Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 ÁFELLISDÓMUR – HVAÐ SVO? Á fullveldisdegi okkar Íslendinga fengum við á okkur áfellisdóm frá Mannréttindadómstól Evrópu er 17 dómarar yfirdeildarinnar komust einróma að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. gr. MSE. En hvað tekur nú við? Hefur þessi dómur einhver áhrif á dómsniðurstöður Landsréttar, mun hinn nýi endurupptökudómstóll sem tók til starfa á fullveldisdaginn, reyndar án dómara, verða yfirhlaðinn af endurupptökubeiðnum og hvernig fer með kostnað vegna þeirra mála er þurfti að endurflytja fyrir Landsrétti? Sannanlega er um alvarlegt brot að ræða eins og MDE rekur ítarlega en dómurinn tekur þó sérstaklega fram að engin skylda sé til endurupptöku mála. Í því felst að dómsniðurstöður Landsréttar standa og þar af leiðandi verður ekki séð að dómurinn hafi mikla röskun í för með sér í reynd. Hins vegar er mikilvægt að íslensk stjórnvöld fari vel yfir þær athugasemdir og leiðbeiningar sem fram koma í dóminum og geri nauðsynlegar ráðstafanir þar að lútandi. Þrátt fyrir að MDE hafi metið það svo að niðurstaða hans fæli ekki sér upptöku þegar dæmdra mála þá er viðbúið að einhverjir þeirra málsaðila munu óska eftir endurskoðun mála sinna. Með breytingum á ákvæðum um endurupptöku mála hafa skilyrði til að sækja um endurupptöku fyrir nýjum endurupptökudómstól verið rýmkuð. Nú geta niðurstöður alþjóðlegra dómstóla talist ný gögn eða nýjar upplýsingar og því ættu aðilar að geta beiðst endurupptöku að öðrum skilyrðum uppfylltum. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig hinn nýi endurupptökudómstóll mun taka á þeim málum, sem vafalaust munu berast. Þá er jafnframt viðbúið að látið verði reyna á skaðabóta- skyldu ríkisins vegna endurflutnings mála fyrir Landsrétti. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum þurfti að endurflytja 14 mál samkvæmt ákvörðun réttarins í kjölfar dóms undirdeildar MDE í mars s.l. en af hálfu ríkisins hefur beiðni aðila um endurgreiðslu kostnaðar vegna endurflutnings málanna verið hafnað. Það er því ekki úr vegi að rifja upp niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 418/1997 en þar var fallist á ábyrgð ríkisins á kostnaði við að endurflytja eitt af hinum svokölluðu fulltrúamálum. Það mál laut að því að aðili höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu og krafðist greiðslu þess kostnaðar er hann hafi orðið fyrir vegna endurflutnings máls fyrir dómstólum. Nánar tiltekið þá hafði áfrýjaður dómur verið felldur úr gildi með dómi Hæstiréttar hinn 7. júní 1995 og öll meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar. Var sú niðurstaða byggð á dómi Hæstaréttar frá 18. maí 1995 í máli nr. 103/1994 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að „staða dómarafulltrúa, eins og henni er nú fyrir komið, uppfylli ekki grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvaldsins ...“. Málsmeðferð hófst að nýju fyrir héraðsdómi og dómur kveðinn upp í því máli í mars 1996. Gagnaðili áfrýjaði til Hæstaréttar en þar var málið fellt niður án kostnaðar. Í framhaldinu höfðaði aðilinn mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu þess kostnaðar er hann varð fyrir vegna endurflutnings málsins. Í dóminum tiltók Hæstiréttur að enda þótt meðferð Héraðsdóms Reykjavíkur á málinu að því er varðar úthlutun til dómarafulltrúa og umfjöllun hans um málið hafi verið í samræmi við það sem tíðkast hafði, hafi engu að síður verið brotinn réttur á stefnda við meðferð þessa með þeim afleiðingum að málskot hans til Hæstaréttar ónýttist. Hæstiréttur vísaði til mannréttindasáttmálans og taldi að líta yrði til þess að um brot á mikilvægum grundvallarréttindum væri að ræða og taldi lagagrundvöll vera til þess að telja áfrýjanda ábyrgan fyrir þessu tjóni stefnda. Var íslenska ríkið því dæmt til að greiða umkrafinn kostnað vegna endurflutnings málsins. BERGLIND SVAVARSDÓTTIR LÖGMAÐUR FORMAÐUR

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.