninni eða um 23% íbúa (sjá Loftur G., 146- 149). Skýringarmyndin sem birtir fjölda látinna á ári sýnir vel hversu gríðarlegt mannfall var í bólunni, mannfall sem átti engan sinn líka í áratugi þar um slóðir. Prestsþjónustubókin tilgreinir einnig hvenær fólk var jarðsett. Greftranasagan frá miðjum sept- ember fram í fyrri hluta nóvember 1707 sýnir hið gífurlega mannfall og tíðar jarðarfarir meðan á faraldrinum stóð. Augljóslega var líkum safnað upp en ekki jarðsett daglega og nokkrir eða margir jarðsungnir í einu. Flestir voru grafnir í einu í Möðru- vallaklausturssókn hinn 23. október 1707, 14 manns. En alls dóu 75 úr sjúkdóminum á tæpum tveimur mán- uðum. Heldur fleiri karlar urðu veik- inni að bráð eða 41 af 75 látnum. Auk bólulátinna dóu 10 í sókninni þetta ár af öðrum orsökum og á öðrum tíma ársins. Daglegt líf Mjög víða varaði sóttin í um þrjá mánuði. Lýsing Setbergsannáls tek- ur saman ástandið: „Hjón mörg fóru þá bæði í eina gröf. Þá varð margur hjónaskilnaður. Sumir misstu öll sín börn, þó mörg ætti, margir nær því öll sín systkin. Þá voru eymdar og hryggðardagar fyrir þeim, sem eftir lifðu eða tórðu.“ (Ann. IV, 196.) Líf allra fór auðvitað úr skorðum. Dagleg bústörf voru vart unnin á meðan bólusóttin geisaði og meira eða minna allir voru sjúkir, mjaltir, matseld, þvottar og þrif hafa setið á hakanum. Á mörgum stöðum var heyskapur í uppnámi. Kýr og ær í haga gengu um ómjólkaðar, svo að á mörgum stöðum vesluðust þær upp, geltust og jafnvel dóu vegna þess að enginn var til að mjólka þær (Ann. I, 708). Ýmsar aðrar samfélagslegar af- leiðingar fylgdu mannfallinu. Eyðijarðir og lækkun afgjalda Flestar bújarðir voru leigujarðir í eign konungs og stóreignamanna og flestir bændir því leiguliðar. Mann- fallið þýddi í raun minni eftirspurn eftir bújörðum og fóru margar jarðir í eyði og leigugjald lækkaði mikið. Til þess að halda í leiguliða, eða fá til sín nýja, lækkuðu jarðeigendur leigu- gjald fyrir bújarðir og kvikfé og fækkuðu leigukúgildum (Ann. II, 373). Um 10% jarða fóru í eyði og leiguafgjöld munu hafa lækkað um 40% á þeim jörðum sem heimildir eru um (Elín H., 73, 87). Laun hækkuðu Mikil fólksskortur leiddi einnig til þess að kaupgjald hækkaði vegna meiri eftirspurnar eftir vinnufólki. Til þess að geta rekið bú sín þurftu bændur vinnufólk og það nýtti vinnu- fólk sér. Fitjaannáll segir svo: „Yngisfólk, sem eptir lifði og jafnvel letingjar, er ekki fengu áður vistir, vildu ekki ljást til þjónustu, nema fyr- ir tvöfalt eður þrefalt verkakaup, með ýmsum skilmálum þar fyrir utan.“ (Ann. II, 372.) Giftingar margar og barneignir Giftingum fjölgaði og sömuleiðis barneignum. Hér má segja að eins dauði var annars brauð. Skyndilega sköpuðust fleiri tækifæri til að ná sér í maka en fólk átti að venjast og það leiddi auðvitað til aukinna barneigna. Svo aftur sé vitnað til Fitjaannáls segir höfundur hans „… giftingar margar, sumar óefnilegar, barneignir víða“ (Ann. II, 373). Í Möðruvallaklausturssókn var að meðaltali 2,1 gifting á ári áratuginn fyrir bólu. En strax árið 1708 voru þær 14. Hjónabandsmarkaðurinn opnaðist sem sagt skyndilega þegar hjón misstu maka sinn og vildu og þurftu að finna sér nýjan. Þá var einnig tækifæri fyrir ungt fólk að stofna heimili þegar jarðir losnuðu úr ábúð eða fóru í eyði. Tuttugu og átta manns nýttu sér þessar aðstæður í sókninni strax árið eftir að bólan gekk í sókninni. Eðlilega fjölgaði fæð- ingum í kjölfarið. Það birti sem sagt aftur til í lífi fólks með betri tíð og blóm í haga. Bólusótt útrýmt Á árabilinu 1958-1977 stóð Al- þjóðaheilbrigðismálastofnunin (World Health Organization) fyrir herferð til útrýmingar bólusóttinni á heimsvísu. Það tókst. Síðasta tilvik um bólu var í Sómalíu 1977. Því var svo lýst yfir í desember 1979 að búið væri að útrýma bólusóttinni úr heim- inum. Þetta sýnir hvernig samstaða þjóða og máttur vísinda geta ráðið úr- slitum í baráttunni við mannskæða sjúkdóma. Vonandi tekst alþjóða- samfélaginu að finna mótefni gegn kórúnuveirunni sem veldur Covid-19- sjúkdóminum er nú herjar á mann- kynið. 1) Þessi grein er byggð á cand.mag-ritgerð höfundar við Hafnarháskóla 2009. Vísast al- mennt til hennar. Höfundur vinnur að bók um stórubólu. Helstu heimildir: Óprentaðar: Eiríkur G. Guðmundsson, Den store koppeepidemi i Island 1707-1709, forløb og virke. Ritgerð til cand. mag.-prófs við Hafnarháskóla. Kbh 2009. Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ). Skjalasafn presta. BA 1. Ministerialbók Möðruvalla- klausturs 1694-1784. Vefir: https://www.who.int/csr/disease/smallpox/en/ (apríl 2020). https://en.wikipedia.org/wiki/Smallpox (apríl 2020). Prentaðar: Ann.: Annálar 1400-1800. I-IV. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 1922-1948. AM pb: Arne Magnussons private brevveks- ling. Útg. Kr. Kålund. København og Kristi- ania 1920. Elín H: Elín Hirst: „Í eyði síðan fólkið útdó í bólunni.“ Áhrif stórubólu á búsetu og efna- hag. Ritgerð til MA-prófs við Háskóla Ís- lands. Reykjavík 2005. Hagskýrslur Íslands II, 21. Manntalið 1703. Reykjavík 1960. Jón Steff.: Jón Steffensen, „Bólusótt á Íslandi“. Menning og meinsemdir. Ritgerða- safn um mótunarsögu íslenskrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Reykja- vík 1975. 275-319. Loftur G.: Loftur Guttormsson, „Mannfall í stórubólu. Rannsókn á sóttarferlinum í Möðruvallaprestakalli“. Saga XLVI 2008. 141-157. Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að til- hlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík 1924-1947. Höfundur er sagnfræðingur og fyrrverandi þjóðskjalavörður. Útbrot Bólusótt (e. small pox) var afar mannskæður sjúkdómur. UMRÆÐAN 41 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. APRÍL 2020 www.danco.is Heildsöludreifing Fyrirtæki og verslanir Sumarleikföng í úrvali 45cm boltar Flo tra arBolt Kútar Vatnsbyssur oo oo ttir á Y H Fötur Kynntu þér málið og pantaðu á vefverslun okkar www.danco.is Sápukúlur

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.