Morgunblaðið - 21.11.2020, Qupperneq 35
MINNINGAR 35
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. NÓVEMBER 2020
þann dag í dag geri ég það oft
ósjálfrátt. Við höfum rúntað ansi
mikið saman með Geirmund í
græjunum og sungum mikið með.
Við fjölskyldan fórum einnig
oft með ykkur ömmu í útilegur á
sumrin og þaðan eigum við marg-
ar skemmtilegar minningar. Þú
varst mikið inni í hjólhýsi hjá okk-
ur að spila eða leggja kapal, því
inni hjá okkur þurfti ekki að passa
jafn mikið upp á mylsnuna eða
tóbakið.
Margar eru minningarnar, ég
trúi því að nú sért þú á betri stað
og að pabbi minn hafi tekið vel á
móti þér.
Nú set ég lagið okkar á fóninn,
Nú er ég léttur með Geirmundi,
tek upp spilastokkinn og legg einn
kapal þér til heiðurs.
Sofðu rótt, elsku afi.
Þín
Bára Sif.
Elsku afi, fyrst komið er að
leiðarlokum í bili þá vil ég segja
þér frá þeirri minningu sem kem-
ur einna helst upp í hugann. Ég
var um það bil 11 ára gömul, örlít-
ið óörugg, rétt áður en langt var af
stað í mína fyrstu hestaferð. Þú
tekur eftir því og segir „mundu að
vera ákveðin“. Lengra var það nú
ekki, en skilvirkari hefðu þessu
orð ekki getað verið. Nú af öllum
þeim ævintýrum, sögum og eða
ráðleggingum sem þú gafst mér,
þá get ég lofað þér því að ég mun
halda áfram að vera ákveðin.
Brynja.
Elsku afi.
„Þetta er Diljá, barnabarnið
þitt,“ líkt og við hófum öll okkar
símtöl. Það er ekki okkur líkt að
flækja hlutina um of. Hvíl í friði,
afi minn, þín er sárt saknað.
Takk fyrir allt.
Diljá.
Í dag er kvaddur góður æsku-
vinur, Gunnar Árni Sveinsson.
Þegar ég hugsa til baka er margs
að minnast. Við Gunnar ólumst
upp í sjávarplássi sem byggði af-
komu sína á því sem sjórinn gaf.
Unglingsárin gengu ljúft í leik á
Skagaströnd og var bryggjan ansi
oft leiksvæðið okkar. Sjómennsk-
an hófst snemma og mikið vorum
við montnir ungir menn þegar
okkur bauðst pláss á Sæljóninu
RE-317 sem var svo að segja nýtt
síldveiðiskip sem gert var út frá
Reykjavík. Þar var mikið gaman
og margt nýtt sem bar fyrir augu
og áhöfnin var frábær. Það var
víða komið við á næstu árum eins
og títt er hjá ungu fólki. Á síld-
veiðum á Húna HU-1 árið 1960 er
ákveðið að sækja um inngöngu í
Sjómannaskólann í Reykjavík og
gekk það eftir. Við vorum saman í
herbergi á heimavistinni við skól-
ann. Þær eru margar minning-
arnar frá þeim frábæra tíma. Eft-
ir útskrift var farið á vertíð í
Ólafsvík sem gekk vel en eitthvað
var Gunnari farið að leiðast að
deila herbergi með mér því að
þeim fækkaði hratt nóttunum sem
hann skilaði sér heim í herbergi
en þá var ung og glæsileg kona að
norðan komin í spilið, hún Bára
Þorvaldsdóttir sem varð svo lífs-
förunautur hans, stoð og stytta.
En hugur okkur stefndi á eigin
útgerð. Við félagarnir ásamt Birni
Haraldssyni festum kaup á 10
tonna bát, Hafrúnu HU-15, árið
1961 sem við gerðum út í okkar
heimabyggð. Þarna hófst skip-
stjórnarferill Gunnars. Þetta
samstarf varði ekki lengi og nýjar
áskoranir tóku við og fór Gunnar
til starfa sem skipstjóri hjá Hóla-
nesi hf. Eftir það tímabil hóf
Gunnar aftur eigin útgerð með
Eiði Hilmarssyni. Þeir félagar
eignuðust fyrst trillubát sem hét
Flosi, þeir seldu bátinn og keyptu
sig inn í útgerð hér í bæ sem átti
bátinn Vísi. Áfram var haldið og
smíðaður nýr bátur, Auðbjörg
HU-6, og komu nú nýir sam-
starfsmenn að þeirri útgerð. Á
áttunda áratugnum var keyptur
26 tonna bátur í félagi við Indriða
Hjaltason, sem einnig var skírður
Auðbjörg, síðar var Gunnar einn
með útgerðina og átti hann bátinn
í áratugi þar til hann hætti sjó-
mennsku.
Gunnar var hestaeigandi og
hafði mikið yndi af hestum og
naut sín vel í góðum hópi í útreið-
um. Hann var hrókur alls fagn-
aðar og kunni mikið af kveðskap
og sagði vel frá. Þau hjónin eign-
uðust húsbíl sem þau nýttu til
ferðalaga um landið okkar og
eignuðust góðan hóp félaga í þeim
ferðum. Svo voru það spilin sem
Gunnar var sennilega með í hönd-
unum nærri hvern dag, hann var
briddsspilari og keppti í þeirri
íþrótt. Margir Skagstrendingar
eiga eftir að minnast Gunnars í
tengslum við sjómannadaginn,
hann var mikill keppnismaður og
tók þátt í reiptogi og róðri. Hann
stýrði seinna reiptogskeppninni
niður á plani, þar var oft heitt í
kolunum og tók hann sig vel út við
stjórnvölinn, þessi stóri glæsilegi
maður í frakkanum sínum.
Við munum ylja okkur við góð-
ar minningar, öll ferðalögin inn-
anlands sem utan, við fjölskyldan
þökkum samfylgdina, kæri vinur.
Elsku Bára okkar, Gunnar Þór,
Anna Bogga, Ása og fjölskyldur,
megi Guð varðveita ykkur og
styrkja.
Gylfi Sigurðsson og
Guðrún Guðbjörnsdóttir.
Vinur okkar Gunni Sveins hef-
ur kvatt þessa veröld og langar
okkur til að minnast hans með ör-
fáum orðum. Margt kemur upp í
hugann af samskiptum okkar
gegnum tíðina. Ein mín fyrsta
vinna fyrir kaupi var hjá Gunna,
þá eitthvað í kringum 10 ára. Það
var við að hnýta línukróka á
tauma. Gunni borgaði í beinhörð-
um peningum og tíndi peningana
niður í línubalann sem hann var
að beita. Ég labbaði út alsæll.
Seinna lágu leiðir okkar saman
þegar ég réð mig á fyrsta Arnar
sem Skagstrendingur hf. átti. 180
tonna bátur. Gunni var þar stýri-
maður. Í áhöfninni voru nokkuð
margir uppivöðslusamir ungling-
ar sem sjálfsagt var erfitt að
stjórna en Gunni kunni lagið á
okkur. Hann var ótrúlega laginn
við að hafa ofan af fyrir okkur ef
fiskirí var lítið. Mikið spilað á spil,
sagðar sögur og farið í ýmiskonar
ráðgátukeppnir. Man ég eftir að
þegar við stóðum stundum í mik-
illi aðgerð, þá lét hann okkur
syngja við mikla kátínu. Dæmdi
Gunni svo hvern og einn eftir
frammistöðu sinni við sönginn.
Eitt sinn var farið í siglingu með
aflann til Grimsby í Englandi.
Fannst mér merkilegt þegar
Gunni bað mig að koma með sér
upp í bæ til að kaupa gjafir handa
börnunum sínum. Man ég að
hann lagði mikið upp úr því að
leikföngin væru þroskandi. Gunni
var svo mikill félagi og var okkur
fyrirmynd. Afar góður sjómaður.
Upp úr 1970 voru margir að
byggja hús og tókum við allir þátt
í að hjálpa hver öðrum. Lenti ég
stundum í steypuvinnu hjá Gunna
þegar hann var að byggja húsið
þeirra Báru við Bogabrautina.
Seinna á lífsleiðinni áttum við
Guðbjörg mín þess kost að fara í
ferðalög með þeim Gunna og
Báru á húsbílunum okkar ásamt
fleiri vinum. Var þá gjarnan farið
í leiki og mikið spilað á spil. Einn-
ig svokallað kubbaspil. Var mað-
ur stundum með strengi í hand-
leggjunum í marga daga eftir
viðureignina við Gunna. Gunni
var svo mikill keppnismaður.
Mætti segja margar sögur frá
þessum ferðalögum. Gunni var
heimsborgari og líka mikill
sveitamaður í sér og hafði mikið
gaman af hestum og átti marga
góða hesta um ævina. Ég tel það
hafa verið okkar happ og forrétt-
indi að hafa fengið að kynnast
Gunna og ég að hafa siglt með
honum.
Elsku Bára okkar og fjöl-
skylda. Okkar dýpstu samúðar-
kveðjur.
Finnur og Guðbjörg.
✝ HrafnhildurValdimars-
dóttir fæddist 22.
nóvember 1941.
Hún varð bráð-
kvödd á heimili
sínu 13. júlí 2020.
Móðir hennar var
Víbekka H. Jóns-
dóttir húsmóðir, f.
12.12. 1911, d. 5.6.
1990, og faðir
hennar var Valdi-
mar Ólafsson hjá rafveitunni,
f. 9.1. 1904, d. 20.5. 1978.
Bróðir hennar var Örn, f.
4.12. 1936, d. 5.8. 1986.
Hrafnhildur giftist Jóni Ó.
Ragnarssyni, f. 29.6. 1939,
veitingamanni. Börn þeirra
eru tvö: Júlíana, f. 30.11. 1968,
og Valdimar, f. 26.6. 1965.
Börn Júlíönu eru Jón Högni, f.
1.12. 2000, og Víbekka Íris
Yrja, f. 2.1. 2010. Börn Valdi-
mars eru Hrafnhildur Birta, f.
19.6. 1998, Hákon Rafn, f.
13.10. 2001, og
Ragnar, f. 4.9.
2014.
Hrafnhildur ólst
upp á Leifsgötu
og síðar í Með-
alholti. Hún gekk í
Austurbæjarskóla.
Hrafnhildur fór í
húsmæðraskóla til
Danmerkur, í
framhaldi af því
lærði hún fótaað-
gerðafræði hjá Dr. Scholls í
Kaupmannahöfn. Hrafnhildur
vann samhliða manni sínum
við hótel- og veitingarekstur.
Einnig við rekstur kvikmynd-
hússins Regnbogans sem þau
stofnuðu og ráku um langt
skeið.
Síðustu árin dvaldi Hrafn-
hildur langtímum á Spáni
ásamt manni sínum.
Útför Hrafnhildar fór fram
í kyrrþey að ósk hennar 23.
júlí 2020.
Elsku amma. Takk fyrir okk-
ur og þá daga sem við fengum
að njóta með þér á Spáni í sum-
ar. Minning um örláta, hlýja og
bestu ömmu lifir með okkur á
hverjum deg. Við elskum þig og
söknum.
Jón Högni og Víbekka.
Hrafnhildur frænka mín og
vinkona varð bráðkvödd í
svefni. Andlátið var mjög
óvænt enda hafði hún alltaf
verið frekar hraust.
Við erum bræðradætur, feð-
ur okkar yngstir af 14 systk-
inum sem fæddust og ólust upp
í Stóra-Skógi í Miðdölum í
Dalasýslu. Valdimar var einu
ári eldri en pabbi og Hrafn-
hildur níu mánuðum eldri en
ég. Við höfum því verið sam-
ferða í bráðum 78 ár.
Í æsku voru fjölskyldurnar
mikið saman, t.d. alltaf á jólum.
Eftir að pabbi keypti bíl var
farið í margar ferðir saman um
landið og ekki síst vestur í Dali.
Öllum pakkað í bílinn og brun-
að eftir þessum vondu vegum.
Þá voru nú engar reglur um
það hversu margir mættu vera
í bílnum, eins gott. Við sungum
venjulega mikið á leiðinni og
aldrei kvörtuðu foreldrar okk-
ar.
Við frænkur gengum báðar í
skátahreyfinguna, fórum í úti-
legur og áttum skemmtilegar
stundir. Hrafnhildur var alltaf
hress og skemmtileg, mjög já-
kvæð eins og foreldrar hennar.
Við áttum báðar góða og
skemmtilega æsku.
Hrafnhildur fór í húsmæðra-
skóla í Danmörku í eitt ár og
svo að vinna í Kaupmannahöfn
eftir það.
Hún vann m.a. í mjög virðu-
legri búð í höfuðborginni, sem
heitir Dr. Scholls og er örugg-
lega enn þá til, held ég. Ég
heimsótti hana þangað eitt
sumarið í hálfan mánuð og við
áttum dásamlega daga. Í minn-
ingunni var sól og 30 stiga hiti
allan tímann.
Við giftum okkur báðar sama
árið og eignuðumst okkar
fyrstu börn með tveggja mán-
aða millibili. Síðan tók lífsbar-
áttan við og samveran minnk-
aði, en alltaf vorum við mjög
tengdar og í góðu sambandi.
Síðustu ár hefur Hrafnhildur
dvalið mikið á Spáni, enda elsk-
aði hún hitann og sólina. Hún
var nýkomin þaðan þegar hún
sofnaði svefninum langa og við
höfðum ekki hist í marga mán-
uði. Ég sá núna þegar ég fór að
athuga gömul gögn, að þær
mæðgur, Hrafnhildur og Vi-
bekka, voru næstum því jafn-
gamlar þegar þær létust. Örn
bróðir hennar var aðeins 49 ára
þegar hann féll frá. Það er því
öll eldri kynslóð fjölskyldunnar
farin.
Þetta er mikið áfall fyrir
fólkið hennar, og votta ég þeim
Jóni, Valda, Júllu og börnum
þeirra mína innilegustu samúð.
Sjáumst síðar kæra frænka
mín.
Sigríður Gústafsdóttir.
Hrafnhildur mín. Já, aldur er
afstæður þegar kemur að vin-
áttu, ég hélt að þú færir ekki á
undan mér, sem er þér eldri.
Í dag kveð ég góða vinkonu
sem ég kynntist þegar ég fór
að vinna hjá fjölskyldu manns
hennar á Þingvöllum 1967 og
var í þessari Þórskaffifjöl-
skyldu í mörg ár því systkinin
voru og ráku þetta fyrirtæki á
mörgum stöðum í fleiri ár.
Svo varst þú, Hrafnhildur
mín, uppalin í Meðalholtinu og í
sama húsi bjuggu foreldrar vin-
konu minnar Ingerar sem flutti
svo til Danmerkur með danska
manninum sínum. Ég kom því
oft í Meðalholtið og þá hitti ég
oft foreldra þína – yndisleg
hjón sem bæði eru látin nú.
Þegar þú, Hrafnhildur mín,
varst með börnin þín smá á
Þingvöllum hafði ég gaman af
að hitta þau og elta um. Valdi-
mar var ekki stór þegar við fór-
um í berjamó og hann var svo
glaður að vera kominn með
fleiri ber í fötuna en hann skildi
ekki að þetta voru lambaspörð.
Svo liðu árin og við hittumst
alltaf af og til og eins og geng-
ur og gerist eignaðist ég stóra
fjölskyldu.
Þegar börnin svo stækkuðu
fór ég að fara til Spánar, Ali-
cante, og þá voruð þið Jón þar
líka. Ég og Siddi maðurinn
minn fórum í margar góðar
ferðir með ykkur því þið voruð
svo góð að hafa okkur með. Við
heimsóttum ykkur líka í Selju-
gerðið þegar við komum í bæ-
inn.
Í vetur eða vor áður en plág-
an kom hringdi Jón í mig og
sagði: „Við hittumst í haust á
Spáni!“ og ég hélt það nú.
En svona getur lífið verið,
enginn veit sína ævina fyrr en
öll er og aldur hefur ekkert
með það að gera.
Ég votta Jóni, börnunum og
fjölskyldum þeirra mína dýpstu
samúð.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Samúðarkveðjur,
Bryndís Flosadóttir og
Sigtryggur Benedikts
(Biddý og Siddi).
Hrafnhildur
Valdimarsdóttir
Vesturhlíð 2 | Fossvogi | s. 551 1266 | utfor@utfor.is | utfor.is
VIÐ ÞJÓNUM ALLAN SÓLARHRINGINN
Útfararþjónusta
í yfir 70 ár
Óli Pétur
Útfararstjóri
s. 892 8947
Dalsbyggð 15, 210 Garðabær
Sími 551 3485 • olip2409@gmail.com
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir
og amma,
ÓLÖF GUÐRÍÐUR
SIGURSTEINSDÓTTIR,
lést á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi
15. nóvember.
Útförin fer fram frá Akraneskirkju þriðjudaginn 24. nóvember
klukkan 13. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu munu einungis
nánustu aðstandendur verða viðstaddir. Útförinni verður
streymt frá vef Akraneskirkju www.akraneskirkja.is
Jón Sigurðsson Brynhildur Magnúsdóttir
Jakob Sævar Sigurðsson
Magnús H. Sigurðsson Sesselja Salóme Tómasdóttir
og barnabörn
Okkar ástkæra eiginkona, móðir,
tengdamóðir, amma og langamma,
ANNA LÓA MARINÓSDÓTTIR,
Holtsbúð 22, Garðabæ,
lést á heimili sínu umvafin fjölskyldu sinni
föstudaginn 13. nóvember.
Anna Lóa verður jarðsungin frá Vídalínskirkju þriðjudaginn
24. nóvember klukkan 13.
Vegna aðstæðna verða einungis nánustu ættingjar viðstaddir.
Útförinni verður streymt á vefslóðinni
https://youtu.be/cYsNrg2T55o
Einnig verður hægt að nálgast útsendingu á mbl.is/andlat.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á styrktar- og líknarsjóð
Oddfellow.
Fjölskylda Önnu Lóu vill koma á fram miklu þakklæti til alls
starfsfólks Kvennadeildar Landspítala 21A
Pálmi Sigurðsson
Marinó Pálmason Guðbjörg Erlingsdóttir
Steinar Pálmason Sigríður Birgisdóttir
Sigurður Pálmason Valdís Harrysdóttir
Lovísa Anna Pálmadóttir
barnabörn og barnabarnabörn
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
ÁRÓRA HELGADÓTTIR,
lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð
fimmtudaginn 12. nóvember. Hún verður
jarðsungin frá Digraneskirkju föstudaginn
27. nóvember klukkan 13.
Vegna aðstæðna verða einungis nánustu ættingjar viðstaddir.
Útförinni verður streymt og verður hún aðgengileg á
mbl.is/andlát.
Árni Jóhannesson Laufey Valdimarsdóttir
Sólveig Jóhannesdóttir Gunnar Árnason
Sigurlaug M. Guðmundsd. Pétur Hjaltested
Jóhannes Kristberg Árnason
Helga Árnadóttir
Árni Kristinn Gunnarsson Regína Diljá Jónsdóttir
Hörður Gunnarsson Ólöf Önundardóttir
Gunnar Snær Gunnarsson
og barnabarnabörn