Morgunblaðið - 26.10.2020, Page 28

Morgunblaðið - 26.10.2020, Page 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. OKTÓBER 2020 AF BÓKMENNTUM Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Alls eru fjórtán bækur á níu norræn- um tungumálum tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverð- launa Norðurlandaráðs í ár. Verð- laun Norðurlandaráðs verða afhent í fimm flokkum í sérstökum sjón- varpsþætti sem sýndur er á Norður- löndunum annað kvöld, þar á meðal á RÚV. Í blaðinu síðasta laugardag var sjónum beint að framlagi Finna, Norðmanna, Sama og Svía. Í dag er komið að framlagi Álendinga, Dana, Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga. Rýnir las tilnefndu bæk- urnar á frummálinu nema annað sé tekið fram. Jólin snúast um að gleðja aðra Myndabókin Orpilissat nunarsuarmi kusanarnersaat (Heimsins fegursta jólatré) eftir Juaaka Lyberth er framlag Græn- lendinga í ár. Rýnir las bókina í danskri þýðingu höfundar í sam- vinnu við Niels Henrik Lynge. Bókin gerist í aðdraganda jóla og skiptist í 24 kafla svo nota má hana sem jóladaga- tal og lesa einn kafla á dag. Sögusviðið er bærinn Uum- mannaq á Grænlandi þar sem nýlendu- herrann Hammeken hefur ákveðið að panta engin jólatré fyrir bæinn þetta árið, bæjarbúum til mikillar armæðu. Drengurinn Kunuk einset- ur sér að bjarga jólunum og þarf til þess hjálp jólaálfanna sem hann einn sér og trúir á. Við sögu koma einnig ófyrirleitin tröll sem er meinilla við allt þetta jólastand. Allt fer þó vel að lokum og sögupersónum lærist að jólin snúast fyrst og fremst um að gleðja aðra. Nýlenduherranum verð- ur líka ljóst að það bætir ekki eigin vanlíðan að koma illa fram við aðra. Myndlýsingar Maju-Lisu Kehlet eru lifandi og bæta miklu við lesturinn. Heillandi myndheimur Færeyingar tilnefna myndabók- ina Loftar tú mær? (Grípur þú mig?) eftir Rakel Helmsdal sem rýnir las í danskri þýðingu höfundar. Þetta er í fjórða sinn sem Helmsdal er tilnefnd til verðlaunanna, en tvisvar hefur hún verið tilnefnd fyrir hönd Fær- eyinga og tvisvar fyrir hönd Íslend- inga, enda er hún meðhöf- undur að Skrímsla- bókunum ást- sælu. Loftar tú mær? er ein af nokkr- um bókum þetta árið sem gera sorg við missi ástvinar eða náins ætt- ingja að umfjöllunarefni. Bókin skiptist í fjóra kafla. Fyrstu þrír kaflarnir gerast samtímis og eru sagðir út frá sjónarhorni þriggja systkina þar sem byrjað er á þeim yngsta og endað á þeim elsta. Eftir því sem fram vindur kemur í ljós að börnin hafa nýverið misst langömmu sína og takast þau á við sorgina með ólíkum hætti út frá aldri og þroska. Í lokakaflanum ræða systkinin saman um dauðann og velta fyrir sér hvort langamman bíði þeirra hjá stjörn- unum og eins hvort hægt sé að heim- sækja hana þangað. Loftar tú mær? er einstaklega fal- leg bók um vandmeðfarið efni. Myndheimurinn sem Helmsdal skapar er heillandi, en hún blandar saman ljósmyndum af brúðum og teiknuðum bakgrunni. Persónur bókarinnar eru melankólískar furðu- verur sem minna um margt á mann- eskjur, en eru samt ekki raunsæjar. Litadýrð myndheimsins skapar gott mótvægi við þungt umfjöllunarefnið. Mikilvægi samvinnunnar Unglingabókin Segraren (Sigur- vegarinn) eftir Karin Erlandsson er framlag Álendinga í ár. Um er að ræða fjórða og síðasta hlutann í bókaflokknum Legenden om ögon- stenen (Goðsögnin um augasteininn) sem hófst með Pärlfiskaren (Perlu- kafarinn) sem tilnefnd var til sömu verðlauna 2018. Í þessum lokakafla fantasíunnar hitta perlukafar- arnir Miranda og Syrsa loks drottningu rík- isins og fá svör við ýmsum þeim spurningum sem brunnið hafa á þeim í gegnum söguna, en þó er ekki ýkjamargt sem kemur á óvart. Höf- undur gætir vel að því að rifja upp lykilatriði úr fyrri bókum og setja hluti í samhengi, þannig að auðveld- lega má lesa þessa síðustu bók flokksins sem sjálfstæða sögu. Helsti styrkur bókarinnar felst í því að beina sjónum að þránni og vekja lesendur til umhugsunar um það hvert óræð og óuppfyllt þrá getur leitt okkur í blindni á kostnað þess að vera til staðar fyrir ástvini okkar og afkomendur hér og nú. Sagan undirstrikar mikilvægi samstöðu og samvinnu sem er gott veganesti nú á tímum. Misréttið sem sagan þegir um Hin fantasíubókin þetta árið er íslenska unglingabókin Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur. Hér er um að ræða sjálfstætt fram- hald af Koparborginni, sem tilnefnd var til sömu verðlauna 2016, en Villu- eyjar gerist í sama sagnaheimi nokkrum öldum síðar. Í forgrunni eru munaðarlausu systkinin Arilda og Maurice í konungsríki sem nefn- ist Eylöndin. Á sumrin búa þau hjá afa sínum, en á veturna stunda þau nám í heimavistarskóla á eyju þar sem engin önnur hús er að finna. Þess hefur ævinlega verið gætt að nemendur skólans haldi sig nærri skólabyggingunni, en nýr kennari setur bekk Arildu verkefni fyrir sem krefst þess að þau kanni áður óséða staði á eyjunni. Í þeim leiðangri sér og upplifir Arilda hluti sem eiga eftir að hafa afdrifaríkar af- leiðingar fyrir þau systkinin. Arilda líkt og stígur inn í annan heim og kemst í samband við fortíðina sem yfirvöld hafa markvisst reynt að þagga niður og tengist fjöldamorð- um á drúídum, sem voru leiðtogar frumbyggja sem byggðu Eylöndin áður en Georg lagði þau undir sig og varð fyrsti konungur ríkisins. Drúíd- arnir bjuggu yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum sem þeir notuðu til góðs þar til öll sund voru þeim lokuð og þeir ákváðu að hefna sín með geig- vænlegum afleiðingum. Villueyjar er fantasía af bestu gerð sem ber hugmyndaauðgi höf- undar fagurt vitni. Bókin, sem býr yfir flókinni framvindu, er einstak- lega vel plottuð og hæfilega óhugn- anleg. Fínlega er unnið með þær hliðstæður sem auðveldlega má sjá milli Eylandanna og raunheima. Persónusköpunin er sannfærandi og auðvelt fyrir lesendur að hafa samúð með örlögum sögupersóna. Maður er manns gaman Íslendingar tilnefna enn fremur myndabókina Egill spámaður eftir Lani Yamamoto, sem einnig var til- nefnd fyrir Stínu stórasæng 2014. Titilpersóna verksins er hæglátur og innhverfur drengur sem talar helst ekki af ótta við að allt komi vit- laust út úr hon- um. Af þeim sökum sækist hann ekki eftir félagsskap ann- arra. Reglu- festa skapar honum mikilvægt öryggi og hluti af rútínunni er að fara niður í fjöru á hverjum laugar- degi með almanakið sitt og fylgjast með sjávarföllum sem breytast dag- lega, en í ákveðnu kerfi. Einn laugar- daginn verður nýja stelpan í skól- anum á vegi hans og án margra orða ná þau saman í þeim leik að kasta steinum í sjóinn. Samveran yljar og gleður á lágstemmdan hátt. Sagan er líkt og titilpersónan spör á orð, en myndirnar miðla miklu um bæði framvindu og líðan persóna. Hér er á ferðinni falleg og ljúf saga sem nota- legt er að sökkva sér ofan í. Óður til lífsgleðinnar Síðast en ekki síst er komið að framlagi Dana, sem tilnefna tvær undurfallegar myndabækur. Annars vegar er um að ræða Ud af det blå (Bara sisvona) eftir Rebeccu Bach- Lauritsen sem Anna Margrethe Kjærgaard myndlýsir og hins vegar Min øjesten (Augasteinninn minn) eftir Merete Pryds Helle sem Helle Vibeke Jensen myndlýsir. Ud af det blå á það sameiginlegt með Agli spámanni að fjalla um dreng sem hefur þörf fyrir að hafa allt í röð og reglu til að skapa öryggi. Lesendur fá að fylgjast með tveimur mjög ólíkum dögum í lífi drengsins, fyrir og eftir að óvæntan gest ber að garði. Fyrri daginn sjáum við drenginn sýsla við ýmislegt á heimili sínu, borða morgunmat, vökva blómin, æfa sig á píanó og telja brauðmola. Knappur textinn einkennist af endurtekningu sem virkar sefjandi, en sífellt er þó gefið til kynna að eitt- hvað vanti. Um leið og drengurinn sofnar í lok dags dreymir hann mjúkan pels. Daginn eftir sjáum við hann fara í gegnum sömu rútínu til þess eins að uppgötva að hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að sér að vera. Þegar hann finnur risastóran skógarbjörn í felum undir borði gleðst hann yfir því að vera loks kominn með félaga og lesendur njóta þess að sjá þá bregða á leik. Kjærgaard vinnur í myndum sín- um aðeins með tvo liti á rjómagulum pappír, það er brúni litur bjarnarins og blái litur drengsins. Hún kynnir þriðja litinn ekki til sögunnar fyrr en á lokametrunum þegar kinnar drengsins verða rósrauðar af gleði. Blá mynstur eru áberandi á mynd- fletinum fyrri hluti bókar og endur- spegla regluna sem ríkir hjá drengn- um, en mynstrin víkja markvisst í seinni hlutanum þegar ímyndunar- aflið, leikurinn og gleðin taka völdin. Myndirnar, sem ávallt eru staðsettar á hægri síðu hverrar opnu, eru fullar af skemmtilegum smáatriðum, eins og þegar málverk af birni uppi á vegg tekur sífelldum breytingum milli síðna. Ud af det blå er sannkall- aður óður til lífsgleðinnar og vinátt- unnar. Þetta er allt í senn falleg, vönduð og frumleg bók sem vonandi ratar fyrr en seinna til íslenskra les- enda á öllum aldri í góðri þýðingu. Sérðu það sem ég sé? Min øjesten segir sögu systra sem ná þurfa sáttum. Sú sem segir sög- una þjáist af samviskubiti yfir því að hafa hjólað á stein og dottið með þeim afleiðingum að systir hennar missti augað og þarf nú að vera með auga úr gleri. Faðir stúlknanna segir dóttur sinni að slysið sé ekki henni að kenna, en hún á erfitt með að trúa honum þar sem hann segir líka að hann beri ekki ábyrgðina á því að mamma systr- anna hafi yfirgefið heimilið stuttu eftir slysið. Í ljós kemur að ástarauga föðurins var orðið blint. Sjónin er nátengd skiln- ingi okkar, en í samskiptum systr- anna verður ljóst að sjá má fleira en það sem fyrir augað ber. Texti Helle er bæði ljóðrænn og dýnamískur. Jensen vinnur í mynd- um sínum með hringlaga form sem birtast sem augu, vindmyllur, tungl- ið og steinninn sem olli slysinu. Hringirnir virka dáleiðandi og minna ýmist á kviksjá sem bregða má fyrir augað eða mandölur úr austrænni heimspeki. Notkun myndhöfundar á klippimyndum er áhrifarík og skapar fallega heild í þessu heillandi prentverki. Sambandsleysi við lesendur Rétt er að geta þess hér í lok seinni greinarinnar um tilnefndu bækur ársins að þær eru allar, ásamt öllum vinningsbókunum frá upphafi, aðgengilegar almenningi á frummál- unum á bókasafninu í Norræna hús- inu. Umhugsunarvert er að frá því Barna- og unglingabókmenntaverð- laun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 2013 hafa aðeins fjórar þeirra um níutíu bóka sem tilnefndar hafa verið á öðrum tungumálum en íslensku komið út í íslenskri þýð- ingu. Þetta eru Öll með tölu eftir Kristin Roskifte frá Noregi sem vann 2019, Tréð eftir Bárð Osk- arsson frá Færeyjum sem vann 2018, Brúnar eftir Håkon Øvreås frá Noregi sem Øyvind Torseter mynd- lýsti og vann 2014 og Flata kanínan eftir Bárð Oskarsson sem tilnefnd var 2014. Að mati undirritaðrar ættu að minnsta kosti tuttugu aðrar til- nefndar bækur síðustu ára fullt er- indi við íslenska lesendur. Þar af slatti þeirra bóka sem tilnefndar eru í ár, enda sérdeilis gott úrval þetta árið. Yfirlýst markmið verðlauna Norðurlandaráðs er, ásamt því að veita viðurkenningu fyrir fram- úrskarandi starf á sviði lista, að auka áhuga á menningarsamkennd Norð- urlanda. Það er til lítils að hampa bókum í veislu eina kvöldstund ef þær rata í framhaldinu ekki til les- enda utan síns málsvæðis. Rýnir skorar því á jafnt ráðamenn og út- gefendur að gera á þessu bragarbót. Sjáaldur Min øjesten er falleg bók sem fjallar um fyrirgefningu og sátt. Hefnd, óhugnaður, þrá og von Seinni kynningin á tilnefndum bókum til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020 Lífsgleðin Ud af det blå er óður til lífsgleðinnar og vináttunnar.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.