Lögmannablaðið - 2020, Síða 16

Lögmannablaðið - 2020, Síða 16
16 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 í vafa um það hvort lögmennskan hentaði mér þá skýrðist það algerlega fyrir mér á þessum mánuði. Hugarfar mitt lá þá þegar í aðra átt og ég var satt að segja ekki með rétta hugsunarháttinn í lögmennsku. Fólk kom þarna inn af götunni og sagðist hafa lent í umferðarslysi eða öðrum málum. Ég sat og hlustaði á meðan það lýsti óförum sínum og loksins þegar það var búið sagði ég undantekningarlaust: „nei, þetta er alveg vonlaust“. Ég var við það að setja praxísinn hans Garðars á hliðina á þessum eina mánuði sem ég starfaði þarna.“ Markús skrifaði lokaritgerð sína sumarið eftir fjórða árið í lögfræðinni og var í raun búinn með námið eftir jólapróf árið 1978. Hann útskrifaðist þó ekki formlega fyrr en í júní 1979 og hélt þá um sumarið til náms í Det Retsvidenskabelige Institut við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kom heim úr framhaldsnáminu snemma árs 1981 og fór þá að vinna hjá Borgarfógetanum í Reykjavík í skiptadeild, þar sem fjallað var um dánarbússkipti, gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvanir, nauðasamninga, skipti vegna hjónaskilnaða og annað slíkt. Hann var skipaður borgarfógeti 1985 og fór fljótlega í það hlutverk innan embættisins að leysa úr deilumálum. Markús vann hjá embættinu fram á árið 1988. Lagadeild Háskóla Íslands og löggjöf á sviði réttarfars Markús byrjaði sem stundarkennari í Lagadeild árið 1984, meðfram aðalstarfi, og kenndi aðallega réttarfar og erfðarétt. Kennslan vatt upp á sig og hann var fljótlega kominn með svipað umfang og fastráðnir kennarar. Snemma á árinu 1988 var Markúsi boðið að verða settur prófessor við deildina en skömmu áður hafði hann farið í leyfi frá aðalstarfi sínu sem borgarfógeti til þess að semja lagafrumvörp vegna fyrirhugaðs aðskilnaðar framkvæmdar- og dómsvalds. Áðurnefndur Garðar Garðarsson, sem Markús hafði unnið einn mánuð hjá mörgum árum áður, vann meðal annars með Markúsi við undirbúning að aðskilnaðinum. Lagafrumvörpin voru að miklu leyti skrifuð á tölvu sem Garðar lánaði Markúsi. „Sú blessaða tölva gaf sig þó á endanum, rétt áður en verkið var klárað. Það heyrðist skyndilega hávært PÚFF í tölvunni einn daginn og upp úr henni stóð reykský. Ég man að þá var ég að vinna síðasta en allra leiðinlegasta verkið af þeim öllum, það voru lög um breytingar á öðrum lögum vegna aðskilnaðarins. Einhverjar 130 eða 140 greinar um alls konar orðalagsbreytingar. Þegar tölvan sprakk fyrir framan mig var mesta áhyggjuefni mitt hvort ég þyrfti virkilega að byrja upp á nýtt á þessu öllu saman. Einhvern veginn var þó hægt að bjarga þessu.“ Markús var skipaður prófessor við Lagadeildina frá vorinu 1988 þar til hann var skipaður hæstaréttardómari 1. júlí 1994. Markús hafði ætlað sér að skrifa bækur um allar hliðar réttarfars, einkamálaréttarfar og fullnustugerðir í heild sinni, en náði einungis að skrifa dómasafn í einkamála- réttarfari, bók um aðfarargerðir og fjölrit fyrir kennslu í einkamálaréttarfari, fyrir utan handbækur um fullnustu- gerðir og skipti. „Ég var að fara í rannsóknarleyfi og vildi ekki skilja fólk eftir gersamlega tómhent þannig að frekar í flýti varð þetta einkamálaréttarfars-stykki til. Svo fór ég nánast úr því rannsóknarleyfi beint í Hæstarétt, þannig að lengra hefur þetta rit ekki farið“. Markús segir að nú standi til að taka upp þráðinn og halda skrifum áfram. Markús segist ekki hafa fundið mun á því hvernig hann nálgaðist réttarfarið sem fræðimaður annars vegar og dómari hins vegar. „Að vísu eru tilefnin til þess að nálgast réttarfarið ólík. Sem dómari er réttarfarið oftar en ekki þessar reglur sem eru bara þarna við hliðina á og maður er ekki endilega að velta því fyrir sér dags daglega nema það reyni sérstaklega á það. Sem fræðimaður er maður oft að horfa á allt sviðið frekar en afmarkaða spurningu. Kennslan var vissulega í hefðbundnu fyrirlestrarformi en ég fór fljótt að nota raunhæf verkefni sem ég lagði fyrir nemendur með reglulegu millibili. Svo voru prófin að stærstum hluta raunhæf verkefni en ekki stórar ritgerðarspurningar. Það helgaðist kannski öðrum þræði af því að það var ekki til kennslubók sem hægt var að ætlast til að nemendur myndu styðjast við í slíkum spurningum. Námsefnið var fyrst og fremst fyrirlestrarnir og ekki gat ég af öllum mönnum ætlast til þess að fólk mætti í alla tíma og lærði utan að einhverja fyrirlestra. En þessi raunhæfu verkefni voru ekki síður til að reyna á skilning fólks. Sannast sagna fannst mér sjálfum þegar ég lauk námi í lagadeild að ég hefði fengið tiltekna einkunn í minni en ekki lögfræði. Það var alltof mikið lagt upp úr ritgerðarspurningum og svo taldi kennarinn bara punktana sem komu fram í svarinu. Á þessum árum vorum við Þorgeir Örlygsson sameiginlega með umsjón yfir fyrirbærinu „raunhæf verkefni“ og fengum til liðs við okkur menn úti í bæ, lögmenn og dómara. Hægt var að klára helming námskeiðsins með því að taka þátt í réttarhaldi. Fólk samdi stefnu og greinargerð og svo var haldið réttarhald þannig að hægt var að læra meira út frá praktíkinni.“ Réttarfarið notað meira í dag en áður Aðspurður um þróun réttarfars og hvort réttarfarsúrlausnum hafi fjölgað telur Markús að það sé líklega í samræmi við fjölgun dómsmála almennt. Mögulega hafi þetta þó einnig

x

Lögmannablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.