Morgunblaðið - 18.09.2020, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. SEPTEMBER 2020
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO,
varaði við því í gær að tilfellum kór-
ónuveirunnar væri að fjölga mjög
ört í Evrópu. Þá varaði stofnunin
ríki álfunnar við því að stytta þann
tíma sem fólk þurfi að dveljast í
sóttkví, en stjórnvöld í ríkjunum
reyna nú að finna leiðir til að
stemma stigu við kórónuveirufar-
aldrinum án þess að gripið verði til
jafnharðra aðgerða og í vor.
Hans Kluge, svæðisstjóri WHO
fyrir Evrópu, greindi frá því á blaða-
mannafundi sínum að ný smit hefðu
verið fleiri í Evrópu en í síðustu
viku, en þá voru skrásett rúmlega
54.000 ný tilfelli á einum sólarhring.
Sagði Kluge að sú staðreynd ætti að
þjóna sem viðvörun. „Þó að þessar
tölur endurspegli umfangsmeiri
skimun en áður sýna þær einnig
ógnvænlega útbreiðslu veirunnar
vítt og breitt um álfuna,“ sagði
Kluge.
Kallaði Kluge eftir aukinni sam-
stöðu Evrópuríkja í baráttunni gegn
kórónuveirunni, en sagði jafnframt
mikilvægt að viðurkenna að þreyta
gagnvart sóttvarnaaðgerðum væri
farin að gera vart við sig hjá íbúum
álfunnar.
Fara í svæðisbundnar aðgerðir
Bresk stjórnvöld tilkynntu að nýj-
ar og hertar aðgerðir myndu taka
gildi í dag, en þær beinast aðallega
að norðausturhluta Englands. Munu
íbúar á þeim svæðum, sem meðal
annars innihalda borgirnar New-
castle og Sunderland, ekki fá að
hitta fólk utan heimilis síns nema
með miklum takmörkunum.
Boris Johnson, forsætisráðherra
Bretlands, varaði við því að það gæti
þurft að loka öldurhúsum á Eng-
landi fyrr á daginn til þess að hægt
yrði að stemma stigu við næstu
bylgju faraldursins. Tilkynnt var í
gær að nýjum tilfellum á Bretlandi
hefði fjölgað um 167% frá því í byrj-
un ágúst, þegar farið var að draga úr
sóttvarnaaðgerðum.
Á mánudaginn tóku gildi nýjar
reglur sem banna mannamót fleiri
en sex manns á Englandi, en fjöldi
nýrra tilfella á Bretlandi hefur ekki
verið meiri síðan í byrjun maí. Nærri
því 42.000 manns hafa látist þar frá
upphafi faraldursins og um 378.000
manns smitast af kórónuveirunni.
Vilja ekki stytta sóttkvína
WHO lýsti því þá sérstaklega yfir
að stofnunin myndi ekki breyta ráð-
leggingum sínum um að þeir sem út-
settir væru fyrir smiti yrðu settir í
14 daga sóttkví. Sagði í tilkynningu
stofnunarinnar að þau meðmæli
væru byggð á skilningi hennar á
meðgöngutíma veirunnar og smit-
leiðum og því yrði ekki breytt nema
ef þær forsendur breyttust.
Frönsk stjórnvöld styttu tímann
sem fólk þarf að dveljast í sóttkví
niður í viku, og bresk stjórnvöld hafa
stytt tímann í tíu daga. Þá munu
stjórnvöld í nokkrum öðrum Evr-
ópuríkjum, þar á meðal Portúgal og
Króatíu, einnig vera að íhuga slíka
styttingu.
Kórónuveirufaraldurinn
Staðan fimmtudaginn 17. september 2020. kl. 11:00 að íslenskum tíma
Þau lönd sem hafa orðið verst úti:
Dauðsföll
941.473
Ný*
5.954
Tilfelli
29.914.297
Ný
282.592
*Fjölgun undanfarinn sólarhring, 16. september 2020.
Dauðsföll Ný (síðasta tilkynning)Tilfelli
Bandaríkin 196.831 968 6.631.561
Brasilía 134.106 987 4.419.083
Indland 83.198 1.132 5.118.253
Mexíkó 71.978 300 680.931
Bretland 41.684 20 378.219
Ítalía 35.645 12 291.442
Perú 31.051 124 744.400
Frakkland 31.045 46 439.360
Spánn 30.243 239 614.360
Íran 23.808 176 413.149
Kólombía 23.478 190 736.377
Rússland 18.917 132 1.079.519
Heimild: Talning AFP byggð
á opinberum tölum
Viðvörunarbjöllur hringja
WHO varar við mikilli útbreiðslu kórónuveirunnar í Evrópu Vilja ekki að
sóttkví verði stytt Harðar svæðisbundnar aðgerðir í norðausturhluta Englands
AFP
Kórónuveiran Faraldurinn hefur meðal annars sett svip á skólahald í Evrópu og er grímuskylda þar víða.
Sérfræðingar þýska hersins eru
sagðir hafa fundið leifar af novichok-
taugaeitrinu á vatnsflösku, sem
fannst í hótelherbergi því er rúss-
neski stjórnarandstæðingurinn
Alexei Navalní gisti í kvöldið áður en
hann veiktist í síðasta mánuði. Þýsk
stjórnvöld hafa áður sagt að þau hafi
„óyggjandi sannanir“ fyrir því að
eitrað hafi verið fyrir Navalní með
novichok, en rússnesk stjórnvöld
hafa borið brigður á þá niðurstöðu.
Kíra Yarmysh, talskona Navalnís,
sagði að uppgötvunin væri sönnun
þess að eitrað hefði verið fyrir hann
áður en hann yfirgaf hótel sitt í
borginni Tomsk í Síberíu, en ekki á
flugvellinum eða í flugvélinni þar
sem leið yfir hann 20. ágúst síðast-
liðinn.
Vladimír Uglev, einn af þeim sem
hönnuðu novichok-eitrið, sagði að sú
staðreynd að Navalní hefði lifað af
þýddi líklega að hann hefði einungis
komist í snertingu við eitrið, en ekki
drukkið það.
Hvetja til þvingunaraðgerða
Evrópuþingið samþykkti ályktun í
gær um málið, þar sem Evrópu-
sambandið var hvatt til þess að setja
umfangsmiklar viðskiptaþvinganir á
Rússland, á sama tíma og stjórnvöld
þar voru sökuð um að beita sér
markvisst gegn stjórnarandstöðunni
með „pólitískum morðum og eitur-
árásum“.
Ályktunin er ekki bindandi fyrir
sambandið og sagði María Zakhar-
ova, talskona rússneska utanríkis-
ráðuneytisins, að hugmyndir um
refsiaðgerðir væru markaðar af
Rússafælni. Rússnesk stjórnvöld
hafa vísað öllum ásökunum á hendur
sér varðandi Navalní-málið á bug.
Fundu eitrið
á vatnsflösku
Evrópuþingið kallar eftir aðgerðum
AFP
Navalní-málið Novichok-eitrið
fannst á vatnsflösku Navalnís.
Sú ímynd af víkingum að þeir hafi
verið upp til hópa ljóshærðir og
bláeygðir kann að vera röng, sam-
kvæmt niðurstöðum nýrrar rann-
sóknar sem birtist í tímaritinu
Nature í vikunni. Í rannsókninni
voru könnuð 442 bein frá 8. og 12.
öld, en þau fundust vítt og breitt
um Evrópu. Segir þar að vegna
fólksflutninga frá suður- og aust-
urhluta álfunnar hafi fleiri dökk-
hærðir búið í Danmörku, Noregi
og Svíþjóð á víkingaöld en séu þar
nú.
Ashot Margaryan, lektor við
Kaupmannahafnarháskóla og einn
af höfundum rannsóknarinnar,
segir að ljóshært fólk hafi þó ver-
ið í meirihluta meðal norrænna
manna á þeim tíma. Segir Marg-
aryan að þennan fjölbreytileika
megi rekja til bæði viðskipta milli
þjóðflokka og þrælahalds.
DANMÖRK
Ekki voru allir ljós-
hærðir og bláeygðir
Bill Barr, dóms-
málaráðherra
Bandaríkjanna,
var harðlega
gagnrýndur í
gær eftir að upp-
tökur birtust af
ræðu hans, þar
sem hann líkti
þeim hörðu sótt-
varnaaðgerðum
sem sum ríki Bandaríkjanna settu á
í vor við þrælahald í suðurríkjum
Bandaríkjanna. Sagði Barr að að-
gerðirnar hefðu verið mesta brot á
lýðfrelsi Bandaríkjamanna fyrir ut-
an þrælahaldið.
James Clyburn, þingmaður
demókrata, sagði að ummæli Barrs
væru þau „fáránlegustu“ sem hann
hefði nokkurn tímann heyrt. Cly-
burn, sem er svartur, sagði það
ótrúlegt að æðsti yfirmaður dóms-
mála í Bandaríkjunum legði að
jöfnu aðgerðir sem ætlað var að
bjarga mannslífum og þrælkun á
öðru mannfólki. „Þrælahaldið sner-
ist ekki um að bjarga mannslífum,
heldur að gera lítið úr þeim,“ sagði
Clyburn.
BANDARÍKIN
Líkti sóttvörnum
við þrælahaldið
Bill Barr
Pennaljós
Raunveruleg
„kúlupenna“-stærð