Morgunblaðið - 08.06.2020, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 8. JÚNÍ 2020
Sumarsæla Sumarið er tíminn, söng skáldið. Svo virðist sem þessi gæs hafi í það minnsta notið sín þar sem hún flaug vængjum þöndum, umvafin fagurri sumarbirtu.
Eggert
Við í meirihluta borgarstjórnar
höfum nú samþykkt Græna planið,
áætlun Reykjavíkurborgar um
hvernig umhverfismálin muni leiða
efnahagslega viðspyrnu og endur-
reisn eftir efnahagsáfallið sem
Reykjavík, líkt og heimsbyggðin
öll, varð fyrir vegna Covid-19.
Endurreisnin þarf að vera græn
og sjálfbær. Við viljum skilja við
okkur betri borg heldur en við
fengum hana í fangið, það á við um
lífsgæði, loftgæði og loftslag en
líka rekstur borgarinnar. Skilaboðin frá þjóð-
inni eru líka skýr, eins og fram kom í könnun
Capacent sem birt var í vikunni.
Þjóðin vill að stjórnvöld taki
loftslagsbreytingar jafn alvar-
lega og áskorarnir vegna Co-
vid-19.
Við getum ekki ýtt loftslags-
vandanum eða efnahagsáfallinu
á undan okkur til komandi kyn-
slóða, heldur er það á okkar
ábyrgð að bregðast við þeim
vanda sem við stöndum frammi
fyrir. Í Covid fylgdum við vísind-
unum og við sáum hvað stofn-
anir, fyrirtæki og einstaklingar
voru snögg að bregðast við
breyttum aðstæðum. Nú þurfum
við að takast á við enn stærri áskorun, sem eru
umhverfismálin.
Í græna planinu eru mikilvæg skref til að
auka lífsgæði, loftgæði og bæta loftslag. Þar má
nefna bættar samgöngur og uppbyggingu
Borgarlínu, bætta innviði fyrir hjól og áherslu á
orkuskipti, græna uppbyggingu húsnæðis og
umhverfisvæns borgarlands. Það er einnig
mikilvægt að halda áfram í ábyrgum og græn-
um fjárfestingum, t.d. í gegnum græn skulda-
bréf og með því að láta grænar skuldbindingar
vera leiðarljós sjálfbærra verkefna og nýsköp-
unar. Það þarf einnig að hefja samtal við at-
vinnulífið, ekki síst ferðaþjónustuna, um hvern-
ig við getum staðið saman í því að byggja upp
borgina okkar á umhverfisvænan hátt.
Íslendingar skilja alvöruna og skilja að að-
gerðirnar sem þörf er á til að sporna við lofts-
lagsbreytingunum eru á það stórum skala að
þær þurfa að ná til allra anga samfélagsins. Það
þarf að bregðast við umhverfisvandanum af
festu og sú festa þarf að vera sýnileg í ákvörð-
unum borgarinnar. Atvinnulífið, fólk og opin-
berir aðilar, í okkar tilviki Reykjavíkurborg,
eiga að standa saman að því að reisa okkur við
eftir Covid og endurreisnin á að vera græn.
Eftir Þórdísi Lóu
Þórhallsdóttur » Það þarf að bregðast við
umhverfisvandanum af
festu og sú festa þarf að vera
sýnileg í ákvörðunum borg-
arinnar.
Þórdís Lóa
Þórhallsdóttir
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík og
formaður borgarráðs
Græna planið til endurreisnar
Margt veldur áhyggjum litið
út í heim frá Íslandi á þessum
vordögum. Höfum við þó við ær-
in vandamál að glíma, m.a.
tengd framvindu efnahagsmála
í kjölfar veirufaraldursins, sem
vel hefur tekist til að halda hér í
skefjum. Ástand og þróun mála
í Bandaríkjunum á síðustu vik-
um yfirskyggir allt annað, þar
sem saman fara vettlingatök og
ráðleysi gagnvart veirunni sem
þegar hefur kostað þar á annað
hundrað þúsund manns lífið, og við hefur síðan
bæst uppreisn almennings gagnvart landlægu
kynþáttamisrétti. Við stjórnvölinn situr forseti
sem á sér nú orðið fáa formælendur erlendis
og grípur helst til ráða sem magna átök og
sundrungu heima fyrir, m.a. með hótunum um
að beita hervaldi gagnvart eigin borgurum.
Þeldökkir sem annars flokks fólk
Bandarískt þjóðfélag er afar margbrotið,
landfræðilega, sögulega og hvað efnahag og
menningu snertir. Ríkidæmi er þar meira og
stéttaskipting djúptækari en annars staðar
þekkist. Auður hefur þar eins og víðar hlaðist
á æ færri hendur síðustu áratugi og við það
þrengt að millistéttum, að ekki sé talað um þá
sem höllustum fæti standa. Í þeim hópi eru
þeldökkir yfirgnæfandi, afkomendur inn-
fluttra þræla frá fyrri tíð en einnig innflytj-
endur frá Rómönsku Ameríku og Asíu sem
stöðugt fer fjölgandi. Þetta er sá jarðvegur
sem linnulaus mótmæli síðustu vikna sprettur
úr og endurspeglar djúpstæðan og vaxandi
klofning í samfélaginu. Mótmælin nú eru langt
frá því að einskorðast við þel-
dökka, eins og sjá má af myndum.
Í ljósi þessa verður skiljanlegt það
mikla fylgi sem Bernie Sanders
fékk í forkosningum demókrata
fyrr á árinu. Hann var af andstæð-
ingum stimplaður sem sósíalisti,
þar eð hann vísaði m.a. til Norð-
urlanda sem fyrirmyndar um
sæmilegan jöfnuð og almanna-
tryggingakerfi. Málstaður hans
virtist einkum njóta stuðnings
meðal ungs fólks, en ekki sér-
staklega úr röðum þeldökkra. Sá
sem hér heldur á penna þekkir
Bandaríkin aðeins af nokkrum
heimsóknum og ferðum á liðinni öld, en nóg til
þess að skynja augljósa mismunun í garð þel-
dökkra. Vonir voru bundnar við forsetatíð
Obama með sínar afrísku rætur, en viðsnún-
ingurinn síðan stefnir í þveröfuga átt.
Forystuhlutverk
Bandaríkjanna dvínandi
Það kemur ekki á óvart að Bandaríkin eru
nú óðum að glata því forystuhlutverki sem þau
höfðu meðal vestrænna ríkja lengst af allt frá
seinni heimsstyrjöldinni. Hernaðaríhlutun
þeirra, einkum í vestanverðri Asíu, í Írak, Afg-
anistan og víðar, hefur reynst samfelld rauna-
saga, sem og stuðningur þeirra við ramma aft-
urhaldsstjórn í Sádi-Arabíu. Það sama á við
um stuðning þeirra við útþenslustefnu Ísraels-
ríkis gagnvart Palestínu, þvert á alþjóða-
samþykktir. Þá er andstaða Trump-stjórn-
arinnar gegn Parísarsamningnum 2015 og
markmiðum hans um að draga úr hlýnun and-
rúmsloftsins hörmulegur blettur á annars um
margt framsækinni stefnu bandarískra stjórn-
valda í umhverfismálum fyrr á tíð. Þegar
Trump nú reynir að draga bandarískt herlið út
úr feninu í Afganistan virðast hermálayfirvöld
í Washington ætla að beina kröftum og áhrif-
um í norðurátt, að Norður-Íshafinu og grann-
svæðum. Um það ber vott nýlegt tilboð
Trumps til Danmerkur um að Bandaríkin
„kaupi“ Grænland. Í sömu átt hnígur stefna
stjórnarinnar í Washington að Bandaríkin eigi
að fjárfesta mun meira en hingað til í vígbún-
aði á norðurslóðum, þ.e. í Arktís, til að mæta
meintum ógnunum af hálfu Rússa og Kínverja.
Ísland fer nú með formennsku í Arktíska
ráðinu annað árið í röð. Öryggis- og varnarmál
eru ekki rædd innan ráðsins, en áherslan er á
umhverfi, vísindi, lífríki o.fl. Á fundi í Arktíska
ráðinu fyrir ári gerðu Bandaríkjamenn óvænt
athugasemdir við undirbúna starfsáætlun
ráðsins, vísuðu framlögðu uppkasti frá og
lögðu fram eigin texta. Engin sameiginleg
áætlun kom því frá fundinum. Rússar taka þar
við formennsku af Íslandi að ári, og við þá hef-
ur verið gott samstarf að sögn starfsmanna ut-
anríkisráðuneytisins. Allt frá dögum Gor-
batsjoffs hafa Rússar líka lagt áherslu á Arktís
sem friðarsvæði.
Nató sem hernaðarbandalag er ekki svipur
hjá sjón frá því sem var á dögum kalda stríðs-
ins. Því veldur vaxandi óeining vegna stefnu
Bandaríkjanna og Stoltenberg hinn norski er
ekki öfundsverður sem framkvæmdastjóri.
Hver verður niðurstaða
forsetakosninganna vestra?
Ekkert eitt málefni fyrir utan veirufarald-
urinn upptekur alþjóðasviðið jafn mikið og
væntanlegar forsetakosningarnar í Banda-
ríkjunum eftir fimm mánuði. Augljóslega
veltur á miklu fyrir Bandaríkin og heims-
byggðina hver niðurstaðan verður. Þar ber
afstöðuna til loftslagsmálanna langhæst í al-
þjóðlegu samhengi. Glímunni á vegum COP,
þ.e. aðildarríkja loftslagssamningsins um
sameiginlegar leikreglur, var frestað um ár.
Vinna að því að ná þar niðurstöðu verður mál
mála á árinu 2021. Um horfur í þeim efnum í
framhaldi af kórónuveirunni fjallar tímaritið
The Economist í leiðara sínum 23. maí sl. und-
ir fyrirsögninni „Seize the moment“ – grípið
tækifærið. Aðildarríki Parísarsamningsins
þurfi að mati ritstjórans að átta sig á, að við-
brögðin við veirunni geti reynst lykillinn að
því að bjarga umhverfinu. – Hvort Bandaríkin
verða við það borð ræðst þann 5. nóvember
nk. Ekki líst öllum andstæðingum Trumps
nógu vel á mótherja hans, Joe Biden, sem þá
verður senn 78 ára gamall. Í viðtali við viku-
ritið Die Zeit 20. maí sl. undir fyrirsögninni
„Wir waren nie eine Demokratie“ (Við vorum
aldrei lýðræðisríki) segir bandaríski rithöf-
undurinn Paul Auster að Biden sé hvorki
sóknharður í kosningum né góður ræðumað-
ur. „Tíð mismæli hans koma til af því að hann
stamaði sem barn og sagði bara eitthvað ef
hann rak í vörðurnar, sama hvað það var. Það
sama gerir hann enn í dag. En fólki þykir
vænt um hann. Hann getur unnið kosning-
arnar fái hann til þess stuðning þeldökkra
Ameríkana.“ – Við sjáum hvað setur.
Eftir Hjörleif
Guttormsson » Þróun mála í Bandaríkj-
unum yfirskyggir nú allt
annað þar sem saman fara
vettlingatök gagnvart veirunni
og nú uppreisn almennings
gegn kynþáttamisrétti
Hjörleifur
Guttormsson
Höfundur er náttúrufræðingur.
Misréttið í Bandaríkjunum,
kynþáttahatur og yfirþyrmandi náttúruvá